Hoppa yfir valmynd

Inngangsorð forstjóra

Ísland er eyríki sem treystir á flugsamgöngur og verslun við aðrar þjóðir. Við viljum taka vel á móti gestum okkar sem koma til landsins, en einnig geta upplifað gleðina við að ferðast til framandi slóða, upplifa nýja menningarheima, skiptast á þekkingu og vörum við aðrar þjóðir. Með því verða framfarir og við sköpum hagvöxt fyrir þjóðarbúið.  Við hjá Isavia gerum okkur jafnframt grein fyrir því að vöxturinn verður að vera sjálfbær og við verðum að vinna í sátt við samfélag okkar. 

Það er gleðiefni að flugiðnaðurinn á heimsvísu er að vinna saman að aðgerðum til að minnka kolefnislosun. Við áttum okkur líka á því að við verðum að leggja okkar lóð á vogarskálina og að samvinna er lykilatriði til að ná árangri.  Við höfum sett okkur stefnu og aðgerðaráætlun, sem við munum vinna markvisst að í samvinnu við okkar viðskiptafélaga.  Við munum m.a. vinna með nágrannasveitarfélögunum við Keflavíkurflugvöll að framtíðarsýn fyrir svæðið með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Enda er Keflavíkurflugvöllur stærsti vinnustaðurinn á Reykjanesi og vaxandi umfang flugvallarins hefur því mikil áhrif á vöxt sveitarfélaganna í kring.

Árið 2018 var annað annasamt ár hjá okkur. Farþegahreyfingar um flugvelli Isavia í heild námu tæplega 10,6 milljónum, en það var tæplega 11% aukning frá árinu 2017. Millilandafarþegum um íslenska áætlunarflugvelli fjölgaði úr tæpum 8,8 milljónum í rúmlega 9,8 milljónir, eða um 12% milli ára. Innanlandsfarþegum fækkaði á sama tíma úr rúmlega 772 þúsund í rétt tæplega 737 þúsund, eða um tæp 5%.

Rekstur ársins gekk vel og þrátt fyrir hægari farþegaaukningu en ráð var fyrir gert á seinni hluta ársins var rekstrarafkoma í samræmi við upphaflegar fjárhagsáætlanir félagsins. Rekstrartekjur samstæðunnar námu tæplega 42 milljörðum króna og hækkuðu um 3,8 milljarða króna milli ára eða um tíu prósent. EBITDA, þ.e. afkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, hækkar um tæpan einn og hálfan milljarð króna eða 15 prósent. Heildareignir námu 79,8 milljörðum króna í árslok 2018 og hækkuðu um 7,3 milljarða króna milli ára. Staða handbærs fjár var áfram góð um síðustu áramót sem og aðgengi félagsins að lánsfé til áframhaldandi uppbyggingar. Skattaspor Isavia var 9.153 m.kr. fyrir árið 2018. Það er sá hluti sem samstæðan greiðir eða innheimtir í formi skatta og opinberra gjalda, ásamt mótframlagi í lífeyrissjóði starfsfólks.

Aukin umsvif og vöxtur kallar á nýjar lausnir auk þess sem miklar áskoranir eru í heiminum.  Með það í huga var stefna Isavia endurskoðuð. Aukin áhersla var sett á samfélagsábyrgð í samræmi við stefnu félagsins sem var sett um málaflokkinn árið 2016. Við munum vinna áfram að innleiðingu stefnunnar í samvinnu við starfsfólk okkar, viðskiptafélaga og nærsamfélagið. 

Við höfum verið aðili að alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna (UN Global Compact) frá 2016. Með þátttöku skuldbindur félagið sig til þess að stefna og starfshættir séu í samræmi við tíu meginreglur Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi, vinnumál, umhverfismál og aðgerðir gegn spillingu. 

Við vinnum markvisst að málaflokknum á ýmsum sviðum og félagið setur metnaðarfull markmið á hverju ári. Við val á markmiðum og úrbótaverkefnum þeim tengdum er m.a. horft til stefnu félagsins, samtala við hagaðila, meginreglna UN Global Compact, heimsmarkmiðin og áherslna stjórnvalda þeim tengdum. Markmið ársins 2019 tengjast sex af heimsmarkmiðunum sautján.

Við skuldbindum okkur jafnframt til að taka þátt í verkefnum sem styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og birta opinberlega upplýsingar um samfélagsábyrgð félagsins.


Isavia gefur út árs- og samfélagsskýrslu samkvæmt viðmiðum Global Reporting Initiative í þriðja skipti. Skýrslan er gerð samkvæmt GRI Standards: Core í ár ásamt GRI-G4 sérákvæðum um flugvelli. Sérákvæðin taka sérstaklega á þeim áskorunum og tækifærum sem flugvellir standa frammi fyrir þegar kemur að sjálfbærni.  Horft er til starfsemi félagsins og þeirra áhrifa sem hún hefur á efnahag, umhverfi og samfélagið. Í ár er skýrslan eingöngu gefin út á vefnum. Fjöldi starfsfólks frá  öllum sviðum fyrirtækisins komu að vinnunni við hana og við fengum utanaðkomandi ráðgjafa til að yfirfara og tryggja gæði upplýsinganna. Við fögnum öllum ábendingum um innihald skýrslunnar, enda eru stöðugar umbætur órjúfanlegur hluti af starfsemi okkar.

Lykillinn af því að ná árangri liggur í samstilltu átaki starfsfólks Isavia. Ég vil þakka þeim fyrir vel unnin störf og ánægjuleg samskipti. Við erum eitt lið! Saman gerum við betur.

Í þessari samfélagsskýrslu lýsum við starfsemi Isavia árið 2018. Skýrslunni er skilað inn sem framvinduskýrslu um markmið okkar að Global Compact sáttmála Sameinuðu þjóðanna (UNGC).  Þar með staðfestum við vilja okkur til að vinna í samræmi við tíu meginreglur Sameinuðu þjóðanna og vinna að heimsmarkmiðunum. Við lýsum yfir áframhaldandi stuðningi við UN Global Compact.



Björn Óli Hauksson, forstjóri