Ísland er eyríki sem treystir á flugsamgöngur og verslun við aðrar þjóðir. Við viljum taka vel á móti gestum okkar sem koma til landsins, en einnig geta upplifað gleðina við að ferðast til framandi slóða, upplifa nýja menningarheima, skiptast á þekkingu og vörum við aðrar þjóðir. Með því verða framfarir og við sköpum hagvöxt fyrir þjóðarbúið. Við hjá Isavia gerum okkur jafnframt grein fyrir því að vöxturinn verður að vera sjálfbær og við verðum að vinna í sátt við samfélag okkar.
Það er gleðiefni að flugiðnaðurinn á heimsvísu er að vinna saman að aðgerðum til að minnka kolefnislosun. Við áttum okkur líka á því að við verðum að leggja okkar lóð á vogarskálina og að samvinna er lykilatriði til að ná árangri. Við höfum sett okkur stefnu og aðgerðaráætlun, sem við munum vinna markvisst að í samvinnu við okkar viðskiptafélaga. Við munum m.a. vinna með nágrannasveitarfélögunum við Keflavíkurflugvöll að framtíðarsýn fyrir svæðið með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Enda er Keflavíkurflugvöllur stærsti vinnustaðurinn á Reykjanesi og vaxandi umfang flugvallarins hefur því mikil áhrif á vöxt sveitarfélaganna í kring.