Hoppa yfir valmynd

Stjórnarhættir

Í stjórn Isavia sitja fimm aðalmenn og fimm varamenn kjörnir á hluthafafundi til eins árs í senn. Stjórnarmenn eru tilnefndir til stjórnarsetu af fjármála- og efnahagsráðherra.

Uppbygging og samsetning stjórnarhátta

Isavia er opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins. Um starfsemi félagsins gilda lög nr. 153/2009 um samruna opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar, lög nr. 76/2008 um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar, lög nr. 102/2006 um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarrekstur Flugmálastjórnar og lög um loftferðir nr. 60/1998.

Stjórnarhættir félagsins taka mið af lögum nr. 2/1995 um hlutafélög, almennri eigendastefnu ríkisins frá ágúst 2012, samþykktum félagsins og starfsreglum stjórnar.

Stjórn félagsins hefur í störfum sínum „Leiðbeiningar um stjórnarhætti“ til hliðsjónar og uppfyllir þær í öllum meginatriðum þrátt fyrir að félaginu beri ekki að fylgja leiðbeiningunum lögum samkvæmt.

Þrjár undirnefndir, starfskjaranefnd, endurskoðunarnefnd og framkvæmdanefnd eru starfandi undir stjórn félagsins. Stefna hefur verið sett um samfélagslega ábyrgð. Ekki hafa fallið neinir dómar þar sem félagið er talið hafa brotið í bága við lög eða reglur.

Í stjórn Isavia sitja fimm aðalmenn, og fimm varamenn kjörnir á hluthafafundi til eins árs í senn. Stjórnarmenn eru tilnefndir til stjórnarsetu af fjármála- og efnahagsráðherra. Kynjahlutfall í stjórn Isavia er 40% konur og 60% karlar. Allir stjórnarmenn teljast vera óháðir í skilningi „Leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja“. Allir stjórnarmenn hafa gefið stjórninni skýrslu um eignir sínar í öðrum félögum. Engin þeirra skiptir máli varðandi störf þeirra sem stjórnarmenn Isavia.

Störf og starfsreglur stjórnar

Stjórnin hefur sett sér ítarlegar starfsreglur þar sem helstu verkefni og valdsvið stjórnar og forstjóra eru skilgreind. Gildandi starfsreglur voru samþykktar á stjórnarfundi þann 27. apríl 2018 Þar er m.a. að finna skiptingu starfa innan stjórnar, reglur um hæfi stjórnarmanna til þátttöku í afgreiðslu mála, um fundarsköp og fundargerðir, reglur um þagnarskyldu, upplýsingagjöf gagnvart stjórn og ákvörðunarvald stjórnar.

Stjórnin hefur æðsta vald í málefnum félagsins á milli hluthafafunda samkvæmt lögum og samþykktum félagsins. Meginhlutverk stjórnar er að stýra félaginu milli hluthafafunda og tryggja að nægilegt eftirlit sé haft með reikningshaldi og meðferð fjármuna félagsins auk þess að staðfesta rekstrar- og fjárfestingaáætlanir og sjá til þess að þeim sé fylgt. Stjórn tekur meiriháttar ákvarðanir í rekstri félagsins og sér um að félagið sé rekið í samræmi við lög og reglur sem félaginu ber að fylgja. Þá hefur starf stjórnar það að markmiði að stuðla að viðgangi félagsins og tryggja árangur þess til langs tíma litið með því að setja félaginu stefnu í samstarfi við stjórnendur þess.

Árangursmat stjórnar

Stjórn metur störf sín með reglubundnum hætti, verklag og starfshætti, framgang félagsins, frammistöðu forstjóra svo og skilvirkni undirnefnda séu þær starfandi. Slíkt árangursmat felur m.a. í sér að stjórnin leggi mat á styrkleika og veikleika í störfum sínum og verklagi og hugi að þeim hlutum sem hún telur að betur megi fara. Árangursmat fer fram með tvennum hætti, annars vegar með sjálfsmati sem utanaðkomandi aðili aðstoðaði við í janúar 2018, og hins vegar með sjálfsmati sem fór fram í febrúar 2019.

Innra eftirlit og áhættustýring

Stjórn hefur sett fram heildstæða áhættustefnu félagsins og skilgreint helstu áhættuþætti í rekstri. Helstu áhættur sem fylgja fjármálagjörningum samstæðunnar eru, gengisáhætta, vaxtaáhætta og verðtryggingaráhætta. Sérstök áhættunefnd er starfandi og hefur hún umboð stjórnar til að ákvarða m.a. umfang og eðli mats á áhættu og arðsemisgreininga fyrir framkvæmdir og verkefni sem haft geta marktæk áhrif á rekstur og efnahag. Áhættunefndin sem í sitja forstjóri, aðstoðarforstjóri, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, og deildarstjóri reikningshalds er með reglubundna skýrslugjöf um áhættur félagsins til stjórnar. Félagið hefur ekki starfandi innri endurskoðanda, en endurskoðunarnefnd var sett á laggirnar 2018.

Undirnefndir

Á vegum stjórnar starfar 3 undirnefndir:

Starfskjaranefnd

Í henni sitja formaður og varaformaður stjórnar Isavia. Helstu verkefni starfskjaranefndar er að undirbúa árlega drög að starfskjarastefnu sem lögð er fyrir aðalfund félagsins, undirbúa tillögu til aðalfundar um starfskjör stjórnarmanna og undirbúa tillögu til stjórnar um viðmið fyrir laun og önnur starfskjör forstjóra sem og framkvæmdastjóra dótturfélaga. Starfskjaranefnd hefur eftirlit með því að starfskjarastefnu sé framfylgt og að laun og starfskjör séu í samræmi við lög, reglur og góðar starfsvenjur.

Endurskoðunarnefnd

Í henni sitja þrír aðilar hið minnsta , a.m.k. einn nefndarmaður skal vera óháður félaginu og starfsfólki þess. Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir stjórnarmaður situr í endurskoðunarnefndinni. Aðalhlutverk endurskoðunarnefndar er mat á eftirlitsumhverfi félagsins, greining á virkni innri endurskoðunar, eftirlit með framkvæmd endurskoðunar og gerð tillögu um val á ytri endurskoðanda í samráð við Ríkisendurskoðun skv.7.gr. laga nr. 46/2016 um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreiknings, ásamt mati á óhæði endurskoðanda, mat á virkni áhættustefnu -vilja og -stýringu og tryggja fylgni við gildandi lög og reglur. Endurskoðunarnefndin á að hafa eftirlit með vinnuferli við gerð reikningsskila til að auka traust og öryggi á fjárhagslegum upplýsingum.

Framkvæmdanefnd

Í henni sitja þrír fulltrúar, einn fulltrúi úr stjórn og tveir óháðir nefndarmenn. Stjórnarformaður Isavia situr í nefndinni fh. stjórnar. Framkvæmdanefndin hefur það hlutverk að fjalla um, greina og veita stjórn félagsins álit sitt á öllum fyrirhuguðum fjárfestingum á grunni uppbyggingaráætlunar Keflavíkurflugvallar sem nema hærri fjárhæð en 200 milljónum króna. Markmiðið með Framkvæmdanefndinni er að sjá til þess að fjármunum félagins sé ráðstafaðar af ábyrgð og fagmennsku í nýframkvæmdum.

Forstjóri Isavia

Forstjóri hefur með höndum stjórn allrar daglegrar starfsemi skv. stefnu og fyrirmælum stjórnar. Daglegur rekstur nær ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikilsháttar. Hann hefur ákvörðunarvald um öll rekstrar- og fjárhagsleg málefni félagsins og hefur umsjón með eignum þess. Forstjóri gerir stjórn grein fyrir starfsemi félagsins og afkomu á stjórnarfundum og ber ábyrgð gagnvart stjórn á hinum daglega rekstri og að í öllu sé farið eftir samþykktum félagsins, lögum og reglum.

Björn Óli Hauksson, forstjóri
Björn Óli Hauksson, forstjóri

Fyrirkomulag samskipta hluthafa og stjórnar

Einn hluthafi, íslenska ríkið, á alla hluti félagsins og fer fjármála- og efnahagsráðherra með hluthafavaldið. Boðun á hluthafafund er send til tengiliðs í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Hluthafafundir eru meginvettvangur fyrir upplýsingagjöf til hluthafa sem fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Stjórnarformaður og forstjóri áttu fundi með ráðherra eða fulltrúa hans á síðasta ári. Stjórnin fylgir „Almennri eigandastefnu ríkisins: Hlutafélög og sameignarfélög“ í störfum sínum. Félagið sendir út fréttatilkynningar sem upplýsa um afkomu félagsins og um önnur atriði í rekstrinum.


Stjórnarháttayfirlýsing 2019

Stjórnarháttayfirlýsing 2019 var samþykkt á stjórnarfundi þann 7. mars 2019

Siðareglur

Siðareglur Isavia gilda um alla starfsmenn og stjórnendur Isavia og eru hluti af ráðningarsamningum starfsmanna. Að auki er sérstakur kafli um vanhæfi í starfsreglum stjórnar.Þær eru öllum aðgengilegar á innri vef félagsins og á ytri vef Isavia.