Uppbygging og samsetning stjórnarhátta
Isavia er opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins. Um starfsemi félagsins gilda lög nr. 153/2009 um samruna opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar, lög nr. 76/2008 um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar, lög nr. 102/2006 um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarrekstur Flugmálastjórnar og lög um loftferðir nr. 60/1998.
Stjórnarhættir félagsins taka mið af lögum nr. 2/1995 um hlutafélög, almennri eigendastefnu ríkisins frá ágúst 2012, samþykktum félagsins og starfsreglum stjórnar.
Stjórn félagsins hefur í störfum sínum „Leiðbeiningar um stjórnarhætti“ til hliðsjónar og uppfyllir þær í öllum meginatriðum þrátt fyrir að félaginu beri ekki að fylgja leiðbeiningunum lögum samkvæmt.
Þrjár undirnefndir, starfskjaranefnd, endurskoðunarnefnd og framkvæmdanefnd eru starfandi undir stjórn félagsins. Stefna hefur verið sett um samfélagslega ábyrgð. Ekki hafa fallið neinir dómar þar sem félagið er talið hafa brotið í bága við lög eða reglur.
Stjórn Isavia
Í stjórn Isavia sitja fimm aðalmenn, og fimm varamenn kjörnir á hluthafafundi til eins árs í senn. Stjórnarmenn eru tilnefndir til stjórnarsetu af fjármála- og efnahagsráðherra. Kynjahlutfall í stjórn Isavia er 40% konur og 60% karlar. Allir stjórnarmenn teljast vera óháðir í skilningi „Leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja“. Allir stjórnarmenn hafa gefið stjórninni skýrslu um eignir sínar í öðrum félögum. Engin þeirra skiptir máli varðandi störf þeirra sem stjórnarmenn Isavia.