Hoppa yfir valmynd

Svipmyndir frá 2018

níu milljónasti farþeginn um Keflavíkurflugvöll

Isavia fagnaði komu níu milljónasta farþeganum sem fór um Keflavíkurflugvöll í nóvember. Farþeginn kom til landsins frá Pittsburg í Bandaríkjunum með flugvél Wow Air. Þau heppnu voru Olive Ho frá Hong Kong og Chun Liang Li frá Taívan. Þau voru leyst út með gjöfum frá Bláa lóninu og veitingastaðnum, Hjá Höllu.

SAGA FLUGVALLA OG FLUGLEIÐSÖGU KOM ÚT

Saga flugvalla og flugleiðsögu á Íslandi kom út hjá Isavia. Bókinni er ætlað að fagna 70 ára sögu flugvalla og flugleiðsögu á Íslandi en 70 ár er síðan Íslendingar fengu herflugvelli bandamanna í Reykjavík og Keflavík afhenta til eignar og hófu rekstur flugleiðsöguþjónustu. Verkið telur nærri 550 blaðsíður og er tileinkað öllu starfsfólki Isavia og forvera félagsins ásamt öðrum sem lagt hafa dygga hönd á plóginn við uppbyggingu og rekstur þeirrar mikilvægu þjónustu, sem stuðlaði m.a. að því að rjúfa einangrun í byggðum landsins.

STARFSMENN ISAVIA SÖFNUÐU RÚMRI MILLJÓN TIL GÓÐRA MÁLEFNA

Um 42 starfsmenn Isavia söfnuðu rúmri milljón til góðra málefna í Reykjavíkurmaraþoninu. Isavia hét á þá starfsmenn sem tóku þátt í hlaupinu með því að bæta 50% ofan á áheitin sem söfnuðust.

ISAVIA AFHENDIR LANDSBJÖRGU HÓPSLYSAKERRUR

Isavia afhenti Landsbjörgu níu hópslysakerrur í júní sem voru dreifðar á þau svæði þar sem mesta hættan á hópslysum er og viðbragðstíminn lengstur vegna staðsetningar. Í hópslysakerrunum er meðal annars sjúkrabörur, tjald, ullarteppi, rafstöð og hitablásarar. Búnaðurinn í kerrunum miðast við að björgunarsveitafólk geti veitt skjól og aðhlynningu á slysstað utan alfaraleiðar á stöðum þar sem langt er í heilbrigðisþjónustu og aðrar bjargir.

Stækkuð suðurbygging keflavíkurflugvallar vígð

Í mars var vígð stækkun suðurbyggingar Keflavíkurflugvallar. Stækkunin nam um 7000 fermetrum og fólst meðal annars í breytingum og stækkun á landamærasal ásamt því að 12 nýjar sjálfvirkar landamærastöðvar voru teknar í notkun. 

33 styrkir úr samfélagssjóði Isavia

Isavia úthlutaði 33 styrkjum úr samfélagssjóði til fjölbreyttra verkefna á árinu. Stefna sjóðsins er að styrkja verkefni sem hafa breiða samfélagslega skírskotun og jákvæð áhrif á íslenskt samfélag. Við val á styrkþegum var lögð áhersla á umhverfismál, mannúðarmál, forvarnir, flugtengd málefni, listir, menningu og menntamál. Verkefnin sem hrepptu styrkina voru meðal annars Fjölskylduhjálp Íslands, Birta Landssamtök, Keilir, Hinsegin kórinn og Sandgerðisbær.

GREIÐARI LEIÐ AÐ FLUGUPPLÝSINGUM - Nýr Vefur ISavia

Nýr vefur Isavia fór í loftið í júní. Markmið með nýja vefnum er auka þjónustu og tengingu við ferðaþjónustuna auk þess að veita upplýsingar um flug og aðra þjónustu á flugvöllum með gagnvirkari hætti. Farþegar geta þannig fengið upplýsingar um flug sitt á rauntíma á þeim samskiptamiðli sem þeir velja þar sem gervigreind er nýtt til að koma upplýsingum til notenda.

BORGAÐ MEÐ ALIPAY Á KEFLAVÍKURFLUGVELLI

Keflavíkurflugvöllur varð fyrsti þjónustuaðilinn á Íslandi til að taka upp Alipay í gegnum ePassi. Alipay er hluti af Alibaba samsteypunni, sem er stærsta netverslun heims, og ein vinsælasta farsímagreiðslulausn í heimi með yfir 870 milljón virka notendur. Alipay sér um yfir 70% af kínverskum greiðslum í gegnum farsíma.

Kynningarfundur um Startup Tourism

Í nóvember var haldinn vel sóttur kynningarfundur í Reykjanesbæ þar sem umræðuefnið var Startup Tourism viðskiptahraðallinn. Isavia hefur verið stoltur bakhjarl Startup Tourism frá upphafi og voru áhugasamir hvattir til að mæta á kynningarfundinn í Reykjanesbæ. Þar var rætt um ýmsar hugmyndir tengdar viðskiptahraðlinum. Tíu fyrirtæki verða valin inn og fá þau leiðsögn og þjálfun yfir tíu vikna tímabil ásamt skrifstofuaðstöðu í húsi Íslenska Ferðaklasans. Þar munu þátttakendur njóta ráðgjafar reyndra frumkvöðla, fjárfesta og lykilaðila innan ferðaþjónustunnar í þeim tilgangi að hraða þróun viðskiptahugmynda sinna og koma þeim á legg. 

Árangursrík öryggisvika Isavia

Öryggisvika Isavia var haldin dagana 1. til 5. október. Þátttakan var vonum framar og ljóst að starfsfólk Isavia tekur öryggismál alvarlega og vill fræðast nánar um þau en boðið var upp á fjöldamarga fyrirlestra og fræðslufundi um öryggismál hjá Isavia. Þá var starfsfólki einnig boðið í heimsókn í flugvallaþjónustu og flugturn á Keflavíkurflugvelli, Reykjavíkurflugvelli og Akureyrarflugvelli. Öryggisvikan var haldin í samræmi við þá áherslu sem Isavia leggur á öryggismál og að allt starfsfólk taki virkan þátt í að tryggja öryggi á vinnustaðnum. Gildi Isavia eru öryggi, samvinna og þjónusta.

UMHVERFISSTJÓRNUNARKERFI FLUGFJARSKIPTA ALÞJÓÐAVOTTAÐ

Flugfjarskipti Isavia fengu ISO14001 vottun frá BSI, Bresku staðlastofnuninni. Þessi vottun staðfestir að á starfsstöðinni er starfrækt virkt umhverfisstjórnunarkerfi samkvæmt ISO14001 staðlinum.

Málverkasýninga Tolla á Egilsstaðaflugvelli

Í september síðastliðnum var opnuð málverkasýning á 23 nýjum olíumálverkum eftir Tolla í flugstöðunni á Egilstöðum. Sýningin var í boði rekstaraðila flugvallarins, Isavia. En þetta er fyrsta sýningin af nokkrum á verkum Tolla en áætlað er að setja upp sýningar á flestum flugstöðvum á landinu á komandi mánuðum.

Ferðamenn heita ábyrgri ferðahegðun

The Icelandic Pledge hnappur var settur upp á Keflavíkurflugvelli í samstarfi Isavia og Íslandsstofu. Með hnappnum er verið að reyna að hafa jákvæð áhrif á hegðun ferðamanna og upplifun þeirra á ferðalagi sínu um landið. Nær allir erlendir ferðamenn sem koma til Íslands fara í gegnum Keflavíkurflugvöll og geta því ferðamenn heitið strax við komuna til landsins að vera ábyrgir ferðamenn á Íslandi

The Icelandic Pledge nær til átta atriða sem stuðla að ábyrgri ferðahegðun; að bera virðingu fyrir náttúrunni, að skilja við hana eins og komið var að henni, að keyra ekki utan vega, að koma sér ekki í hættulegar aðstæður við að taka myndir, að tjalda á viðeigandi tjaldsvæðum og að vera vel útbúinn á ferðalagi um Ísland. Verkefnið er unnið undir merki Inspired by Iceland en fólki býðst bæði að ýta á hnappinn við komuna til landsins.