Hoppa yfir valmynd

Hagaðilar

Isavia leggur áherslu á víðtækt samráð við þá hagaðila sem treysta á þjónustu fyrirtækisins og verða fyrir áhrifum af starfseminni. Starfseminnar gætir um allt land og snertir alla landsmenn. Isavia hefur greint á annað hundrað hagaðila sem má flokka í viðskiptavini, mannauður, samfélag, stjórnvöld og birgja

Framkvæmdastjórar allra sviða tóku saman upplýsingar í samráði við sitt starfsfólk um hagaðila árið 2017. Verið er að endurskoða listann og gera samskiptaáætlun við þá sem eitt af úrbótaverkefnum félagsins. 

Haustið 2018 fól Isavia sænska ráðgjafafyrirtækinu Enact Sustainable Strategies að framkvæma viðtöl við hagaðila fyrirtækisins. Markmiðið var að kanna hvaða málefni og viðfangsefni væru þeim mikilvægust í samfélagsábyrgð félagsins. Niðurstöður þessara viðtala voru, ásamt ráðleggingum samfélagsteymis Isavia, hafðar til hliðsjónar þegar fyrirtækið setti sér markmið fyrir árið 2019 og efnistök samfélagsskýrslu Isavia voru ákveðin.

SAMFÉLAGIÐ

Umtalsverð samskipti eru við sveitarfélög og landshlutasamtök í nágrenni við flugvelli félagsins og má þar nefna sveitarfélögin á Suðurnesjum, Reykjavíkurborg, Akureyrarbæ, Ísafjörð, Fljótsdalshérað, Þórshöfn, Vopnafjörð, Húsavík og Vestmannaeyjabæ.

Félagið vinnur að stöðugum endurbótum á upplýsingagjöf til sveitarfélaga þar sem starfsemi félagsins getur haft mikil áhrif á nærumhverfið. Sérstaklega á það við á Suðurnesjunum þar sem Keflavíkurflugvöllur er stærsti vinnustaðurinn. Samskiptin hafa farið fram á fundum með bæjar- og sveitarstjórnarmönnum, auk annarra hagsmunaaðila. Einnig er náið samráð við markaðsstofur svæðanna á Norður- og Austurlandi þar sem t.d. er unnið að markaðssetningu á beinu flugi til Akureyrar og Egilsstaða í tengslum við Flugþróunarsjóð.

Isavia á einnig víðtækt samstarf við aðila í ferðaþjónustunni eins og Samtök ferðaþjónustunnar (SAF), Ferðamálastofu, Íslandsstofu, Stjórnstöð ferðamála auk þess sem félagið er aðili að Íslenska ferðaklasanum, Iceland Naturally og bakhjarl Inspired by Iceland. Isavia er einnig virkur aðili í hafnar- og flutningahópi Íslenska sjávarklasans en það er samstarfsvettvangur fyrirtækja sem flest eru beintengd flutningum og hafnarstarfsemi.

Isavia á einnig víðtækt samstarf við aðila í ferðaþjónustunni eins og Samtök ferðaþjónustunnar, Ferðamálastofu, Íslandsstofu, Stjórnstöð ferðamála auk þess sem félagið er aðili að Íslenska ferðaklasanum, Iceland Naturally og bakhjarl Inspired by Iceland.

Isavia hefur verið einn af bakhjörlum samráðsvettvangsins Arctic Circle frá upphafi og starfsmenn taka virkan þátt í umræðum um málefni norðurslóða, hvort heldur sem er í tengslum við flugumferð á norðurslóðum eða í tengslum við hugmyndir um uppbyggingu björgunarmiðstöðvar á Íslandi.

Þá heldur Isavia reglulega opna fundi til þess að miðla upplýsingum til almennings og aðila innan ferðaþjónustunnar um áform félagsins á Keflavíkurflugvelli s.s. framkvæmdir og umferðarspár innan ferðaþjónustunnar. Starfsfólk Isavia hefur einnig haldið erindi á fjölda funda sem haldnir hafa verið á vegum annarra aðila.

Á sviði flugleiðsöguþjónustu á Isavia í nánu samstarfi við þjónustuaðila og aðliggjandi flugstjórnarmiðstöðvar. Félagið er þátttakandi í Borealis sem er samstarfsvettvangur níu flugleiðsöguþjónustuaðila í Norður-Evrópu.


STJÓRNVÖLD

Samskipti við stjórnvöld eru af margvíslegum toga. Ríkið er eigandi félagsins og fylgir það almennri eigandastefnu ríkisins í rekstrinum. Fjármála- og efnahagsráðuneytið fer með hlutabréfið og fara formleg samskipti fram á hluthafafundum og árlegum aðalfundi. Önnur samskipti við eigandann fara fram á fundum sem boðað er til eftir atvikum.

Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytið gegnir tvíþættu hlutverki í tengslum við starfsemi Isavia. Annars vegar sem fagráðuneyti flugmála og hins vegar sem viðskiptaaðili félagsins vegna reksturs innanlandsflugvallakerfisins. Félagið á sæti í þremur nefndum og ráðum á vegum ráðuneytisins; fagráði um flugmál, flugvirktarráði og hefur fastafulltrúa í samgönguráði. Fyrirtækið á í reglulegum faglegum samskiptum við ráðuneytið um flugmál auk náins samráðs um framkvæmd þjónustusamningsins. Félagið hefur fulltrúa í ýmsum nefndum á vegum ráðuneytisins sem snúa að flugmálum og á meðal annars sæti í nefnd sem vinnur að mótun flugstefnu fyrir Ísland

Isavia annast líka framkvæmd tveggja alþjóðasamninga um flugleiðsöguþjónustu. Svonefndur „Joint Finance“-samningur fjallar um flugleiðsöguþjónustu innan íslenska flugupplýsingasvæðisins (Reykjavik FIR) við 24 önnur ríki og er Alþjóðaflugmálastofnunin (ICAO) umsjónaraðili með samningnum. Hinn samningurinn er við dönsk stjórnvöld vegna flugleiðsöguþjónustu á hluta flugupplýsingasvæðis Grænlands.

Einnig er fundað nokkrum sinnum á ári með atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í tengslum við ferðaþjónustumálefni. Ráðuneytið hefur komið á fót Flugþróunarsjóði sem hefur það verkefni að styrkja millilandaflug til Akureyrar og Egilsstaða og á Isavia fulltrúa í stjórn sjóðsins. Félagið á einnig fulltrúa í stjórn markaðsverkefna Íslandsstofu, „Ísland allt árið“ og „Iceland Naturally“, sem er ætlað að kynna Ísland sem áfangastað. Auk þess eru haldnir fundir með utanríkisráðuneytinu og Landhelgisgæslunni í tengslum við varnartengda starfsemi á Keflavíkurflugvelli og skipulagsmál flugvallarins.

Isavia hefur mikil samskipti við ríkisstofnanir vegna hinna margþættu verkefna félagsins. Mest er sambandið við Samgöngustofu sem gefur út starfsleyfi flugvalla og flugleiðsögu og annast viðeigandi eftirlit með framkvæmd og rekstri. Aðrar eftirlitsstofnanir sem má nefna eru Hollustuvernd ríkisins, Mannvirkjastofnun, Vinnueftirlitið, Heilbrigðiseftirlitið, Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun. Margar ríkisstofnanir eru með starfsstöðvar hjá eða í nánu samstarfi við félagið og má þar telja lögregluembætti, Tollstjóra, Almannavarnir ríkisins og Landhelgisgæsluna. Stofnanir sveitarfélaga sem tengjast rekstri Isavia eru aðallega heilbrigðiseftirlit, brunavarnir og slökkvilið.

Isavia er einnig undir eftirliti og í samstarfi við erlenda aðila. Af þeim má helst telja Alþjóðaflugmálastofnunina (ICAO) sem er undirstofnun Sameinuðu þjóðanna sem setur alþjóðlega staðla fyrir alla helstu þætti almenningsflugs og fylgist með frammistöðu ríkja og þjónustuveitenda. Stofnunin hefur einnig eftirlit með framkvæmd fyrrnefnds „Joint Finance“- samnings. Vegna starfsemi félagsins á Grænlandi og í Færeyjum sætir Isavia eftirliti Trafik- og byggestyrelsen í Danmörku og vegna samstarfs um flugfjarskiptaþjónustu á Norður-Atlantshafi eru náin samskipti við írsku flugmálastjórnina. Á vettvangi Borealis-samstarfsins á félagið í samstarfi við European Aviation Safety Agency (EASA).

Birgjar

Þar sem Isavia er í eigu íslenska ríkisins fellur félagið undir lög um opinber innkaup en helstu innkaupum félagsins má skipta í vöru-, þjónustu- og verkkaup. Árið 2017 urðu breytingar á lagaumhverfinu og Isavia varð kleift að nýta ákvæði reglugerðar nr. 340/2017 um innkaup aðila sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu.

Innkaupadeild Isavia starfar þvert á öll svið félagsins. Í upphafi árs 2018 var útboðsvefur Isavia innleiddur og komið á rafrænu útboðsferli. Einnig hóf félagið að nýta nýjar útboðsleiðir á borð við samningskaupaferli að undangenginni útboðslýsingu sem hefur gefið góða niðurstöðu hvað varðar verð og gæði. Innkaupadeildin hóf innleiðingu á nýjum innkaupaferlum, -reglum og kerfum árið 2018 þar sem áhersla hefur verið lögð á rafræn samskipti með það að markmiði að viðhalda og bæta rekjanleika við framkvæmd innkaupa.

Í öllum útboðum og stærri verðfyrirspurnum er farið fram á grunnhæfi fyrirtækja t.d. er bjóðendum vísað frá sem eru í vanskilum með vörsluskatta, opinber gjöld og lögboðin iðgjöld í lífeyrissjóðum. Auk þess er ákvæði um keðjuábyrgð í öllum innkaupagögnum.

Í öllum útboðum og stærri verðfyrirspurnum er farið fram á grunnhæfi fyrirtækja t.d. er bjóðendum vísað frá sem eru í vanskilum með vörsluskatta, opinber gjöld og lögboðin iðgjöld í lífeyrissjóðum. Auk þess er ákvæði um keðjuábyrgð í öllum innkaupagögnum.

Í samningum er einnig að finna ákvæði um bann við gerviverktöku og ráðningarsamband skal vera meginregla í samskiptum starfsmanna og verksala. Þetta er gert til þess að tryggja að öll launþegagjöld, hverju nafni sem þau nefnast, séu greidd og farið sé eftir ákvæðum kjarasamninga.

Persónuverndarákvæði eru í öllum samningum félagsins og uppfylla þau nýja ákvæði persónuverndarlöggjafar EU, þar sem það á við. Að lokum eru siðareglur birgja fylgiskjal með öllum okkar samningum. Í reglunum er gerð sú krafa að birgjar sem félagið skiptir við uppfylli siðareglurnar og sjái til þess að þeirra birgjar geri slíkt hið sama. Birgi skal, sé þess óskað, geta staðfest að þessum siðareglum sé fylgt. Siðareglur birgja hafa verið gerðar aðgengilegar á heimasíðu félagsins.

Hlutfall innlendra birgja er um 86% og erlendra um 14% en ekki er skráð hverjir þeirra hafa aðsetur utan Evrópska efnahagssvæðisins.