Samskipti við notendur og rekstraraðila fara fyrst og fremst fram á reglulegum fundum. Samskipti við farþega eiga sér stað með beinum samskiptum starfsfólks félagsins á flugvöllunum og með öllum helstu samskiptaleiðum; síma, tölvupósti, vefjum og samfélagsmiðlum og reglubundnum viðskiptavinakönnunum.
Samskipti við flugfélög sem fara um flugvelli Isavia og flugstjórnarsvæði fara meðal annars fram á reglulegum notendanefndarfundum sem öllum notendum er boðið á auk funda með hverju og einu þeirra eftir þörfum. Notendanefndir flugvalla starfa í samræmi við ákvæði loftferðalaga og reglugerðar. Í þeim sitja fulltrúar allra flugfélaga sem nota flugvöllinn að staðaldri og umboðsaðila þeirra. Á fundunum gefst notendum tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en teknar eru mikilvægar ákvarðanir um rekstur, gæði þjónustu, gjaldtöku, nýframkvæmdir, turnþjónustu eða önnur atriði sem snerta mikilvæga hagsmuni þeirra. Notendanefnd Keflavíkurflugvallar fundar eins oft og þurfa þykir, en þó aldrei sjaldnar en árlega. Notendanefnd innanlandsflugvallanna fundar að jafnaði einu sinni á ári.
Samráð er haft við notendur flugleiðsöguþjónustu um rekstur og fjárfestingar og fer það samráð fram á árlegum notendafundum. Samráð um aðra þætti flugleiðsöguþjónustu fer einnig fram með notendum á vettvangi Skipulagsnefndar ICAO (NAT-SPG) fyrir Norður-Atlantshaf. Reglulegir fundir eru haldnir með notendum auk samskipta við einstaka notendur eða fulltrúa notendahópa ef nauðsyn þykir. Í notendasamráðinu hefur samstarfsaðili Isavia, Veðurstofa Íslands, hlutverki að gegna varðandi veðurupplýsingar og er vöktunaraðili vegna eldgosa og annarra náttúruhamfara.