Hoppa yfir valmynd

HLJÓÐVIST

Isavia hefur unnið að nokkrum mótvægisaðgerðum vegna hávaða frá flugi um Keflavíkurflugvöll. Eitt af því var að setja upp hljóðmælingakerfi árið 2017 til að fylgjast með hvaða flug valda hávaða svo bregðast megi við.

Þrír fastir hljóðmælar og einn færanlegur eru í nærbyggð Keflavíkurflugvallar. Með þessum mælum var sett upp kerfi þar sem íbúar, hagsmunaaðilar og Isavia getur fylgst með flugi og hljóðmælingum. Einnig er hægt að tilkynna um ónæði vegna flughreyfinga. Á vef Isavia er að finna tengil á hljóðmælingakerfið. Á síðasta ári bárust Isavia 31 tilkynning um hávaða og ónæði vegna flugumferðar. Langflestar voru í júlí, ágúst og september og tengdust herflugi annars vegar og fræsingu flugbrauta hins vegar, þar sem ekki var hægt að nota brautina sem vísar frá byggðinni á nokkrum góðviðrisdögum.

Myndirnar hér fyrir neðan sýna samanburð á flugferlum brottfara milli ára. Myndirnar eru unnar úr hitakortum og sýna vel breytinguna sem hefur orðið á flugumferð yfir íbúabyggð á Reykjanesi. Töluvert minni hluti íbúabyggðar er nú undir flugumferð og verður því síður fyrir ónæði vegna hennar.  

Vorið 2018 voru innleiddir nýir flugferlar fyrir Keflavíkurflugvöll. Þessir flugferlar voru hannaðir með það að markmiði að lágmarka þann hávaða og ónæði sem skapast vegna flugumferðar um völlinn.

Árið 2017 fékk Isavia verkfræðistofuna Eflu til að vinna hljóðkort fyrir flugvöllinn sem kom út í byrjun árs 2018. Þetta kort sýnir útreiknaðan sólarhringshávaða í kringum Keflavíkurflugvöll. Í lok árs 2018 fór einnig af stað vinna sem miðar að því að gefa út aðgerðaráætlun vegna hljóðvistar. Sú vinna er gerð í samvinnu við Reykjanesbæ og Vegagerðina og uppfyllir reglugerð 1000/2005 um kortlagningu hávaða og aðgerðaáætlanir.

Vorið 2018 voru innleiddir nýir flugferlar fyrir Keflavíkurflugvöll. Þessir flugferlar voru m.a. hannaðir með það að markmiði að lágmarka þann hávaða og ónæði sem skapast vegna flugumferðar um völlinn.

Við skipulag flugumferðar um Keflavíkurflugvöll er einnig miðað við að notaðar séu þær flugbrautir sem valda sem minnstu ónæði fyrir íbúa í nærbyggð flugvallarins. Reynt er að framfylgja þessu eftir fremsta megni að teknu tilliti til öryggis og umhverfisþátta, t.d. vinds eða brautarskilyrða.

Tilkynningar vegna ónæðis vegna flughreyfinga á flugvöllum innanlands voru tvær árið 2018, ein í Reykjavík og ein á Akureyri.