Árið 2019 var fjöldi farþega um flugvelli Isavia í heild rúmlega 7,9 milljónir, en það var um 25% minnkun frá árinu 2018. Millilandafarþegum um íslenska áætlunarflugvelli fækkaði úr rúmlega 9,8 milljónum í tæplega 7,3 milljónir, eða um 26% milli ára. Innanlandsfarþegum fækkaði á sama tíma úr tæplega 737 þúsund í rúmlega 650 þúsund, eða um tæp 11%.
Rekstrartekjur samstæðunnar námu tæplega 38,4 milljörðum króna og lækkuðu um 3,3 milljarða króna milli ára eða um átta prósent. EBITDA, þ.e. afkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, lækkar um tæpa fjóra og hálfan milljarð króna eða 40 prósent. Heildareignir námu 80,6 milljörðum króna í árslok 2019 og hækkuðu um 0,8 milljarða króna milli ára. Staða handbærs fjár var áfram góð um síðustu áramót sem og aðgengi félagsins að lánsfé til áframhaldandi uppbyggingar. Skattaspor Isavia var 9.021 m.kr. fyrir árið 2019. Það er sá hluti sem samstæðan greiðir eða innheimtir í formi skatta og opinberra gjalda, ásamt mótframlagi í lífeyrissjóði starfsfólks.