Hoppa yfir valmynd

Umsvif starfseminnar

Farþegar og flughreyfingar

Tveir þættir hafa mest áhrif á umsvif Isavia, annars vegar fjöldi flughreyfinga og hins vegar fjöldi farþega. Tekjur Isavia á Keflavíkurflugvelli koma fyrst og fremst frá flugfélögum sem fljúga á flugvöllinn, leigutekjum af veitinga- og verslunarrýmum auk annarra tekna af leigu á aðstöðu.

Í heildina hafa umsvif starfseminnar minnkað frá fyrra ári. Á innanlandsflugvöllum dróst fjöldi innanlandsfarþega saman um 11,4% meðan fjöldi millilandafarþega á innanlandsflugvöllum minnkaði um 18,9%. Á Keflavíkurflugvelli dróst fjöldi farþega saman um 26% og umferð á íslenska flugstjórnarsvæðinu dróst saman um 7,5% á árinu 2019.

Þrjú flugfélög héldu uppi áætlunarflugi innanlands, Air Iceland Connect, Flugfélagið Ernir og Norlandair. Önnur flugfélög sem nýttu þjónustu Isavia að staðaldri voru Mýflug, Circle Air, Atlantsflug og Norðurflug. Fyrirtækin Norðurflug og Helo reka þyrluþjónustu á flugvöllum félagsins.

Air Iceland Connect flýgur frá Reykjavík til nokkurra staða á Grænlandi. Þá eru Flugskóli Íslands og Flugfélagið Geirfugl með starfsemi á Reykjavíkurflugvelli. BIRK Flight Services, Reykjavik FBO og Air Iceland Connect annast flugafgreiðsluþjónustu á flugvellinum

Á Akureyrarflugvelli sinnir Norlandair reglulegu áætlunarflugi innanlands og áætlunar- og leiguflugi til Grænlands, auk þess sem ferðaskrifstofur á svæðinu bjóða upp á beinar ferðir frá Akureyri til nokkurra áfangastaða erlendis. Circle Air sinnir leigu- og útsýnisflugi frá Akureyri. Þá er flugkennsla starfrækt á vegum Flugskóla Akureyrar. Air Iceland Connect og Suðurflug annast flugafgreiðsluþjónustu á Akureyrarflugvelli.

Akureyrarflugvöllur er miðstöð fyrir sjúkraflug landsins sem flugfélagið Mýflug hefur með höndum fyrir heilbrigðisráðuneytið. Ferðaskrifstofan Voigt Travel í samstarfi við flugfélagið Transavia bíður upp á leiguflug frá Hollandi og þá hafa innlendar ferðaskrifstofur boðið upp á beint leiguflug frá Akureyri til nokkurra erlendra áfangastaða.

Á Egilsstaðaflugvelli hefur Air Iceland Connect með höndum flugafgreiðsluþjónustu fyrir einkaflugvélar og leiguflugvélar. Ferðaskrifstofur hafa boðið upp á beint leiguflug frá Egilsstöðum til nokkurra erlendra áfangastaða.

Á Reykjavíkurflugvelli eru tvær brautir, 1.567 og 1.230 metrar, á Akureyrarflugvelli ein 2.400 metra braut og á Egilsstaðaflugvelli ein braut sem er 2.000 metrar. Aðrir flugvellir og lendingarstaðir hafa 634 til 1.887 metra langar flugbrautir.


Fjöldi alþjóðaflugvalla
Fjöldi innanlands­flugvalla
Fjöldi lendingar­staða á Íslandi
 Icelandair
Icelandair
Air Iceland Connect
Air Iceland Connect
Ernir
Ernir
Norlandair
Norlandair
Norðurflug
Norðurflug
Einkaflug
Einkaflug


Stærstu viðskiptavinir flugleiðsöguþjónustu Isavia eru Icelandair, United Airlines, Lufthansa, SAS, Delta Air Lines, British Airways, Air Canada, Emirates, Air Greenland, US Privat, Qatar, Norwegian og KLM. Þessi flugfélög fljúga flesta kílómetra innan íslenska flugstjórnarsvæðisins. Icelandair er stærsti notandi flugleiðsöguþjónustu á Keflavíkurflugvelli.

Sumarið 2019 flugu 25 flugfélög frá Keflavíkurflugvelli til yfir 70 áfangastaða. 14 flugfélög flugu allt árið um kring til og frá landinu: Icelandair, easyJet, Wizz Air, SAS, Lufthansa, Norwegian, Finnair, British Airways, Czech Airlines, Atlantic Airways, Transavia, Air Baltic, Air Greenland and Neos. Þrjú fraktflugfélög Icelandair Cargo, Bluebird og DHL fljúga frá Keflavíkurflugvelli árið um kring.

Fjórir flugafgreiðsluaðilar starfa á Keflavíkurflugvelli: Icelandair, Airport Associates, ACE FBO og South Air.

Fjölmargir farþegar nýta sér Keflavíkurflugvöll sem tengiflugvöll og Icelandair nýtir flugvöllinn þannig á leið milli Evrópu og Norður Ameríku. Lágmarks tengitími farþega á Keflavíkurflugvelli eru 25 mínútur.

Isavia hefur með aðstoð hvatakerfis orðið allvel ágengt við að fá flugfélög til þess að fljúga til landsins, sérstaklega að vetri til. Félagið hefur einnig markaðssett afgreiðslutíma utan mestu álagstíma á hverjum sólarhringi með það að markmiðið að nýta betur aðstöðuna á flugvellinum, með góðum árangri.

Á Keflavíkurflugvelli eru tvær flugbrautir sem eru 3.054 og 3.065 metrar að lengd.


Lengsta flug­braut Keflavíkur­flugvallar
m m
Lengsta flug­braut Reykjavíkur­flugvallar
m m
Flug­braut Akureyrar­flugvallar
m m
Flug­braut Egilsstaða­flugvallar
m m

Dagur á Reykjavíkurflugvelli

Millilandaflug um innanlandsflugvelli

Árið 2010 hóf Isavia vinnu við að auka þekkingu á markaðsstarfi flugvalla á öðrum alþjóðaflugvöllum en Keflavíkurflugvelli. Áður en til þeirrar vinnu kom höfðu stöku leiguflugfélög komið til annarra alþjóðavalla en í Keflavík og var það ekki reglubundið flug. Með verkefninu var stefnt að því að koma reglubundnu leigu- eða áætlunarflugi á fót t.d. á Akureyrar- eða Egilsstaðaflugvelli. Ferðakaupstefnur víða um heim hafa verið sóttar kerfisbundið til að vekja athygli á hinum alþjóðaflugvöllunum á Íslandi.

Isavia og Akureyrarflugvöllur hafa unnið með Markaðsstofu Norðurlands í markaðssetningu á Norðurlandi sem áfangastað síðan 2014. Flugklasinn Air 66N var stofnaður árið 2010 en að honum standa Markaðsstofa Norðurlands, sveitafélög á svæðinu og Isavia. Árið 2016 var ákveðið að kynna Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll saman á ferðaráðstefnunni Routes Europe sem Isavia Regional Airports. Á þessum árum hefur áhugi á svæðinu aukist og flugfélög byrjuð að gefa Norður- og Austurlandi meiri gaum.

Stórt skref var stigið árið 2018 þegar breska ferðaskrifstofan Super Break hóf ferðir til Akureyrar, með hópa frá Bretlandi. Flogið var þangað í þrjá mánuði í byrjun árs 2018 og aftur um áramótin 2018/2019 og fram í mars 2019. Ferðirnar mæltust vel fyrir en því miður fór svo að félagið endaði í rekstrarstöðvun í ágúst 2019 og því varð ekkert úr fyrirhuguðu flugi þess veturinn 2019/2020. Ferðaskrifstofan Voigt Travel stóð fyrir sextán ferðum milli Akureyrar og Rotterdam sumarið 2019. Mikil ánægja hefur verið með ferðir þess. Í febrúar 2020 hóf félagið aftur ferðir tvisvar í viku milli Akureyrar og Rotterdam sem stóðu til 9.mars. Félagið mun svo taka aftur upp þráðinn 1.júní og fljúga einu sinni í viku út ágúst 2020.

Farþega- og umferðarspár

Isavia gerir umferðarspár a.m.k. einu sinni á ári fyrir kjarnastarfsemi félagsins á Keflavíkurflugvelli og hins vegar umferð á íslenska flugstjórnarsvæðinu. 

Umferð á íslenska flugstjórnarsvæðinu er metin í samræmi við upplýsingar frá vinnuhópi sem nefnist Economic Financial Forecasting Group (EFFG). Í hópnum eiga sæti allir þjónustuveitendur og fulltrúar samtaka notenda á Norður Atlantshafi og gerir hann spár um flugumferð yfir Norður-Atlantshafi.

Farþegaspá fyrir Keflavíkurflugvöll er gerð í lok hvers árs og er birt í nóvember eða desember fyrir komandi ár.  Við vinnslu farþegaspár fyrir Keflavíkurflugvöll er stuðst við eftirfarandi aðferðafræði:

  • Samstarf — haft er samband við alla notendur Keflavíkurflugvallar til að fá upplýsingar um væntanlegt  sætaframboð og/eða farþegafjölda.
  • Upplýsingaöflun — þekking og reynsla Isavia nýtt til umbóta á fyrstu drögum.
  • Staðreyndir — stuðst er við bókunarupplýsingar og upplýsingar úr flugupplýsingakerfum flugvallarins til að fínstilla spána.

Spáin er unnin á grundvelli upplýsinga um afgreiðslutíma sem flugfélög hafa tryggt sér í komandi sumar- og vetraráætlun. Mjög gott samstarf er við stærstu félögin um upplýsingar um sætaframboð. Isavia leggur áherslu á að deila upplýsingum sem félagið tekur saman með ferðaþjónustuaðilum, greiningaraðilum og almenningi og heldur venjulega til þess opna fundi.

Flugvellir eru mikilvægar viðskiptamiðstöðvar og stuðla beint og óbeint að efnahagslegu og samfélagslegu virði til þeirra samfélaga sem starfsemi þeirra snertir.

 

Virðissköpun

Isavia er fyrirtæki sem gegnir mikilvægu hlutverki bæði í efnahagslegu og samfélagslegu samhengi. Flugvellir Isavia, og þá sér í lagi Keflavíkurflugvöllur, skapa verðmæti fyrir bæði íslenska hagkerfið og það alþjóðlega. Beinar flugtengingar eru gríðarlega mikilvægar. Eftir því sem fleiri beinar tengingar eru í flugi frá Íslandi til helstu borga í heiminum því auðveldara verður fyrir íslensk fyrirtæki og einstaklinga að stunda viðskipti, flytja út vörur og leita sér þekkingar á erlendri grundu. Auk þess sem þær auka áhuga erlendra fyrirtækja á því að hefja starfsemi á Íslandi. Það hefur verið gerð greining í Evrópu sem bendir til þess að fjölgun í flugtengingum upp á 10% skilar 0,5% hagvexti.

Flugvellir eru mikilvægar viðskiptamiðstöðvar og stuðla beint og óbeint að efnahagslegu og samfélagslegu virði til þeirra samfélaga sem starfsemi þeirra snertir. Í grennd við flugvelli njóta fyrirtæki og virðiskeðjur þeirra góðs af nálægðinni og stuðla beint og óbeint að jákvæðri efnahagslegri þróun fyrir þau svæði.

Isavia hefur, m.a. í vinnu við gerð þróunaráætlunar til 2040, skoðað möguleika á uppbyggingu á starfssvæði flugvallarins, sem kalla mætti flughafnarborg "Airport City". Það er vísun í svæði sem nær til flugvallarins, flugstöðvarinnar, fraktsvæða, skrifstofubygginga, verslunar og þjónustu og hótela. Þar gæti byggst upp starfsemi, bæði flugtengd og óflugtengd, sem nýtur góðs af því að vera staðsett við alþjóðlegan flugvöll með öflugar flugtengingar til að öðlast samkeppnislega sérstöðu. Skýr stefna í þá átt getur skilað auknum vöru- og þjónustuviðskiptum, laðað til landsins erlenda fjárfestingu í auknum mæli, fjölgað verðmætum störfum og aukið hagsæld íbúa landsins alls.

Alls 697 starfsmenn starfa á stærstu starfsstöð Isavia á Keflavíkurflugvelli. Þar að auki starfa hundruð starfsmanna hjá öðrum fyrirtækjum með starfsemi beint tengda flugvellinum. Um 220 fyrirtæki hafa langtímaaðgangsheimildir að Keflavíkurflugvelli. Um er að ræða fyrirtæki eða stofnanir með starfstöðvar á flugvellinum og þau fyrirtæki sem þjónusta þau.

Framlag Isavia til samfélagsins samanstendur af mörgum ólíkum þáttum, hluti þess sem Isavia skilar til samfélagsins er í formi skatta og opinberra gjalda sem samstæðan greiðir eða innheimtir, ásamt mótframlagi í lífeyrissjóði starfsfólks.

Skattaslóð Isavia 2019 - 9.021 m.kr.

Skattaslóð Isavia 2019
Staðgreiðsla starfsmanna 3704
Tekjuskattur 951
Áfengis- og tóbaksgjald 674
Fasteignagjöld 481
Aðrir skattar og gjöld 373
Mótframlag í lífeyrissjóði 1806
Tryggingagjald 1032

Beint efnahagslegt virði skapað og dreift GRI 201-1


2019
Beint efnhagslegt virði skapað
Tekjur37.728 m.kr.
Beint efnhagslegt virði dreift
Rekstrarkostnaður10.832 m.kr
Laun og launatengd gjöld16.721 m.kr.
Vaxtagjöld og kostnaður1.125 m.kr.
Skattar3.510 m.kr.
Fjárfestingar3.851 m.kr.
Samfélagslegar fjárfestingar58 m.kr.
Efnahagslegt virði haldið eftir2.690 m.kr.
Meðalfjöldi starfa1357