Keflavíkurflugvöllur
Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli var vígð og tekin í notkun í apríl 1987. Hún var þá ríflega 20 þúsund fermetrar að stærð. Nú er hún 73 þúsund fermetrar og því 3,5 sinnum stærri en við opnun. Á fyrsta ári flugstöðvarinnar fóru 750 þúsund farþegar um flugstöðina. Árið 2019 fóru 7,25 milljónir farþega um flugstöðin. Það er umfram grunnfarþegaspá uppbyggingaráætlunar Keflavíkurflugvallar sem gerð var fyrir fjórum árum. Þar var gert ráð fyrir 8,8 milljón farþegum árið 2025 og 13,8 milljón farþegum 2040.
Það er því ljóst að til að uppfylla alþjóðlega þjónustustaðla nægilega vel þarf að auka afkastagetu flugvallarins og er uppbyggingaráætlun Keflavíkurflugvallar gerð til að meta þessa þörf. Byggt er á umfangsmikilli farþegagreiningu. Verkefnum áætlunarinnar er skipt í flugstöðvar- og flugvallarkerfisverkefni. Flugstöðvarverkefnin samkvæmt uppbyggingaráætluninni eru eftirfarandi:
- Áframhaldandi breikkun landgangs á milli norður- og suðurbygginga, með nýjum landamærum og stækkun veitingasvæðis.
- Nýr landgangur með allt að 17 flugvélahliðum með landgöngubrúm ásamt hliðum fyrir fjarstæði.
- Ný afgreiðslusvæði komu- og brottfararfarþega í nýrri norðurbyggingu, ásamt rými fyrir farangursskimun.
Flugvallarkerfisverkefnum er ætlað að auka afköst og öryggi flugbrautakerfis og greiða úr flöskuhálsum sem þar gætu myndast. Undir þau verkefni falla afísingarhlað, nýjar akbrautir, flýtireinar og aðrar tengingar flughlaðs og akbrauta.
Á árinu 2019 hélt hönnun nýrrar tengibyggingar milli norður- og suðurbygginga flugstöðvarinnar áfram. Um er að ræða u.þ.b. 35 þúsund fermetra framkvæmd og er áætlað að framkvæmdir hefjist á fyrrihluta árs 2021. Útboði vegna verkefnaumsjónar og verkeftirlits vegna framkvæmda á Keflavíkurflugvelli lauk á árinu, með langtímasamningi við breska byggingar- og ráðgjafafyrirtækið Mace.
Gerð var krafa um yfirgripsmikla þekkingu og reynslu bjóðenda hvað varðar sambærileg verkefni á stórum alþjóðlegum millilandaflugvöllum en Mace hefur umfangsmikla reynslu, þar á meðal á Heathrow flugvelli í London og Schipol flugvelli í Amsterdam. Þá var gerð krafa um að bjóðendur yrðu, á líftíma samningsins, í samstarfi við innlendan aðila og í tilfelli Mace þá valdi félagið verkfræðistofuna Verkís til samstarfs.
Mace mun annast verkefnaumsjón og verkeftirlit vegna komandi framkvæmda við m.a. byggingu austurálmu sem er nýr landgangur til austurs og byggingu á nýrri flugstöðvarbyggingu. Þá mun félagið einnig veita ráðgjöf við aðrar framkvæmdir Isavia á Keflavíkurflugvelli, þar á meðal við tengibyggingu vegna breikkunar á landgangi milli norður- og suðurbyggingar flugstöðvarinnar. Fyrsta verkefni félagsins verður að veita ráðgjöf við tengibygginguna, en ráðgert er að framkvæmdir við hana muni hefjast á næsta ári.
Enn er talsvert í að framkvæmdir við austurálmu og nýja flugstöð geti hafist enda kalla framkvæmdir af þessari stærðargráðu á nokkurra ára undirbúningsvinnu.