Isavia leitast við að vera eftirsóttur vinnustaður og er meginmarkmið mannauðsstefnu Isavia að stuðla að almennri starfsánægju, góðum starfsanda og framúrskarandi þjónustu hjá starfsfólki Isavia og dótturfélaga. Gildi Isavia þjónusta, samvinna og öryggi endurspeglast í þeim áherslum sem Isavia leggur til grundvallar í mannauðsmálum. Aukin samkeppni á vinnumarkaði og breyttar þarfir vinnumarkaðarins kalla á að stjórnendur skapi hvetjandi starfsumhverfi til að laða að metnaðarfullt og hæft starfsfólk.
Isavia kappkostar að gera starfsfólki sínu kleift að samhæfa starf og fjölskylduábyrgð, fyrirtækinu til hagsbóta og starfsfólki til aukinna lífsgæða. Fjölskylda og nánustu aðstandendur eru ein mikilvægasta undirstaðan fyrir farsælan starfsferil og árangur í starfi. Því er mikilvægt að jafnvægi ríki milli vinnu og einkalífs. Starfsfólk á að vinna störf sín af alúð og samviskusemi og bera virðingu hvert fyrir öðru. Forsenda þess að Isavia geti veitt viðskiptavinum sínum fyrsta flokks þjónustu er að starfsfólk búi sjálft við öryggi og ánægju í starfi.
Vinnustaðagreiningar eru að jafnaði framkvæmdar á tveggja ára fresti, síðast árið 2018. Stofnaðir eru úrbótahópar sem hafa það verkefni að vinna með niðurstöður vinnustaðagreininga með það að markmiði að auka starfsánægju og vellíðan í starfi. Stjórnendur eru hvattir til að framkvæma frammistöðusamtöl reglulega og á samtalið að gefa starfsmanni og stjórnanda færi á að ræða verkefni, möguleg vandamál og aðgerðir til úrbóta.
Hjá Isavia starfar fjölbreyttur hópur starfsfólks á hinum ýmsu starfsstöðvum um allt land. Í árslok 2019 var fjöldi starfsfólks hjá Isavia 1.155, 34% konur og 66% karlar. Starfsfólki fækkaði á milli ára. Hjá Fríhöfninni, dótturfélagi Isavia, starfa um 180 manns. Meðalaldur starfsfólks er 41,7 ár og meðalstarfsaldur hjá Isavia og fyrirrennurum þess er 8,4 ár.
Fjöldi starfsfólks eftir aldri og kyni GRI 405-1
Karlar | Konur | |
---|---|---|
Yngri en 30 ára | 146 | 107 |
30 - 50 ára | 372 | 197 |
Eldri en 50 ára | 249 | 84 |