Isavia hefur unnið að nokkrum mótvægisaðgerðum vegna hávaða frá flugi um Keflavíkurflugvöll. Eitt af því var að setja upp hljóðmælingakerfi árið 2017 til að fylgjast með hvaða flug valda hávaða svo bregðast megi við.
Þrír fastir hljóðmælar og einn færanlegur eru í nærbyggð Keflavíkurflugvallar. Með þessum mælum var sett upp kerfi þar sem íbúar, hagsmunaaðilar og Isavia getur fylgst með flugi og hljóðmælingum einnig sem hægt er að tilkynna um ónæði vegna flughreyfinga. Á vef Isavia er að finna tengil á hljóðmælingakerfið.
Árið 2018 var unnið að gerð aðgerðaáætlunar gegn hávaða í samstarfi með Reykjanesbæ og Vegagerðinni. Sú vinna uppfyllir reglugerð 1000/2005 um kortlagningu og aðgerðaáætlanir. Áætlunin nær til ársins 2030 og fór í gegnum kynningu þar sem gefinn var kostur á athugasemdum. Áætlunina má meðal annars nálgast á á heimasíðu Reykjanesbæjar.
Á síðasta ári bárust 34 tilkynningar um hávaða og ónæði vegna flugumferðar á Keflavíkurflugvelli og tengdust þær aðallega farþegaflugi beint yfir íbúabyggð, snemma á morgnanna.
Stöðugt er verið að vakta hljóðmælingarnar og að reglum flugvallarins um brautarnotkun og flugferla yfir íbúabyggð, sé framfylgt.
Myndirnar hér fyrir neðan sýna samanburð á flugferlum brottfara milli ára. Myndirnar eru unnar úr hitakortum og sýna vel breytinguna sem hefur orðið á flugumferð yfir íbúabyggð á Reykjanesi. Töluvert minni hluti íbúabyggðar er nú undir flugumferð og verður því síður fyrir ónæði vegna hennar.