Hoppa yfir valmynd

Uppbygging og þróun

Stafræn þróun og upplýsingatækni

Í samræmi við stefnu félagsins leggur Isavia sig fram um markvissa innleiðingu nýrrar tækni og vinnubragða. Til að leggja áherslu á þetta stefnumið félagsins og mikilvægi stafrænnar þróunar til framtíðar í starfsemi félagsins var stofna sérstakt stoðsvið um þennan málaflokk í lok árs 2019. Isavia er þjónustufyrirtæki í flugvallastarfsemi og er hlutverk upplýsingatækninnar í því samhengi að skapa stafrænan vettvang fyrir starfsfólk, samstarfsaðila og viðskiptavini. Þannig leggur félagið til mikilvæga innviði og innri þjónustu til að auka hagkvæmni, skilvirkni og öryggi í þjónustu við þá sem fara um Keflavíkurflugvöll.

Árið 2020 var horft inn á við og lagt mat á hvernig stafræn þróun og upplýsingatækni gæti stutt við framtíðarsýn Isavia. Það var ákveðið að marka stefnu í málaflokknum, setja niður leiðarljós til framtíðar og skýran ramma í kringum ákvarðanir og upplýsingagjöf. Vinna við stefnu í upplýsingatækni hófst í lok árs 2020 og mun ljúka á fyrri hluta árs 2021. Skýr markmið voru sett fyrir málaflokkinn fyrir árið 2021 með áherslu á gagnadrifna ákvarðanatöku. Áherslurnar eru að styrkja vöruhús gagna og auka aðgengi stjórnenda að upplýsingum. Meginviðmiðið er að aðgengi að upplýsingum sé opið nema það sé sérstaklega rökstudd að það þurfi að vera heft.

Starfsemi ársins 2020 einkenndist af áskorunum vegna Covid-19. Fyrsta verkefni nýs sviðs var að innleiða Microsoft Teams sem er öflugt samvinnu- og samskiptatól. Teams var innleitt hratt og vel í fyrri heimavinnubylgju ársins og er nú eitt af grunn vinnutækjum starfsfólks. Það hefur náðst að innleiða nýtt verklag í vistun, hvernig starfsfólk vinnur saman og hvernig haldið er utan um verkefni.

Isavia og dótturfélög hafa á að skipa fjölbreyttum hópi starfsfólks sem sinnir ólíkum störfum. Til að efla samskipti milli hópsins sem er með starfsstöðvar víðsvegar um land og efla liðsanda var ákveðið að innleiða Workplace sem er samskiptamiðill fyrir vinnustaði. Miðillinn byggir á sömu eiginleikum og viðmóti og Facebook, en er sérsniðin fyrir umhverfi fyrirtækja og stofnana þar sem aðgengi er auðvelt hvar og hvenær sem er. Auðvelt er að sækja upplýsingar um fyrirtækið, starfið og verkefni. Innleiðing Workplace gekk vel og fór fram í seinni bylgju heimavinnu ársins 2020.

Félagið tók einnig upp rafræna undirritun árið 2020 og er innleiðingu á fyrsta áfanga þess verkefnis lokið. Nú eru rafrænar undirritanir notaðar við hefðbundna samninga við birgja og starfsmenn. Verkefnið styður við umhverfismarkmið félagsins um að minnka kolefnisspor starfseminnar og hefur einnig hjálpað félaginu að viðhalda hefðbundnum rekstri þrátt fyrir samkomutakmarkanir. Næstu verkþættir snúa að viðskiptavinum Isavia og umsóknum á ytri vef Isavia.

Snertilausar lausnir á Keflavíkurflugvelli

Keflavíkurflugvöllur

Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli var vígð og tekin í notkun í apríl 1987. Hún var þá ríflega 20 þúsund fermetrar að stærð. Nú er hún 73 þúsund fermetrar og því 3,5 sinnum stærri en við opnun. Á fyrsta ári flugstöðvarinnar fóru 750 þúsund farþegar um flugstöðina. Ef horft er til ársins 2019 fóru 7,25 milljónir farþega um flugstöðina. Það er umfram grunnfarþegaspá þróunaráætlunar Keflavíkurflugvallar. Þar var gert ráð fyrir 8,8 milljón farþegum árið 2025 og 13,8 milljón farþegum 2040.

Það er því ljóst að til að uppfylla alþjóðlega þjónustustaðla nægilega vel þarf að auka afkastagetu flugvallarins og er uppbyggingaráætlun Keflavíkurflugvallar gerð til að meta þessa þörf. Byggt er á umfangsmikilli farþegagreiningu. Verkefnum áætlunarinnar er skipt í flugstöðvar-, flugvallarkerfis- og vegarframkvæmdaverkefni. Á árinu 2020 var unnið að hönnun verkefna sem boðin verða út og framkvæmdir hefjast við á árinu 2021.

Flugstöðvarkerfi

Á árinu 2021 er áformað að bjóða út verkefni tengd tveimur viðbyggingum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Áætlað er að framkvæmdum ljúki árið 2022. Annars vegar er það viðbygging á einni hæð með kjallara sem bætir afgreiðslu á komufarangri í flugstöðinni. Töluverðar breytingar verða gerðar á innra skipulagi komusvæðis og er hluti af verkefninu uppsetning á nýjum kerfum tengdum farangursafgreiðslu.

Hins vegar er það viðbygging á tveimur hæðum án kjallara við Suðurbyggingu flugstöðvarinnar. Þar verður aðstaða farþega á brottfararhliðum í austurenda suðurbyggingarinnar bætt. Hluti af verkefninu er ný landgöngubrú.

flugbrautarkerfi

Á árinu 2021 verða boðnar út framkvæmdir við tvær akbrautir á Keflavíkurflugvelli og á framkvæmdum að ljúka á árinu. Annars vegar er það ný 1200 metra akbraut fyrir flugvélar sem tengir saman flughlað flugstöðvarinnar við flugbraut og hins vegar viðhald og endurnýjun ljósabúnaðar á einni af stóru akbrautum vallarins. Með nýju brautinni er öryggi og afkastageta flugbrautarkerfisins aukin.


Áformað er að bjóða út tvo nýja vegi á flugvallarsvæðinu og ljúka framkvæmdum við það árið 2021. Annar vegurinn er 1500 metra langur þjónustuvegur sem liggur að framkvæmdasvæði en mun til framtíðar nýtast fyrir flutning á vörum til og frá flugvallarsvæði og flugstöðinni. Hinn er 500 metra hringtenging sem tengir núverandi umferðarkerfi í forgarði flugstöðvar við núverandi vegstæði Reykjanesbrautar. Það eykur umferðaröryggi til muna og léttir á flöskuhálsum við flugstöðina.


Á árinu 2021 er enn fremur áætlað að hönnun hefjist eða haldi áfram við verkefni sem eru næst á dagskrá samkvæmt uppbyggingaráætlun. Flugstöðvarverkefnin samkvæmt uppbyggingaráætluninni eru eftirfarandi:

  • Áframhaldandi breikkun landgangs á milli norður- og suðurbygginga, með nýjum landamærum og stækkun veitingasvæðis.
  • Nýr landgangur með allt að 17 flugvélahliðum með landgöngubrúm ásamt hliðum fyrir fjarstæði.
  • Ný afgreiðslusvæði komu- og brottfararfarþega í nýrri norðurbyggingu, ásamt rými fyrir farangursskimun.

Flugvallarkerfisverkefnum er ætlað að auka afköst og öryggi flugbrautakerfis og greiða úr flöskuhálsum sem þar gætu myndast. Undir þau verkefni falla afísingarhlað, nýjar akbrautir, flýtireinar og aðrar tengingar flughlaðs og akbrauta.

Einnig er unnið að undirbúningi að hönnun bílastæðahúss vestan við Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Útboði vegna verkefnaumsjónar og verkeftirlits vegna framkvæmda á Keflavíkurflugvelli lauk í árslok 2019, með langtímasamningi við breska byggingar- og ráðgjafafyrirtækið Mace. Starfsmenn Mace hófu störf í ársbyrjun 2020 og eru að jafnaði 2-4 starfsmenn á landinu að sinna undirbúningi framkvæmda.

Mace mun annast verkefnaumsjón og verkeftirlit vegna komandi framkvæmda við m.a. byggingu austurálmu sem er nýr landgangur til austurs og byggingu á nýrri flugstöðvarbyggingu. Þá mun félagið einnig veita ráðgjöf við aðrar framkvæmdir Isavia á Keflavíkurflugvelli, þar á meðal við tengibyggingu vegna breikkunar á landgangi milli norður- og suðurbyggingar flugstöðvarinnar.
Enn er talsvert í að framkvæmdir við austurálmu og nýja flugstöð geti hafist enda kalla framkvæmdir af þessari stærðargráðu á nokkurra ára undirbúningsvinnu. Vinna MACE á árinu hefur m.a. snúist að skipulagi verkefnastjórnunar, stjórnarháttum verkefna, áhættumati, samskiptum við hagaðila, sjálfbærni o.fl.

Uppbyggingaráform á Keflavíkurflugvelli

Fólkið okkar

- þrif á tímum heimsfaraldurs

Jófríður Leifsdóttir

Jófríður Leifsdóttir

Deildarstjóri umhirðu og ásýndar

Hvernig hefur gengið að tryggja þrif á tímum heimsfaraldursins og hvernig hafa þrifin tekið breytingum?
Það hefur gengið mjög vel að tryggja ræstingu. Við erum með þjónustusamning um ræstingu á Keflavíkurflugvelli og verkefnið er mjög umfangsmikið en verktakinn hefur lagað sig að breyttum aðstæðum og kröfum eftir því sem þurft hefur. Við höfum einnig orðið að bregðast við ýmsum sértækum þrifum, sér í lagi í upphafi faraldurs þegar við vorum að taka á móti farþegum sem voru að koma af áhættusvæðum.

Þá þurftum við að vera undir það búin að á meðal farþega væru smitaðir einstaklingar, en jafnframt tryggja öryggi annarra farþega og starfsmanna á flugvellinum.
Við höfum meðal annars lagt meiri áherslu á algengustu snertifleti og breytt efnanotkun, en nú er öll afþurrkun framkvæmd með sótthreinsandi efnum. Verktakinn hefur einnig aðlagað sitt verklag á ýmsan hátt, meðal annars út frá svæðaskiptingum og tímasetningum á ræstingu þannig að hún fari fram þegar farþegar hafa yfirgefið svæði og þau séu þá hrein þegar næsti hópur fer í gegn. Það tryggir auk þess meiri gæði að ræsting er unnin samkvæmt gæðastaðlinum INSTA 800, sem við innleiddum árið 2018.

Hvernig hefur gengið að tryggja aðgengi að persónulegum sóttvörnum?
Við bættum aðgengi að persónulegum sóttvörnum í flugstöðinni enn frekar með því að fjölga sprittstöðvum umtalsvert. Það fylgdu því talsverðar áskoranir á síðasta ári

þegar spurn eftir handspritti á heimsvísu var í hæstu hæðum og á tímabili kom upp ákveðin skortstaða, en það leystist allt farsællega og í góðu samstarfi við birgja.

Hvernig hafa farþegar tekið því og hefur verið einhver endurgjöf?
Okkar helsta endurgjöf frá farþegum er í gegnum þjónustukönnun Alþjóðasamtaka flugvalla, sem er mæling á ánægju farþega í samanburði við aðra flugvelli í heiminum, og þar höfum við undanfarin ár fengið mjög jákvæða endurgjöf á hreinlæti í flugstöðinni. Við fengum svo nýlega sérstaka viðurkenningu frá Alþjóðasamtökunum fyrir hreinlæti á Covid tímum og hún byggir á upplifun farþega af þeim hreinlætis- og öryggisaðgerðum sem gripið var til. Þetta er stór þáttur í jákvæðri upplifun af ferðalögum í nýrri og breyttri heimsmynd og því mjög ánægjulegt fyrir Keflavíkurflugvöll að hljóta þessa viðurkenningu.

Isavia innanlandsflugvellir

Á hverju ári er unnið við viðhaldsverkefni á brautum, hlöðum og byggingum eins og fjármunir leyfa hverju sinni. Árið 2020 voru eftirfarandi flugvellir málaðir í innanlandskerfinu: Reykjavík, Akureyri, Egilsstaðir, Höfn, Vopnafjörður, Þórshöfn, Bakki, Sandskeið, Gjögur og Reykjahlíð.
Magnið af málningu sem notað var: 10.359 lítrar af hvítu, 1.124 lítrar af gulu og 468 lítrar af svörtu.

Á árinu 2020 var farið í ýmis brýn verkefni sem voru á Samgönguáætlun og auk þess komu fjármunir úr efnahagsátaki ríkisstjórnarinnar. Þar má nefna yfirlögn á Þórshafnarflugvelli og Ísafjarðarflugvelli en á þeim síðastnefnda voru bílastæðin einnig malbikuð sem var langþráð framkvæmd.

Slitlag var endurnýjað á Bakkaflugvelli og Reykhólum. Aðflugshallaljós (PAPI) endurnýjuð á Blönduóssflugvelli en þau eru mikilvægur búnaður fyrir sjúkraflug. Framkvæmd við endurnýjun brautarljósa á Hornafjarðarflugvelli hófst um haustið en var síðan frestað vegna veðurs fram á vor 2021.

Á Reykjavíkurflugvelli var malbikað yfir flughlað í Básum. Það var mikilvæg framkvæmd þar sem að þessi hluti flugvallarins er notaður fyrst og fremst fyrir smærri þotur og einkavélar. Endurnýjuð var girðing við aðkomu á svæði Landhelgisgæslunnar. Rúmir 1500 m af gaddavír voru strengdir ofan á flugvallargirðinguna vegna flugverndar.

Á Akureyrarflugvelli var lokið við vinnu vegna uppsetningar á ILS búnaði og var nýja ILS aðflugið úr norðri tekin í notkun í lok janúar 2020. Nýja aðflugið bætti aðgengi að Akureyrarflugvelli til muna. Aðflugið er bæði mikilvægt fyrir þau flugfélög sem eru í reglulegu áætlunarflugi til og frá flugvellinum en ekki síður mikilvægt fyrir ný flugfélög sem koma til Akureyrarflugvallar m.a. hefur Norlandair lýst ánægju sinni með aðflugið og sannaði það gildi sitt þegar Transavia kom til Akureyrarflugvallar í byrjun árs oft í krefjandi aðstæðum.


Vinna við nýtt flughlað á Akureyrarflugvelli hélt áfram árið 2020 þar sem hönnun á neðra burðalagi var kláruð. Unnið var við nýtt eldsneytisbirgðasvæði á Akureyrarflugvelli seinni hluta árs 2020 þar sem eldsneytistankar voru fluttir yfir á nýjan stað á fyrirhuguð nýju flughlaði. Einnig var rotþró fyrir flugstöðina á Akureyri aflögð í lok árs og ný skólphreinsistöð tekin í notkun. Stöðin er umhverfisvæn lausn og notkun hennar stórt skref í umhverfismálum fyrir Akureyrarflugvöll.

Árið 2020 hófst hönnun á nýrri viðbyggingu við flugstöðina á Akureyrarflugvelli. Viðbyggingin er ætluð fyrir millilandaflug og mun hjálpa flugvellinum að dafna sem millilandaflugvöllur.

Á Egilsstaðaflugvelli var farið í endurnýjun á skrifstofuhúsnæði og þakviðgerðir.

Á grunni efnahagsátaksins var gerður samningur við Flugmálafélag Íslands um framkvæmdir á minni lendingarstöðum. Félagið fór m.a. í endurbætur á Helluflugvelli og mun halda áfram verkefnum á árinu 2021.

Isavia ans

Áfram var unnið að verkefni sem snýr að endurnýjun fluggagnakerfis flugstjórnar-miðstöðvarinnar. Kerfið verður hannað af Tern Systems, dótturfélagi Isavia ANS, í samvinnu við Isavia ANS og nefnist Polaris.

Skipulag og þróun

Uppbyggingaráætlun fyrir Keflavíkurflugvöll er uppfærð árlega og unnið að uppfærslu þróunaráætlunar á um það bil fimm ára fresti. Í þróunar- og uppbyggingaráætlunum flugvallarins er stækkunaráformum miðlað til nærbyggðar. Efnahagsleg áhrif flugvallarins fyrir nærumhverfið og íslenskt hagkerfi í heild sinni eru mikil og mikilvægi flugvallarins fyrir aðalatvinnuveg þjóðarinnar, ferðaþjónustuna, sömuleiðis. Væntingar hagaðila til farsællar uppbyggingar eru miklar og í uppbyggingaráætlun er sérstaklega fjallað um kostnaðar- og tímaáætlanir framkvæmda auk þess sem breytingar í farþegamynstri og flugumferð eru greindar í samhengi við uppbyggingaráform.

Uppbyggingaráætlun fyrir Keflavíkurflugvöll var uppfærð 2019 og þróunaráætlun kynnt árið 2015. Bæði uppbyggingar- og þróunaráætlun átti að uppfæra á árinu 2020 en var frestað vegna óvissu í flugheiminum. Gert er ráð fyrir nýjum útgáfum beggja áætlana á árinu 2021.

Uppbyggingar- og þróunaráætlanir flugvallarins eru valfrjálsar enda ekki þekktar í íslenskum lögum eða skipulagsumhverfi en þekkjast erlendis frá. Markmið þeirra er að miðla framtíðarsýn flugvallarins og sýna fram á áfangaskiptar, sveigjanlegar áætlanir sem taka mið af farþega- og umferðaspám og miðla upplýsingum um uppbyggingaráform til hagaðila. Áætlanagerðin er nálgun sem Isavia hefur valið til að tefla fram uppbyggingar- og þróunaráformum. Við mat á umhverfisáhrifum gengur flugvöllurinn lengra og sýnir fram á heildaráhrif uppbyggingaráætlunar sem er umfram lög um mat á umhverfisáhrifum.

Uppbyggingar- og þróunaráætlanir flugvallarins eru samþykktar af stjórn Isavia eftir að hafa verið teknar fyrir af framkvæmdastjórn. Þróunaráætlun er framtíðarsýn flugvallarins hvað varðar landnotkun og samskipti við samfélagið tengt flugvellinum. Uppbyggingaráætlun er gefin út 1-2 á ári og tekur til sjö ára framtíðar. Þróunaráætlun er til 25 ára og er gefin út á 3-5 ára fresti. Í uppfærðri þróunaráætlun er sýnt fram á ný þróunarsvæði auk breytinga sem orðið hafa á áformum á undanförnum fimm árum, frá útgáfu 2015.

Þróunaráætlun er kynnt hagsmunaaðilum og á samráðsfundum og leitað eftir athugasemdum. Heimasíður þróunaráætlunar & uppbyggingaráætlunar eru notaðar til að miðla upplýsingum og kalla eftir athugasemdum hagsmunaaðila. Aðgerðum er forgangsraðað út frá mikilvægi þeirra byggt á þarfagreiningum og kröfum sem byggjast á væntingum notenda og alþjóðlegum reglugerðum og stöðlum. Nálgunin, að móta uppbyggingar- og þróunaráætlanir er kerfisbundin og er komin reynsla á þessa nálgun hjá Isavia. Uppbyggingaráætlun hefur verið gefin út tvisvar og þróunaráætlun sömuleiðis.


Meðal verkefna á árinu 2020 var að skilgreina samráðsferli við hagsmunaaðila vegna framkvæmda á Keflavíkurflugvelli og að setja uppbyggingaráætlun Keflavíkurflugvallar háleit markmið þegar kemur að framtíðar arfleið og sjálfbærni framkvæmdanna

Uppbyggingaráætlun er í heild sinni send til skipulagsstofnunar þar sem umhverfisáhrif fyrirhugaðrar uppbyggingar eru metin. Mat á umhverfisáhrifum er vanalega tengt einstaka verkefnum en með uppbyggingaráætlun er hægt að meta heildaráhrif þeirra framkvæmda sem gert er ráð fyrir að ráðist verði í á komandi árum með teknu tilliti til aukinna afkasta og áhrifa á umhverfis- og samfélagsmál.

Umhverfismat uppbyggingaráætlunar sýnir þau umhverfisáhrif sem munu eiga sér stað vegna stækkunaráforma flugvallarins auk mótvægisaðgerða. Ýmis verkefni sem lögð eru til í uppbygginga- og þróunaráætlunum stuðla að bættum umhverfisáhrifum flugvallarins, svo sem afísingarhlað og stytting akstursleiðir flugvéla. Hönnun stækkunar flugstöðvar tekur mið af umhverfisvottunarkerfinu BREEAM.

Keflavíkurflugvöllur veldur óbeint auknum umhverfisáhrifum en aukin afkastageta flugvallarins mun skapa störf og efnahagslegan ábata fyrir nærbyggð flugvallarins. Að sama skapi þarf að gera ráð fyrir óæskilegum afleiðingum aukinnar umferðar, svo sem vegna hávaða, aukinnar bílaumferðar á þjóðvegum landsins, útblásturs koltvísýrings o.fl. Isavia vaktar hljóðvist og loftmengun við flugvöllinn og kynnir niðurstöður mælinga opinberlega. Umhverfisvænar lausnir við uppbyggingu flugstöðvar og flugvallar eru sömuleiðis hafðar í forgrunni hjá Isavia.

Erfitt er að ná utan um óbein áhrif vegna starfsemi Keflavíkurflugvallar en í skýrslu sem unnin var fyrir Isavia um þýðingu uppbyggingar flugvallarins til framtíðar koma bein efnahagsleg áhrif bersýnilega í ljós.

Breska byggingar- og ráðgjafafyrirtækið Mace hefur frá byrjun árs 2020 unnið sem samstarfsaðili Isavia í uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli. Fyrirtækið mun annast verkefnaumsjón og verkeftirlit vegna komandi framkvæmda, en veiti einnig mikilvægt þekkingu í undirbúningi slíkrar stórframkvæmda. Meðal verkefna Mace á árinu 2020 var að skilgreina samráðsferli við hagsmunaaðila vegna framkvæmda á Keflavíkurflugvelli og að setja uppbyggingaráætlun Keflavíkurflugvallar háleit markmið þegar kemur að framtíðar arfleið og sjálfbærni framkvæmdanna. Þar er horft sérstaklega til áhrifa á nærsamfélag flugvallarins, atvinnuuppbyggingu og umhverfismál.

Isavia hefur við vinnslu þróunaráætlunar leitast við að eiga í góðu sambandi við nærbyggðina. Samráðsfundir eru haldnir við mótun áætlana og áætlanir kynntar reglulega fyrir hagaðilum og fjölmiðlum.

Isavia hefur sett á laggirnar samráðsvettvang í samráði við nærbyggðina undir merkjum Heimsmarkmiða Sameinuðu Þjóðanna og á þannig í góðum samskiptum við sína helstu hagsmunaaðila úr nærbyggðinni. Samstarfsverkefnið sem kallað er Suðunesjavettvangur samanstendur af sveitarfélögunum fjórum á Suðurnesjum – Grindavíkurbæ, Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Vogum –ásamt Isavia, Kadeco og Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum. Á árinu 2020 voru haldnir fjölmargir fundir fulltrúa frá þessum aðilum og settir á laggirnar fjórir málefnahópar sem allir skiluðu tillögum að markmiðum í samræmi við Heimsmarkmiðin. Í nóvember var svo haldinn umræðufundur þar sem 140 manns tóku þátt í fjörlegum umræðum í málefnahópum. Tilkynnt var í lok fundarins að allir sem standa að Suðurnesjavettvanginum myndu skrifa undir yfirlýsingu um að hraða innleiðingu hringrásarhagkerfisins á svæðinu.

Fólkið okkar

Við verðum tilbúin

Brynjar Vatnsdal

Brynjar Vatnsdal

Deildarstjóri Þróunardeildar

Hvernig verður hlutafjáraukning Isavia nýtt til framkvæmda?
Hlutafjáraukningin gerir okkur kleift að fara af stað með verkefni sem eru skilgreind í uppbyggingaráætlun Keflavíkurflugvallar og miða öll að því að gera flugvöllinn betur í stakk búinn til þess að taka á móti svipuðum fjölda farþega og var fyrir heimsfaraldur.

Hvar eru helstu áherslur í framkvæmdum?
Við búum svo vel að eiga nokkuð ítarlega uppbyggingaráætlun þar sem forgangsröðun verkefna og tilgangur er vel skilgreindur. Það hefur hjálpað okkur mikið. En við höfum núna litið sérstaklega til verkefna sem annað hvort voru komin af stað í hönnunarferli eða hafa tiltölulega stuttan hönnunartíma með það í huga að við getum hafið framkvæmdir strax á þessu ári. Þarna eru til að mynda verkefni í flugbrautarkerfinu sem erfitt er að framkvæma á flugvelli í fullum rekstri. Þær aðstæður sem eru uppi vegna Covid-19 heimsfaraldurins, þ.e. minni umferð um flugvöllinn, skapa þær aðstæður að auðveldara er að ráðast í þess konar framkvæmdir á vellinum. Sömuleiðis höfum við horft til þeirra svæða í flugstöðinni þar sem þrengsli hafa verið hvað mest á álagstímum. 

Við verðum líka betur búin til að taka á móti farþegum þegar flug hefst á ný. Þá verða þrengsli ekki eins á sömu stöðum þegar umferðin er sem mest innan dagsins.

Er hægt að segja eitthvað um framhaldið til næstu 5 ára?
Það sem er gríðarlega mikilvægt við hlutafjáraukninguna er að hún veitir okkur tækifæri til að halda áfram hönnun á stærri flugstöðvarverkefnum. Þar ber fyrst að nefna tengibygging á milli norður- og suðurbyggingar, sem mun mæta auknum kröfum við landamæraeftirlit,en einnig gjörbreyta upplifun farþega og þá sérstaklega á verslunar- og veitingasvæðum í flugstöðinni.