Í samræmi við stefnu félagsins leggur Isavia sig fram um markvissa innleiðingu nýrrar tækni og vinnubragða. Til að leggja áherslu á þetta stefnumið félagsins og mikilvægi stafrænnar þróunar til framtíðar í starfsemi félagsins var stofna sérstakt stoðsvið um þennan málaflokk í lok árs 2019. Isavia er þjónustufyrirtæki í flugvallastarfsemi og er hlutverk upplýsingatækninnar í því samhengi að skapa stafrænan vettvang fyrir starfsfólk, samstarfsaðila og viðskiptavini. Þannig leggur félagið til mikilvæga innviði og innri þjónustu til að auka hagkvæmni, skilvirkni og öryggi í þjónustu við þá sem fara um Keflavíkurflugvöll.
Árið 2020 var horft inn á við og lagt mat á hvernig stafræn þróun og upplýsingatækni gæti stutt við framtíðarsýn Isavia. Það var ákveðið að marka stefnu í málaflokknum, setja niður leiðarljós til framtíðar og skýran ramma í kringum ákvarðanir og upplýsingagjöf. Vinna við stefnu í upplýsingatækni hófst í lok árs 2020 og mun ljúka á fyrri hluta árs 2021. Skýr markmið voru sett fyrir málaflokkinn fyrir árið 2021 með áherslu á gagnadrifna ákvarðanatöku. Áherslurnar eru að styrkja vöruhús gagna og auka aðgengi stjórnenda að upplýsingum. Meginviðmiðið er að aðgengi að upplýsingum sé opið nema það sé sérstaklega rökstudd að það þurfi að vera heft.
Starfsemi ársins 2020 einkenndist af áskorunum vegna Covid-19. Fyrsta verkefni nýs sviðs var að innleiða Microsoft Teams sem er öflugt samvinnu- og samskiptatól. Teams var innleitt hratt og vel í fyrri heimavinnubylgju ársins og er nú eitt af grunn vinnutækjum starfsfólks. Það hefur náðst að innleiða nýtt verklag í vistun, hvernig starfsfólk vinnur saman og hvernig haldið er utan um verkefni.
Isavia og dótturfélög hafa á að skipa fjölbreyttum hópi starfsfólks sem sinnir ólíkum störfum. Til að efla samskipti milli hópsins sem er með starfsstöðvar víðsvegar um land og efla liðsanda var ákveðið að innleiða Workplace sem er samskiptamiðill fyrir vinnustaði. Miðillinn byggir á sömu eiginleikum og viðmóti og Facebook, en er sérsniðin fyrir umhverfi fyrirtækja og stofnana þar sem aðgengi er auðvelt hvar og hvenær sem er. Auðvelt er að sækja upplýsingar um fyrirtækið, starfið og verkefni. Innleiðing Workplace gekk vel og fór fram í seinni bylgju heimavinnu ársins 2020.
Félagið tók einnig upp rafræna undirritun árið 2020 og er innleiðingu á fyrsta áfanga þess verkefnis lokið. Nú eru rafrænar undirritanir notaðar við hefðbundna samninga við birgja og starfsmenn. Verkefnið styður við umhverfismarkmið félagsins um að minnka kolefnisspor starfseminnar og hefur einnig hjálpað félaginu að viðhalda hefðbundnum rekstri þrátt fyrir samkomutakmarkanir. Næstu verkþættir snúa að viðskiptavinum Isavia og umsóknum á ytri vef Isavia.