Síðustu ár hefur vöxtur og samdráttur millilandaflugs á Íslandi verið óvenjulega mikill. Ör fjölgun var í fjölda millilandafarþega sem fór um Keflavíkurflugvöll frá árinu 2009 til 2018 – eða ríflega fjórföldun á tímabilinu. Félagið hafði varla við að uppfæra innviði sína og þjónustugetu á meðan á vextinum stóð. Síðan snerist dæmið algerlega við. Árið 2019 varð 26% samdráttur í fjölda farþega, vegna gjaldþrots Wow air og kyrrsetningar á Boeing 737 MAX flugvélum, sem Icelandair hugðist nota. Þegar erfitt ár var að baki, í upphafi árs 2020, bjuggust fyrirtæki í ferðaþjónustunni, þar á meðal stjórnendur Isavia, við því að það versta væri yfirstaðið og að nú hæfist vöxtur á ný.
Það var öðru nær. Eins og allir vita þá skall á heimsfaraldur snemma árs 2020, sem hafði þau áhrif að um 81% samdráttur varð í fjölda millilandafarþega sem fór um Keflavíkurflugvöll milli ára. Fara þarf langleiðina aftur til síðustu aldamóta, löngu áður en ferðaþjónustan tók að vaxa verulega á Íslandi, til að sjá sambærilegar farþegatölur um Keflavíkurflugvöll.
Í öllu þessu róti reyndi verulega á styrk Isavia. Það er ánægjulegt að sjá hversu vel félagið hefur, þrátt fyrir allt, staðið af sér hremmingar veirufaraldursins. Skipulagsbreytingar samstæðunnar, sem ráðist var í árið 2019, auðvelduðu ólíkum rekstrareiningum hjá samstæðu Isavia að forgangsraða áherslum sínum við aðstæður sem enginn sá fyrir.
Þannig hefur tekist vel að standa vörð um innviði félagsins og viðhalda þeim í faraldrinum, en þeir eru hluti af lykilinnviðum Íslands, í efnahagslegu og öryggislegu tilliti. Félagið á enn greiðan aðgang að lausu fé, sem er afar mikilvægt í þeirri óvissu sem við búum við. Alþjóðlegar viðhorfskannanir hafa sýnt að Ísland er í sterkri samkeppnisstöðu, sem öruggt hágæða ferðamannaland með eftirsótt náttúruleg víðerni, þegar ferðalög hefjast að einhverju marki á ný í heiminum.