Það er ekki ofsögum sagt að árið 2020 hafi verið krefjandi fyrir rekstur flugvalla og flugleiðsögu í öllum heiminum. Heimsfaraldurinn af völdum Covid-19 tók völdin í öllum okkar daglegu athöfnum og fór Isavia ekki varhluta af því. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um áhrifin því tölurnar tala sínu máli.
Ef horft er til ársins 2020 í heild þá nam fækkun farþega um Keflavíkurflugvöll um 81%. Ef horft er á tímabilið apríl – desember 2020 þá fækkaði farþegum um 93%. Í apríl og maí fækkaði farþegum um rúmlega 99%. Það er ljóst að hefðbundnar aðhaldsaðgerðir í rekstri duga skammt við slíkar hamfarir. Svipaða sögu er að segja af rekstri flugleiðsögu og innanlandsflugvalla en árið 2020 varð rúmlega 58% samdráttur á flugumferð um íslenska úthafsflugstjórnarsvæðið og 51% samdráttur í fjölda brottfararfarþega sem fóru um innanlandsflugvellina í áætlunarflugi.
Þá má heldur ekki gleyma að árið 2019 voru líka ytri áskoranir sem sneru að falli Wow air og kyrrsetningu á öllum Boeing 737 MAX flugvélum Icelandair. Það varð til þess að farþegum um Keflavíkurflugvöll fækkaði um 26% milli áranna 2018 og 2019. Það má því með sanni segja að síðustu ár hafi farið mikil orka í að verjast ytri áföllum sem félagið hefur enga beina stjórn á.
Í lok mars síðastliðins var ljóst að Isavia var að sigla inn í mikla óvissutíma í rekstri félagsins þar sem nær ógerningur var að setja fram forsendur með upplýstum hætti. Það var fyrirsjáanlegt að ákveðin verkefni hjá félaginu yrðu ekki til staðar næstu 12-24 mánuði. Frá fyrstu stundu var lögð áhersla á að öll viðbrögð yrðu yfirveguð og reynt yrði með öllum ráðum að standa vörð um störf hjá félaginu og þá innviði sem félaginu er falið að reka. Það var lykilatriði að ganga ekki það nærri rekstrinum í niðurskurði að það kæmi niður á möguleikum félagsins til að rísa hratt upp á ný. Þrátt fyrir þetta sá félagið sér ekki annað fært en að grípa til uppsagna á síðasta ári sem náðu til um 300 starfsmanna, aðallega hjá móðurfélaginu sem sér um rekstur Keflavíkurflugvallar, enda engin verkefni til staðar fyrir marga starfsmenn af völdum Covid-19.
Á fyrstu dögum faraldursins var lögð mikil áhersla á að tryggja fjármögnun félagsins og aðgengi þess að lausu fé til að hafa svigrúm til að halda uppi umsvifum á meðan áhrifa Covid-19 gætti. Það hefur gengið vel og í dag er aðgengi félagsins að lausu fé enn gott. Það má því segja að vel hafi tekist til hjá félaginu að fóta sig í gegnum heimsfaraldurinn þrátt fyrir þá óvissu sem honum hefur fylgt og á sama tíma hefur tekist að verja innviði þess.