Hoppa yfir valmynd

Inngangsorð forstjóra

Það er ekki ofsögum sagt að árið 2020 hafi verið krefjandi fyrir rekstur flugvalla og flugleiðsögu í öllum heiminum. Heimsfaraldurinn af völdum Covid-19 tók völdin í öllum okkar daglegu athöfnum og fór Isavia ekki varhluta af því. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um áhrifin því tölurnar tala sínu máli.

Ef horft er til ársins 2020 í heild þá nam fækkun farþega um Keflavíkurflugvöll um 81%. Ef horft er á tímabilið apríl – desember 2020 þá fækkaði farþegum um 93%. Í apríl og maí fækkaði farþegum um rúmlega 99%. Það er ljóst að hefðbundnar aðhaldsaðgerðir í rekstri duga skammt við slíkar hamfarir. Svipaða sögu er að segja af rekstri flugleiðsögu og innanlandsflugvalla en árið 2020 varð rúmlega 58% samdráttur á flugumferð um íslenska úthafsflugstjórnarsvæðið og 51% samdráttur í fjölda brottfararfarþega sem fóru um innanlandsflugvellina í áætlunarflugi.

Þá má heldur ekki gleyma að árið 2019 voru líka ytri áskoranir sem sneru að falli Wow air og kyrrsetningu á öllum Boeing 737 MAX flugvélum Icelandair. Það varð til þess að farþegum um Keflavíkurflugvöll fækkaði um 26% milli áranna 2018 og 2019. Það má því með sanni segja að síðustu ár hafi farið mikil orka í að verjast ytri áföllum sem félagið hefur enga beina stjórn á.

Í lok mars síðastliðins var ljóst að Isavia var að sigla inn í mikla óvissutíma í rekstri félagsins þar sem nær ógerningur var að setja fram forsendur með upplýstum hætti. Það var fyrirsjáanlegt að ákveðin verkefni hjá félaginu yrðu ekki til staðar næstu 12-24 mánuði. Frá fyrstu stundu var lögð áhersla á að öll viðbrögð yrðu yfirveguð og reynt yrði með öllum ráðum að standa vörð um störf hjá félaginu og þá innviði sem félaginu er falið að reka. Það var lykilatriði að ganga ekki það nærri rekstrinum í niðurskurði að það kæmi niður á möguleikum félagsins til að rísa hratt upp á ný. Þrátt fyrir þetta sá félagið sér ekki annað fært en að grípa til uppsagna á síðasta ári sem náðu til um 300 starfsmanna, aðallega hjá móðurfélaginu sem sér um rekstur Keflavíkurflugvallar, enda engin verkefni til staðar fyrir marga starfsmenn af völdum Covid-19.

Á fyrstu dögum faraldursins var lögð mikil áhersla á að tryggja fjármögnun félagsins og aðgengi þess að lausu fé til að hafa svigrúm til að halda uppi umsvifum á meðan áhrifa Covid-19 gætti. Það hefur gengið vel og í dag er aðgengi félagsins að lausu fé enn gott. Það má því segja að vel hafi tekist til hjá félaginu að fóta sig í gegnum heimsfaraldurinn þrátt fyrir þá óvissu sem honum hefur fylgt og á sama tíma hefur tekist að verja innviði þess.

Okkur hefur síðustu ár verið tíðrætt um mikilvægi flugtenginga sem er einn af grunnþáttunum til að byggja undir og viðhalda hagvexti

Áföllum af þessu tagi fylgir mikill lærdómur. Einn lærdómurinn snýr að mikilvægi þess að hafa hugrekki til að leita að tækifærum í mótlæti. Okkur hefur síðustu ár verið tíðrætt um mikilvægi flugtenginga sem er einn af grunnþáttunum til að byggja undir og viðhalda hagvexti. Hér erum við ekki eingöngu að horfa til ferðaþjónustunnar heldur líka til útflutnings á vörum og þjónustu, aðgengi að menntun og menningu og svona mætti lengi telja.

Fjárfestingar í flugvallainnviðum er einn af lykilþáttunum í því að fjölga og viðhalda flugtengingum. Eðlilega voru fyrstu viðbrögð félagsins við heimsfaraldrinum á þá leið að draga verulega úr framkvæmdum til að hægja á útflæði fjármagns enda var óvissan þá alger. Síðastliðið haust náðist þó mikilvægur árangur þegar Icelandair, stærsti viðskiptavinur Isavia, tryggði sér fjármögnun og við það minnkaði óvissan m.a. um stöðu tengistöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli.

Síðustu árin hefur verið unnið að undirbúningi fyrir næstu skref í uppbyggingaráætlun Keflavíkurflugvallar. Forsendur félagsins gera nú ráð fyrir því að fjöldi farþega sem fer um Keflavíkurflugvöll verði kominn á svipaðar slóðir og fyrir Covid-19 eigi síðar en árið 2024. Það gæti gerst fyrr og það gæti líka gerst síðar en til að geta tryggt áfram grunninn fyrir flugtengingar til framtíðar er mikilvægt að hefjast nú þegar handa við áframhaldandi uppbyggingu Keflavíkurflugvallar.

Þarna komum við að öðrum lærdómi sem snýr að mikilvægi þess að geta í miðjum storminum horft í gegnum hvirfilbyl dagsins og séð tækifæri framtíðarinnar. Það sem meira er, að með því að setja uppbyggingaráætlunina af stað á ný þá verða samhliða til fjölmörg atvinnutækifæri á Suðurnesjum en það atvinnusvæði hefur orðið fyrir hvað mestum áhrifum af heimsfaraldrinum þegar kemur að atvinnuástandi.

Samstaða er enn einn lærdómurinn en síðustu mánuði hefur félagið unnið að því að tryggja félaginu frekari fjármögnun til að sækja svigrúm til að setja af stað uppbyggingarverkefni sem skila sér ekki eingöngu til flugvallarins til framtíðar heldur einnig sem mikilvæg innspýting til Suðurnesjanna. Með samstilltu átaki allra hlutaðeigandi tókst að klára þessa vinnu á afar stuttum tíma og í byrjun þessa árs tók fjármála- og efnahagsráðherra ákvörðun um að auka hlutafé í félaginu sem gerði það mögulegt að fjölmörg og mannaflafrek framkvæmdaverkefni á Keflavíkurflugvelli fara af stað nú þegar á þessu ári.

Á tímum eins og núna er sérstaklega mikilvægt að missa ekki sjónar á mikilvægi umhverfismála og sjálfbærni. Isavia hefur síðustu árin unnið mikla og góða vinnu í þá átt að tryggja sjálfbærni til framtíðar. Við sjáum mikil tækifæri í því að samkeppnisforskot Íslands til framtíðar muni snúa að umhverfismálum og sjálfbærni og þar munum við ekki láta okkar eftir liggja.

Á tímum eins og núna er sérstaklega mikilvægt að missa ekki sjónar á mikilvægi umhverfismála og sjálfbærni

Isavia hefur verið aðili að alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna (UN Global Compact) frá 2016. Með þeirri þátttöku skuldbindur félagið sig til þess að starfshættir séu í samræmi við tíu viðmið Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi, vinnumál, umhverfismál og aðgerðir gegn spillingu. 

Unnið er markvisst að málaflokkunum á ýmsum sviðum og félagið setur sér metnaðarfull markmið á hverju ári. Við val á markmiðum og úrbótaverkefnum þeim tengdum er m.a. horft til stefnu félagsins, ábendinga hagaðila, viðmiða UN Global Compact, Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og áherslna stjórnvalda þeim tengdum. Markmið félagsins fyrir árið 2021 tengjast átta af Heimsmarkmiðunum sautján.

Isavia gefur nú út árs- og samfélagsskýrslu samkvæmt viðmiðum Global Reporting Initiative í fimmta skipti. Skýrslan er gerð samkvæmt GRI Standards: Core í ár ásamt GRI-G4 sérákvæðum um flugvelli. Sérákvæðin taka sérstaklega á þeim áskorunum og tækifærum sem flugvellir standa frammi fyrir þegar kemur að sjálfbærni. Horft er til starfsemi félagsins og þeirra áhrifa sem hún hefur á efnahag, umhverfi og samfélagið. Í ár er skýrslan gefin út á vefnum í þriðja skipti. Fjöldi starfsfólks frá öllum sviðum fyrirtækisins komu að vinnunni við hana og við fengum einnig utanaðkomandi ráðgjafa til að yfirfara og tryggja gæði upplýsinganna. Við fögnum öllum ábendingum um innihald skýrslunnar, enda eru stöðugar umbætur órjúfanlegur hluti af starfsemi okkar.

Í þessari samfélagsskýrslu lýsum við starfsemi Isavia árið 2020. Skýrslunni er skilað inn sem framvinduskýrslu um markmið okkar að Global Compact sáttmála Sameinuðu þjóðanna (UNGC). Þar með staðfestum við vilja okkar til að vinna í samræmi við tíu viðmið Sameinuðu þjóðanna og vinna að Heimsmarkmiðunum. Við lýsum yfir áframhaldandi stuðningi við UN Global Compact.

Síðasta ár var okkur öllum afar erfitt. Við höfum öll þurft að færa fórnir með einum eða öðrum hætti, takast á við gjörbreyttar aðstæður bæði í okkar störfum og í okkar persónulega lífi og þá hefur fjöldi fólks misst atvinnu sína. Mörg fyrirtæki berjast enn í bökkum og enn er óvissan um hvenær endurheimtin byrjar. Starfsfólk Isavia hefur staðið sig einstaklega vel við þessar erfiðu áskoranir og ég vil þakka þeim öllum kærlega fyrir vel unnin störf. Þá er ekki síður mikilvægt að við áttum okkur öll á því að við höfum nú þegar snúið vörn í sókn – og þar viljum við vera.

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia