Isavia gerir samfélagsskýrslu sína samkvæmt staðli Global Reporting Initiative, GRI Standards: Core ásamt sérákvæðum GRI-G4 um flugvelli. Sérákvæðin taka sérstaklega á þeim áskorunum og tækifærum sem flugvellir standa frammi fyrir þegar kemur að sjálfbærni. Horft er til starfsemi félagsins og þeirra áhrifa sem hún hefur á efnahag, umhverfi og samfélagið.
Isavia leggur áherslu á víðtækt samráð við þá hagaðila sem treysta á þjónustu fyrirtækisins og verða fyrir áhrifum af starfseminni. Starfseminnar gætir um allt land og snertir alla landsmenn. Isavia hefur greint á annað hundrað hagaðila sem má flokka í viðskiptavini, starfsfólk, samfélag, stjórnvöld og birgja. Samskipti Isavia við hagaðila fara fram, með fjölbreyttum hætti, í gegnum hefðbundnar leiðir fyrirspurna og erinda, á fundum, með markaðsrannsóknum sem fyrirtækið gerir eða í gegnum fjölmörg samstarfsverkefni Isavia og hagaðila þess.
Haustið 2018 fól Isavia sænska ráðgjafafyrirtækinu Enact Sustainable Strategies að framkvæma viðtöl við hagaðila fyrirtækisins. Markmiðið var að kanna meðal helstu hagaðila fyrirtækisins hvaða málefni og viðfangsefni væru þeim mikilvægust í samfélagsábyrgð félagsins. Fyrir útgáfu ársins 2020 var byggt á grunni fyrri mikilvægisgreiningar ásamt niðurstöðum kannana meðal B2B viðskiptavina, áherslna úr samstarfsvettvangi við samfélagið á Suðurnesjum auk þess að draga saman þau helstu málefni sem aðrir hagaðilahópar Isavia hafa nálgast félagið með.
Við val á mikilvægum þáttum er horft til þeirra málefna sem hagaðilar félagsins telja sérstaklega mikilvæg í samstarfi við Isavia, væntingar hagaðila til félagins og mat þeirra á samvinnu við Isavia. Auk þessa er horft til nýjustu áherslna flugiðnaðarins í málaflokknum, þróunar og breytinga í lagaumhverfinu, helstu viðmiða í samfélagsskýrslugjöf, samanburðar við leiðandi fyrirtæki og málefna sem aðilar úr hagaðilaumhverfi félagsins hafa vakið athygli á.
Lögð er áhersla á þá þætti sem teljast mikilvægir fyrir Isavia og hagaðila félagsins í efnistökum skýrslunnar í samræmi við meginreglur skýrslugerðar, Reporting Principles GRI 101 Foundation standard.