Isavia innanlandsflugvellir
Isavia Innanlandsflugvellir ehf. sér um rekstur íslenskra áætlunarflugvalla annarra en Keflavíkurflugvallar auk minni flugvalla og lendingarstaða. Reksturinn grundvallast á þjónustusamningi félagsins við samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytið sem ákvarðar þjónustustig flugvallanna, rekstur og viðhald, enda er um að ræða hluta af almenningssamgöngukerfi sem er í eigu ríkisins.
Félagið rekur alþjóðaflugvellina Reykjavíkurflugvöll, Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll. Auk þeirra eru níu lendingarstaðir fyrir reglubundið áætlunarflug innanlands. Félagið hefur einnig umsjón með 30 öðrum lendingarstöðum um land allt. Félagið sinnir fjölbreyttum verkefnum eins og almennri flugvallarþjónustu, flugumferðarþjónustu, flugvernd, umsjón með verklegum framkvæmdum auk öryggis- og gæðamála. Hjá fyrirtækinu vinnur samhentur hópur sem hefur það að markmiði að halda Íslandi á lofti og vera hluti af góðu ferðalagi viðskiptavina.
Framkvæmdastjóri
Isavia innanlandsflugvellir
Sigrún Björk Jakobsdóttir, fædd 1966, hótelrekstrarfræðingur. Framkvæmdastjóri frá 2018.
Dagur á Reykjavíkurflugvelli
isavia ans
Dótturfélagið, Isavia ANS, veitir flugleiðsöguþjónustu í innanlandsflugi og alþjóðaflugi í efra loftrými yfir Norður-Atlantshafi. Starfsemin grundvallast á milliríkjasamningi við 25 ríki um þjónustu og fjármögnun sem byggir á endurheimtukerfi kostnaðar (e. full cost recovery system). Isavia ANS er með starfsleyfi til þess að sjá um flugleiðsögu og flugumferðarþjónustu á Norður-Atlantshafi fyrir hönd Íslands, og á svæði sem er nefnt íslenska flugstjórnarsvæðið. Alþjóða flugmálastofnunin (ICAO) hefur falið sjö ríkjum að sjá um flugumferðarþjónustu yfir þessu svæði, en auk Íslands eru það Bretland, Kanada, Noregur, Bandaríkin, Danmörk og Portúgal. Rétt rúmlega fjórðungur flugumferðar á leið yfir Norður-Atlantshafið fer í gegnum íslenska flugstjórnarsvæðið. Það hefur nokkra sérstöðu meðal úthafssvæða vegna sveigjanleika, bæði hvað varðar flugleiðir og flughæðir.
Dótturfyriræki Isavia ANS eru Tern Systems sem þróar hugbúnað fyrir flugleiðsöguþjónustu og Suluk sem heldur utan um rekstur flugleiðsöguþjónustu á Grænlandi.
Framkvæmdastjóri Isavia ANS
Kjartan Briem, fæddur 1970, rafmagnsverkfræðingur. Framkvæmdastjóri frá 2021.
fríhöfnin
Fríhöfnin ehf. rekur verslanir með tollfrjálsan varning í Flugstöð Leifs Eiríkssonar samkvæmt rekstrarleyfissamningi við móðurfélagið Isavia. Áhersla er á fjölbreytt og vandað úrval af innlendum og erlendum vörum með áherslu á dæmigerðar fríhafnarvörur, áfengi, tóbak, sælgæti og snyrtivörur. Fríhöfnin rekur fjórar verslanir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, tvær fyrir brottfararfarþega, eina fyrir farþega til landa utan Schengen svæðis og eina fyrir komufarþega.
Stefna Fríhafnarinnar er að bjóða vöruúrval og þjónustu í samræmi við þarfir ólíkra viðskiptavinahópa og um leið að skapa eftirsóknarverðan vinnustað sem skilar arðsömum rekstri til eiganda. Fríhöfnin er á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki frá árinu 2010 – 2020 og er jafnlaunavottað fyrirtæki frá BSI frá árinu 2019.
Framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar
Þorgerður Þráinsdóttir, fædd 1975, Cand.Psych í sálfræði. Framkvæmdastjóri frá 2014.
Fyrir utan ofangreind dótturfélög á Isavia ohf. félagið Domavia en því félagi var slitið í byrjun árs 2021. Aðalskrifstofur Isavia ohf. eru í Dalshrauni 3, Hafnarfirði, en þær voru fluttar frá Reykjavíkurflugvelli í lok árs 2020.