Hoppa yfir valmynd

Starfsemi Isavia

TÆKIFÆRI TIL FRAMTÍÐAR

Starfsemi

Isavia ohf. annast uppbyggingu og rekstur Keflavíkurflugvallar. Dótturfélög þess Isavia ANS og Isavia Innanlandsflugvellir reka annars vegar flugleiðsöguþjónustu á einu stærsta flugstjórnarsvæði heims og hins vegar öflugt net innanlandsflugvalla á Íslandi. Þessu til viðbótar rekur dótturfélagið Fríhöfnin ehf. fjórar verslanir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli.

Skipulagi félagsins var breytt í lok árs 2019 þegar flugleiðsöguþjónusta og rekstur innanlandsflugvalla, sem höfðu áður verið svið innan Isavia, voru gerð að dótturfélögum. Stjórn tók ákvörðun um breytinguna á grundvelli þess að um eðlisólíkar rekstrareiningar er að ræða. Keflavíkurflugvöllur er rekinn í samkeppnisumhverfi, rekstur innanlandsflugvalla er háður framlagi frá íslenska ríkinu og rekstur flugleiðsöguþjónustu byggir á endurheimtukerfi kostnaðar. Með breytingunum fékk hver hluti starfseminnar sitt eigið vægi, sína stjórn og tækifæri til að innleiða mismunandi áherslur og markmið. Þetta er í fyrsta skipti sem efnistök samfélagsskýrslunnar endurspegla þessa breytingu að fullu.

isavia ohf

Móðurfélagið Isavia rekur Keflavíkurflugvöll. Flugvöllurinn er að fullu rekinn á viðskiptalegum forsendum, í hörðu samkeppnisumhverfi og er fjárhagslega sjálfbær. Þar liggja stærstu viðskiptatækifærin en um leið mesta rekstraráhættan.

Kjarnasvið Keflavíkurflugvallar eru tvö. Viðskipti og þróun sinnir flugfélögum og leiðarþróun, viðskipta- og markaðsmálum, mannvirkjum og innviðum og flugvallaþróun og uppbyggingu. Þjónusta og rekstur sinnir flugvernd, þjónustu og samhæfingu, flugvallarþjónustu, rekstri flugturns og öryggisstjórnun.

Stoðsvið félagsins eru einnig tvö, en þeim var fækkað úr þremur á síðasta ári þegar fjármálasvið og mannauður og stefnumótun voru sameinuð. Fjármála- og mannauðssvið sinnir reikningshaldi og uppgjörum, lögfræðiþjónustu, innkaupum og hagdeildarþjónustu ásamt mannauðsmálum og fræðslu. Stafræn þróun og upplýsingatækni sinnir stafrænni þróun, kerfisrekstri og notendaþjónustu. Stjórnarhættir, stefnumótun og sjálfbærni, almannatengsl og skipulagsdeild Keflavíkurflugvallar eru á skrifstofu forstjóra. Stoðsviðin eru hluti af rekstri Keflavíkurflugvallar ásamt skrifstofu forstjóra.

Rík áhersla er lögð á það að öll svið móðurfélagsins auk skrifstofu forstjóra taki að sér verkefni fyrir alla samstæðu Isavia. Forstjóri Isavia ohf. er Sveinbjörn Indriðason.

Isavia innanlandsflugvellir

Isavia Innanlandsflugvellir ehf. sér um rekstur íslenskra áætlunarflugvalla annarra en Keflavíkurflugvallar auk minni flugvalla og lendingarstaða. Reksturinn grundvallast á þjónustusamningi félagsins við samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytið sem ákvarðar þjónustustig flugvallanna, rekstur og viðhald, enda er um að ræða hluta af almenningssamgöngukerfi sem er í eigu ríkisins.

Félagið rekur alþjóðaflugvellina Reykjavíkurflugvöll, Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll. Auk þeirra eru níu lendingarstaðir fyrir reglubundið áætlunarflug innanlands. Félagið hefur einnig umsjón með 30 öðrum lendingarstöðum um land allt. Félagið sinnir fjölbreyttum verkefnum eins og almennri flugvallarþjónustu, flugumferðarþjónustu, flugvernd, umsjón með verklegum framkvæmdum auk öryggis- og gæðamála. Hjá fyrirtækinu vinnur samhentur hópur sem hefur það að markmiði að halda Íslandi á lofti og vera hluti af góðu ferðalagi viðskiptavina.

Framkvæmdastjóri
Isavia innanlandsflugvellir

Sigrún Björk Jakobsdóttir, fædd 1966, hótelrekstrarfræðingur. Framkvæmdastjóri frá 2018.

Dagur á Reykjavíkurflugvelli

isavia ans

Dótturfélagið, Isavia ANS, veitir flugleiðsöguþjónustu í innanlandsflugi og alþjóðaflugi í efra loftrými yfir Norður-Atlantshafi. Starfsemin grundvallast á milliríkjasamningi við 25 ríki um þjónustu og fjármögnun sem byggir á endurheimtukerfi kostnaðar (e. full cost recovery system). Isavia ANS er með starfsleyfi til þess að sjá um flugleiðsögu og flugumferðarþjónustu á Norður-Atlantshafi fyrir hönd Íslands, og á svæði sem er nefnt íslenska flugstjórnarsvæðið. Alþjóða flugmálastofnunin (ICAO) hefur falið sjö ríkjum að sjá um flugumferðarþjónustu yfir þessu svæði, en auk Íslands eru það Bretland, Kanada, Noregur, Bandaríkin, Danmörk og Portúgal. Rétt rúmlega fjórðungur flugumferðar á leið yfir Norður-Atlantshafið fer í gegnum íslenska flugstjórnarsvæðið. Það hefur nokkra sérstöðu meðal úthafssvæða vegna sveigjanleika, bæði hvað varðar flugleiðir og flughæðir. 

Dótturfyriræki Isavia ANS eru Tern Systems sem þróar hugbúnað fyrir flugleiðsöguþjónustu og Suluk sem heldur utan um rekstur flugleiðsöguþjónustu á Grænlandi.

Framkvæmdastjóri Isavia ANS

Kjartan Briem, fæddur 1970, rafmagnsverkfræðingur. Framkvæmdastjóri frá 2021.

Flugumferðarstjórn

fríhöfnin

Fríhöfnin ehf. rekur verslanir með tollfrjálsan varning í Flugstöð Leifs Eiríkssonar samkvæmt rekstrarleyfissamningi við móðurfélagið Isavia. Áhersla er á fjölbreytt og vandað úrval af innlendum og erlendum vörum með áherslu á dæmigerðar fríhafnarvörur, áfengi, tóbak, sælgæti og snyrtivörur. Fríhöfnin rekur fjórar verslanir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, tvær fyrir brottfararfarþega, eina fyrir farþega til landa utan Schengen svæðis og eina fyrir komufarþega.

Stefna Fríhafnarinnar er að bjóða vöruúrval og þjónustu í samræmi við þarfir ólíkra viðskiptavinahópa og um leið að skapa eftirsóknarverðan vinnustað sem skilar arðsömum rekstri til eiganda. Fríhöfnin er á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki frá árinu 2010 – 2020 og er jafnlaunavottað fyrirtæki frá BSI frá árinu 2019.

Framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar

Þorgerður Þráinsdóttir, fædd 1975, Cand.Psych í sálfræði. Framkvæmdastjóri frá 2014.


Fyrir utan ofangreind dótturfélög á Isavia ohf. félagið Domavia en því félagi var slitið í byrjun árs 2021. Aðalskrifstofur Isavia ohf. eru í Dalshrauni 3, Hafnarfirði, en þær voru fluttar frá Reykjavíkurflugvelli í lok árs 2020.

STEFNA ISAVIA

Isavia, sem opinbert hlutafélag, starfar eftir lögum um starfsemina og eigandastefnu ríkisins. Stefna félagsins er mótuð af stjórn og framkvæmdastjórn fyrirtækisins innan þess ramma. Stjórnendum og starfsfólki er ætlað að vinna eftir stefnu fyrirtækisins og ber framkvæmdastjórn félagsins ábyrgð á framfylgd hennar. Helstu áherslur í stefnu félagsins eru settar fram í stefnupíramída félagsins.

Í ljósi breytinga á rekstrarfyrirkomulagi Isavia með uppskiptingu þess í móður- og dótturfélög og breytingu á skipuriti félagsins hefur stjórn þess tekið ákvörðun um að endurskoða stefnu þess.

Stefnupýramídi Isavia

Framkvæmdastjórn isavia ohf.

Framkvæmdastjórar kjarnasviða og stoðsviða Isavia, ásamt forstjóra og aðstoðarforstjóra skipa framkvæmdastjórn félagsins. Hjá framkvæmdastjórn eru til umræðu og upplýsinga málefni sem eru stefnumótandi fyrir starfsemi félagsins.

Gildandi stefna um samfélagsábyrgð var sett af stjórn félagsins árið 2017 og voru siðareglur félagsins uppfærðar á sama tíma. Stjórn fylgist með innleiðingu málaflokksins, en forstjóri og framkvæmdastjórn félagsins fer með daglega eftirfylgni.

FORSTJÓRI iSAVIA

Sveinbjörn Indriðason, fæddur 1972, hagfræðingur, Sveinbjörn var framkvæmdastjóri fjármálasviðs Isavia frá 2013 þar til í júní 2019 að hann var ráðinn forstjóri Isavia.

aÐSTOÐARFORSTJÓRI

Aðstoðarforstjóri stýrir skrifstofu forstjóra sem annast úrvinnslu sameiginlegra málefna fyrirtækisins og er stjórn til aðstoðar við að tryggja vandaða stjórnarhætti. Elín Árnadóttir fædd 1971, viðskiptafræðingur.  Aðstoðarforstjóri Isavia frá 2013.

Þjónusta og rekstur

Þjónusta og rekstur annast öryggisstjórnun, flugvernd, þjónustu við farþega, flugvallarþjónustu og sér um rekstur flugturnsins á Keflavíkurflugvelli. Framkvæmdastjóri er Anna Björk Bjarnadóttir, fædd 1967, íþróttafræðingur. Framkvæmdastjóri frá 2020.

viðskipti og þróun

Viðskipti og þróun annast samskipti við flugfélög og leiðarþróun, viðskipta og markaðsmál, rekstur og uppbyggingu innviða og mannvirkja ásamt flugvallarþróun og uppbyggingu Keflavíkurflugvallar. Framkvæmdastjóri er Guðmundur Daði Rúnarsson, fæddur 1979, rekstrarverkfræðingur. Framkvæmdastjóri frá 2016.

Fjármál og mannauður

Fjármála og mannauður hefur með höndum reikningshald, fjárstýringu, áhættustýringu, hagdeild, fjármögnun, lögfræðileg málefni, innkaup, mannauðsmál, kjaramál og fræðslu fyrir félagið. Framkvæmdastjóri er Ingibjörg Arnarsdóttir, fædd 1971, viðskiptafræðingur. Framkvæmdastjóri frá 2020.

stafræn þróun og upplýsingatækni

Stafræn þróun og upplýsingatækni hefur með höndum upplýsingatæknirekstur félagsins og leiðir stafræna þróun fyrir félagið. Framkvæmdastjóri er Ragnheiður Hauksdóttir, fædd 1977,  viðskiptafræðingur. Framkvæmdastjóri hjá Isavia frá 2020.