Hoppa yfir valmynd

Isavia í samfélaginu

SAMFÉLAGSÞÁTTTAKA

Isavia samstæðan hefur með höndum rekstur og viðhald á innviðum sem er grunnur að flugsamgöngum landsins, tengingum við umheiminn og flugi á milli þriggja heimsálfa á stóru svæði. Flugvellir á Íslandi eru mikilvæg samgöngumannvirki. Af þeim er Keflavíkurflugvöllur stærsta gáttin inn í landið og sérstaklega mikilvægur fyrir flutning á farþegum og vörum til og frá landinu í flugi. Starfsemi Isavia skiptir þar af leiðandi miklu máli fyrir þjóðarhag og starfsfólk félagsins leggur sig fram um að haga störfum sínum á öruggan og skilvirkan hátt í sátt við samfélagið.

Isavia er með stefnu í samfélagsábyrgð og vinnur að og tekur þátt í verkefnum sem tengjast henni með margvíslegum hætti. Þessi verkefni eiga það sameiginlegt að stuðla að því að félagið sé hluti af góðu ferðalagi farþega, viðskiptavina og annarra hagaðila.

Neyðarstjórn Isavia

Neyðarstjórn Isavia var formlega sett á laggirnar árið 2015 með því að formfesta samvinnu og ákveðið vinnulag innan félagsins sem mótaðist í eldgosinu í Eyjafjallajökli árið 2010. Farin var sú leið að skipa hóp starfsmanna með fjölbreytta reynslu og góðar tengingar innan sem utan félagsins til að mynda leiðandi kjarna. Starfsemi hópsins hefur síðan mótast og þróast á grundvelli þeirrar reynslu sem orðið hefur til við þær mismunandi áskoranir sem neyðarstjórnin hefur tekist á við. Reynslan sýnir að þetta skipulag gerir félagið hæfara til að takast á við fyrirséða og ófyrirséða atburði.

Hlutverk neyðarstjórnar Isavia er að:

  • Tryggja samræmd og samhæfð viðbrögð Isavia á hættu- og neyðartímum.
  • Tryggja heildstæð viðbrögð við atburðum sem ógna rekstraröryggi félagsins og milda áhrif þeirra.
  • Styðja við stjórnendur og starfsmenn.
  • Tryggja aftur fulla þjónustu eins fljótt og auðið er.

Til þess að ná þeim markmiðum nýtir neyðarstjórn sveigjanlegt og öflugt verklag sem tekur á atburðum á skipulegan hátt.

Heimsfaraldur Covid-19

Um áramótin 2019-2020 var neyðarstjórn Isavia virkur vettvangur vegna óveðurs sem gengið hafði yfir landið. Hópurinn var því búinn að taka til starfa nokkrum sinnum á því tímabili þegar fregnir bárust af farsótt sem var farin að breiðast út í Kína. Farið var yfir viðbragðsáætlanir félagsins og á þeim tímapunkti hófst í raun vinna neyðarstjórnar vegna faraldursins. Fljótlega var ljóst að vinna síðustu mánaða gagnaðist starfi hópsins. Þá væri mikilvægt að neyðarstjórn fundi reglulega til að fara almennt yfir möguleg vandamál og ógnir og áhrif þeirra á flug og flugvelli til að tryggja enn frekar öflugan viðbúnað Isavia. Þann 24. janúar 2020 fór neyðarstjórn Isavia á fyrsta fund með Almannavörnum og Sóttvarnalækni um málið.

Sóttvarnaáætlun fyrir alþjóðaflugvelli var gefin út árið 2019 í samvinnu við embætti Sóttvarnalæknis og Almannavarnir auk þess sem áætlun var til um órofinn rekstur í heimsfaraldri. Áætlanir þessar voru nýttar sem góður grunnur fyrir viðbrögð við Covid-19, en lagaðar að þeim aðstæðum sem höfðu skapast. Ferlið hefur frá upphafi verið sveigjanlegt og lagast að mismunandi sviðsmyndum.

Framkvæmd skipulagsbreytinga innan Isavia fyrir árið 2020 hafði einnig áhrif á vinnuna, en neyðarstjórn vinnur þvert á einingar Isavia auk dótturfélaga. Frá upphafi var því gætt að samræmi á öllum sviðum starfseminnar, hjá móðurfélagi, flugleiðsögu og innanlands- og alþjóðaflugvöllum.

Neyðarstjórn tryggði að boðleiðir væru opnar og gætt væri að upplýsingagjöf til hagsmunaaðila. Komið var á tengingum á reglulegum samráðsfundum. Stuttar boðleiðir innan Isavia og gagnvart ytri aðilum hafa verið mikilvægar í ferlinu. Náið samstarf neyðarstjórnar við Almannavarnir og Sóttvarnalækni auk öflugs samstarfs við hagsmunaaðila flugvalla, hefur verið lykilatriði í góðu samstarfi og tryggt árangur í þessu viðamikla verkefni.

Innan félagsins var reglulegt upplýsingastreymi til starfsfólk. Starfsmannafundir voru haldnir og upplýsingasíða virkjuð. Starfsfólk hafði gott aðgengi að neyðarstjórn. Hægt var að senda fyrirspurnir og fá ráðleggingar strax frá upphafi. Fræðsludeild Isavia gaf út fræðsluefni um Covid-19 og smitvarnir sem starfsfólk Isavia og annarra hagsmunaaðila á flugvellinum gátu nýtt sér. Stjórnendur þurftu að finna nýjar leiðir til að ná sem best til starfshópa þegar starfsfólk fór að vinna heima og starfsstöðvum var skipt upp í mismunandi sóttvarnarhólf. Starfsmenn og stjórnendur eiga hrós skilið fyrir sveigjanleika í sínum störfum þegar breytingar urðu á sviðsmyndum og sóttvarnareglum.

Allar aðgerðir Neyðarstjórnar Isavia eru rýndar. Þegar um langtímaaðgerð er að ræða er mikilvægt að framkvæma rýni þó aðgerð sé ekki lokið. Í byrjun júní var tekið saman það sem vel hafi gengið og það sem betur mætti fara í fyrstu bylgju faraldursins. Allir starfsmenn félagsins höfðu tækifæri til að skila inn ábendingum og voru niðurstöðurnar nýttar til að laga ferla og sem innlegg í skipulagningu fyrir næsta bylgju, sem hófst um mánaðamótin júlí-ágúst.

Allir hafa lagst á eitt í baráttunni við Covid-19. Gætt hefur verið að sóttvörnum. Niðurstaðan er sú að enginn starfsmaður í starfsemi flugvalla eða tengdra hagsmunaaðila hefur smitast við störf sín svo vitað sé.

Fólkið okkar

- framsýni er nauðsynleg

Elva Tryggvadóttir og Friðfinnur Freyr Guðmundsson

Elva Tryggvadóttir & Friðfinnur Guðmundsson

Verkefnastjórar neyðarviðbúnaðar

Mikið hefur mætt á Neyðarstjórn Isavia (NIS) á síðasta ári vegna Covid-19 og jarðhræringa, hvernig hefur það starf gengið?
Starfið hefur gengið mjög vel, NIS er teymi sem vinnur þverfaglega um allt fyrirtækið og er virkjað þegar atburðir sem geta haft áhrif á rekstur eru yfirvofandi eða hafa gerst. Sökum 

óvenjulegra aðstæðna þá er teymið búið að vera virkt meira og minna frá desember 2019 þegar óveðrið varð.

Hverjar hafa verið helstu áskoranir fyrir fyrirtækið á þessum tíma?
Helstu áskoranir á tímum jarðhræringa og Covid 19 er að halda samgönguæðum eins starfshæfum og hægt er. Flugvellir eru mikilvægir innviðir enda búum við á eyju og erum því háð því að allar leiðir haldist opnar. Slíkar áætlanir og viðbrögð þarf að vinna vel með öllu starfsfólki auk þess að vera í góðu samstarfi við aðra viðbragðsaðila, yfirvöld og rekstrar- og þjónustuaðila flugvallanna.

Þarf að skerpa á einhverju? Hvaða lærdóm hafið þið dregið og hver hafa viðbrögð starfsfólks verið?
Það má alltaf skerpa á öllu og mikilvægt að fara yfir alla ferla reglulega. Það sem er í dag þarf 

ekki að vera nákvæmlega eins á morgun svo framsýni er nauðsynleg. Neyðarviðbúnaður byggir á því að sjá fyrir og vera komin með viðbragðsáætlanir og verkferla fyrir því sem getur gerst og sífellt nýjar sviðsmyndir verða til. Plönin eru síðan oftast æfð en segja má að síðasta rúmt ár hefur í raun verið ein samfelld æfing með nýjum áskorunum inn á milli. Þó þessi verkefnalota sé búin að vera löng og ströng þá hefur hún gengið vel með samstilltu átaki starfsmanna Isavia og dótturfélaga. Starfsfólk hefur svo sannarlega sýnt hvað í því býr, verið einstaklega sveigjanlegt og hvergi látið á sér bilbug finna þrátt fyrir krefjandi aðstæður, slíkt er ómetanlegt.

Isavia gegnir mikilvægu hlutverki í stjórnkerfi almannavarna og er í lykilhlutverki vegna viðbragðsáætlana um leit og björgun á íslenska flugstjórnarsvæðinu og í þróun hópslysaviðbúnaðar á landi. Viðbragðsæfingar á flugvöllum er mikilsverður þáttur í viðbúnaði Isavia og ekki síður almannavörnum á Íslandi og þróun þeirra. Að jafnaði eru haldnar fjórar flugslysaæfingar á ári víða um land. Þátttaka er undantekningalaust góð og taka að jafnaði um 1.000 manns þátt í þessum æfingum frá öllum viðbragðsaðilum auk almennings. Frá því félagið hóf að halda reglubundnar æfingar á flugvöllum hafa viðbragðsáætlanir almannavarna vegna hópslysa þróast til samræmis við verklag sem notast er við á æfingum á flugvöllum. Æfingar félagsins hafa þannig orðið samráðsvettvangur viðbragðsaðila til þróunar á þekkingu og verklagi sem fest hefur verið í lög og reglugerðir um almannavarnir.

Árið 2020 stóð til að halda fjórar flugslysaæfingar á flugvöllum landsins, þar á meðal umfangsmikla æfingu á Keflavíkurflugvelli. Vegna heimsfaraldurs Covid-19 var öllum æfingum frestað um ár. Samkomutakmarkanir höfðu þar mikið að segja enda mikilvægt að tryggja öryggi allra viðbragðsaðila en undirbúningsvinna vegna æfinganna var unnin á árinu.

Frá árinu 2012 hefur verið til staðar styrktarsjóður með það markmið að efla hópslysabúnaði um land allt í samvinnu við samstarfsaðila. Hægt er að grípa til búnaðarins þegar stærri slys verða, til að bregðast við slysum utan alfaraleiðar eða þegar skjóta það skjólshúsi yfir fólk í fjöldahjálparstöðvum. Samstarf Isavia, Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Rauða krossins hefur verið farsælt og eru sjálfboðaliðar félaganna mikilvægur þáttur í viðbragðskerfi flugvalla um land allt.

GLOBAL COMPACT SÁTTMÁLI SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA

Isavia er aðili að alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna UN Global Compact. Með þátttöku skuldbindur félagið sig til þess að stefna og starfshættir séu í samræmi við tíu meginreglur Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi, vinnumál, umhverfismál og aðgerðir gegn spillingu. Isavia skuldbindur sig jafnframt til að taka þátt í verkefnum sem styðja við þróunarmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og birta opinberlega upplýsingar um samfélagsábyrgð félagsins í samræmi við viðmið UN Global Compact og GRI.

Jafnréttissáttmáli UN women

Isavia hefur undirritað jafnréttissáttmála UN Women sem er alþjóðlegt átak UN Women og UN Global Compact. Með undirskriftinni skuldbindur fyrirtækið sig til að vinna að jafnréttismálum innan fyrirtækisins, sýna samfélagslega ábyrgð og hafa frumkvæði í málaflokknum. Í sáttmálanum eru sjö viðmið sem fyrirtæki og stofnanir hafa að leiðarljósi til að efla jafnrétti og auka þátt kvenna í atvinnulífinu. Undirritun sáttmálans er eðlilegt framhald af annarri vinnu sem fyrirtækið er að vinna undir merkjum samfélagslegrar ábyrgðar og fellur að markmiði félagsins um jafnrétti kynjanna.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Isavia hefur sett sér markmið tengt stefnumótun félagsins við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Sérstök áhersla er á heimsmarkmiðin jafnrétti kynjanna (númer 5 ), sjálfbær orka (númer 7), góð atvinna og hagvöxtur (númer 8), nýsköpun og uppbygging (númer 9), sjálfbærar borgir og samfélög (númer 11), ábyrg neysla og framleiðsla (númer 12), aðgerðir í loftslagsmálum (númer 13) og samvinnu um markmiðin (númer 17).


gri - Global Reporting Initiative

Árs- og samfélagsskýrsla Isavia er nú gefin út í fimmta sinn. Skýrslan er gefin út samkvæmt GRI Standards: Core viðmiðum ásamt GRI-G4 sérákvæðum um flugvelli. Sérákvæðin taka sérstaklega á þeim áskorunum og tækifærum sem flugvellir standa frammi fyrir þegar kemur að sjálfbærni. Markmið með útgáfu skýrslunnar er gagnsæi, að gefa dýpri mynd af starfsemi félagsins og áhrifum þess á samfélagið. Upplýsingar í skýrslunni miðast við árið 2020.

Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð

Isavia er virkur aðili að Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð, sem hefur það markmið að efla samfélagsábyrgð íslenskra fyrirtækja, auka vitund í samfélaginu og hvetja til rannsókna á þessu sviði.

Ábyrg ferðaþjónusta

Ábyrg ferðaþjónusta er hvatningarverkefni um að íslensk ferðaþjónustufyrirtæki sammælist um nokkrar skýrar og einfaldar aðgerðir um ábyrga ferðaþjónustu. Tilgangur verkefnisins er að stuðla að því að Ísland verði ákjósanlegur áfangastaður ferðamanna um ókomna tíð sem styður við sjálfbærni fyrir komandi kynslóðir þjóðarinnar. Isavia hefur verið þáttakandi í verkefninu frá upphafi.

íslenski ferðaklasinn

Isavia er samstarfsaðili Íslenska ferðaklasans. Hlutverk klasans er að efla samkeppnishæfni og auka verðmætasköpun íslenskrar ferðaþjónustu. Klasasamstarfið er hrein viðbót við þá starfsemi sem unnin er á sviði ferðamála, s.s. eins og hjá Samtökum ferðaþjónustunnar, Ferðamálastofu og Íslandsstofu, svo dæmi séu nefnd. Klasinn beitir sér fyrir auknu samstarfi við þessa aðila sem og aðra um land allt.