Neyðarstjórn Isavia
Neyðarstjórn Isavia var formlega sett á laggirnar árið 2015 með því að formfesta samvinnu og ákveðið vinnulag innan félagsins sem mótaðist í eldgosinu í Eyjafjallajökli árið 2010. Farin var sú leið að skipa hóp starfsmanna með fjölbreytta reynslu og góðar tengingar innan sem utan félagsins til að mynda leiðandi kjarna. Starfsemi hópsins hefur síðan mótast og þróast á grundvelli þeirrar reynslu sem orðið hefur til við þær mismunandi áskoranir sem neyðarstjórnin hefur tekist á við. Reynslan sýnir að þetta skipulag gerir félagið hæfara til að takast á við fyrirséða og ófyrirséða atburði.
Hlutverk neyðarstjórnar Isavia er að:
- Tryggja samræmd og samhæfð viðbrögð Isavia á hættu- og neyðartímum.
- Tryggja heildstæð viðbrögð við atburðum sem ógna rekstraröryggi félagsins og milda áhrif þeirra.
- Styðja við stjórnendur og starfsmenn.
- Tryggja aftur fulla þjónustu eins fljótt og auðið er.
Til þess að ná þeim markmiðum nýtir neyðarstjórn sveigjanlegt og öflugt verklag sem tekur á atburðum á skipulegan hátt.
Heimsfaraldur Covid-19
Um áramótin 2019-2020 var neyðarstjórn Isavia virkur vettvangur vegna óveðurs sem gengið hafði yfir landið. Hópurinn var því búinn að taka til starfa nokkrum sinnum á því tímabili þegar fregnir bárust af farsótt sem var farin að breiðast út í Kína. Farið var yfir viðbragðsáætlanir félagsins og á þeim tímapunkti hófst í raun vinna neyðarstjórnar vegna faraldursins. Fljótlega var ljóst að vinna síðustu mánaða gagnaðist starfi hópsins. Þá væri mikilvægt að neyðarstjórn fundi reglulega til að fara almennt yfir möguleg vandamál og ógnir og áhrif þeirra á flug og flugvelli til að tryggja enn frekar öflugan viðbúnað Isavia. Þann 24. janúar 2020 fór neyðarstjórn Isavia á fyrsta fund með Almannavörnum og Sóttvarnalækni um málið.
Sóttvarnaáætlun fyrir alþjóðaflugvelli var gefin út árið 2019 í samvinnu við embætti Sóttvarnalæknis og Almannavarnir auk þess sem áætlun var til um órofinn rekstur í heimsfaraldri. Áætlanir þessar voru nýttar sem góður grunnur fyrir viðbrögð við Covid-19, en lagaðar að þeim aðstæðum sem höfðu skapast. Ferlið hefur frá upphafi verið sveigjanlegt og lagast að mismunandi sviðsmyndum.
Framkvæmd skipulagsbreytinga innan Isavia fyrir árið 2020 hafði einnig áhrif á vinnuna, en neyðarstjórn vinnur þvert á einingar Isavia auk dótturfélaga. Frá upphafi var því gætt að samræmi á öllum sviðum starfseminnar, hjá móðurfélagi, flugleiðsögu og innanlands- og alþjóðaflugvöllum.
Neyðarstjórn tryggði að boðleiðir væru opnar og gætt væri að upplýsingagjöf til hagsmunaaðila. Komið var á tengingum á reglulegum samráðsfundum. Stuttar boðleiðir innan Isavia og gagnvart ytri aðilum hafa verið mikilvægar í ferlinu. Náið samstarf neyðarstjórnar við Almannavarnir og Sóttvarnalækni auk öflugs samstarfs við hagsmunaaðila flugvalla, hefur verið lykilatriði í góðu samstarfi og tryggt árangur í þessu viðamikla verkefni.
Innan félagsins var reglulegt upplýsingastreymi til starfsfólk. Starfsmannafundir voru haldnir og upplýsingasíða virkjuð. Starfsfólk hafði gott aðgengi að neyðarstjórn. Hægt var að senda fyrirspurnir og fá ráðleggingar strax frá upphafi. Fræðsludeild Isavia gaf út fræðsluefni um Covid-19 og smitvarnir sem starfsfólk Isavia og annarra hagsmunaaðila á flugvellinum gátu nýtt sér. Stjórnendur þurftu að finna nýjar leiðir til að ná sem best til starfshópa þegar starfsfólk fór að vinna heima og starfsstöðvum var skipt upp í mismunandi sóttvarnarhólf. Starfsmenn og stjórnendur eiga hrós skilið fyrir sveigjanleika í sínum störfum þegar breytingar urðu á sviðsmyndum og sóttvarnareglum.
Allar aðgerðir Neyðarstjórnar Isavia eru rýndar. Þegar um langtímaaðgerð er að ræða er mikilvægt að framkvæma rýni þó aðgerð sé ekki lokið. Í byrjun júní var tekið saman það sem vel hafi gengið og það sem betur mætti fara í fyrstu bylgju faraldursins. Allir starfsmenn félagsins höfðu tækifæri til að skila inn ábendingum og voru niðurstöðurnar nýttar til að laga ferla og sem innlegg í skipulagningu fyrir næsta bylgju, sem hófst um mánaðamótin júlí-ágúst.
Allir hafa lagst á eitt í baráttunni við Covid-19. Gætt hefur verið að sóttvörnum. Niðurstaðan er sú að enginn starfsmaður í starfsemi flugvalla eða tengdra hagsmunaaðila hefur smitast við störf sín svo vitað sé.