Keflavíkurflugvöllur
Nýlegar breytingar félagsins hafa fært þróun Keflavíkurflugvallar nær þörfum viðskipta-vinarins annars vegar og hins vegar þjónustu nær daglegum rekstri. Keflavíkurflugvöllur á í harðri samkeppni við aðra flugvelli utan Íslands. Skilningur á þörfum viðskiptavina og veiting framúrskarandi þjónustu og upplifunar skiptir miklu máli til að tryggja samkeppnishæfni og sérstöðu Keflavíkurflugvallar.
Á liðnum árum hafa verið miklar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli sem hafa verið til þess fallnar að bæta þjónustu, gæði eða öryggi á flugvellinum. Til dæmis hefur verið unnið að stækkun upp á um 22 þúsund fermetra á síðustu fimm árum. Auk þess hefur verið varið miklum tíma og fjármunum til að bæta innri afkastagetu og gæði á flugvellinum. Má þar nefna uppfærslur á vopnaleit til að stytta biðtíma ásamt því að bætt hefur verið við sjálfvirkum hliðum og búnaði til að auðvelda för farþega í gegnum flugvöllinn.
Áhersla er á góða þjónustu við farþega og viðskiptavina í gegnum allt þeirra ferli í gegnum flugstöðina og flugvöllinn. Reglulega eru haldin námskeið fyrir starfsfólk Isavia, rekstraraðila og samstarfsaðila þar sem farið er yfir það hvernig best má mæta þörfum farþega sem eru að koma í gegnum flugvöllinn.
Unnið er að bættri upplifun farþega í gegnum þær öryggisráðstafanir sem eru nauðsynlegar á flugvöllum í dag. Tæknilegar lausnir hafa verið innleiddar til að gera ferðalagið í gegnum flugstöðina sem skilvirkast og hraðast og án þess að ganga of nálægt farþeganum. Áhersla hefur verið á sjálfvirknivæðingu og skilvirkni almennt. Tengt því hefur verið bætt við mikið af sjálfvirkum innritunarstöðvum, sjálfvirka afhendingu á farangri, sjálfvirkum aðgangi inn í vopnaleit, sjálfvirkum tækjum í vopnaleitinni til að flytja farangur, sjálfvirkum hliðum við byrðingu um borð í loftför og jafnframt sjálfvirkum landamærum þegar farþegar eru að fara utan Schengen-svæðisins.
Á árinu var lokið við framkvæmdir á svokölluðum skjólstöðvum (apron boarding stations) á hluta af fjarstæðum. Með þeim munu farþegar, sem koma með rútu á þau fjarstæði, ganga beint úr rútu inn í skjólstöðina og svo um borð í flugvélina. Með þessum framkvæmdum mun þjónusta við farþega aukast.