Vinnuvernd hjá Isavia
Hjá Isavia er í gildi vinnuverndarstefna sem tekur til allrar starfsemi félagsins og byggir á gildum og heildarstefnu Isavia. Með stefnunni skuldbindur félagið sig til að vera til fyrirmyndar í öryggis, heilsu og vinnuverndarmálum með því að stuðla að öruggu og heilsusamlegu vinnuumhverfi fyrir þá sem starfa á og heimsækja starfstöðvar félagsins. Með því er bæði reynt að koma í veg fyrir slys á fólki og einnig huga að aðbúnaði starfsfólks til að tryggja heilsusamlegt vinnuumhverfi. Forstjóri samþykkir stefnuna og framkvæmdastjórar sjá um að framfylgja stefnunni.
Stjórnkerfi vinnuverndar er hluti af gæðakerfi Isavia. Á árinu var fylgt eftir gildandi vottun ISO45001 fyrir hluta af starfsemi Keflavíkurflugvallar. Sú vinna hefur skilað sér í aukinni öryggisvitund í öllu fyrirtækinu. Vinnuvernd er höfð að leiðarljósi í starfsemi félagsins og unnið er að því greina hættur og grípa til mótvægisaðgerða. Markvisst er unnið að því að auka öryggisvitund í daglegu starfi hjá félaginu, til dæmis var uppfært fræðsluefni um vinnuvernd sent til allra starfsmanna í öryggisviku Isavia. Áhersla er lögð á að starfsmenn tilkynni slys , næstum því slys eða aðstæður sem geta orsakað slys, og að allir bera ábyrgð í öryggismálum fyrirtækisins.
Á árinu voru gerðar breytingar á skipulagi vinnuverndar og öryggismála og stjórnun og samræming þeirra færð undir eitt svið, þjónustu og rekstur. Þar með skapaðist tækifæri til að vinna markvissar með málaflokkinn fyrir allt fyrirtækið. Þá var einnig gefin út samræmd vinnuverndarhandbók í Áttavitanum, rekstrarhandbók Isavia. Á sviðinu starfar vinnuverndarfulltrúi sem ber ábyrgð á skráningu slysa, atvika og rýni þeirra. Sálfélagslegir þættir vinnuverndar eru þó enn undir stjórn fjármála- og mannauðssviðs Isavia.
Tilkynntum vinnuslysum fækkaði á síðasta ári úr 65 í 39 árið 2020, þar af fækkuðu alvarlegum slysum (fjarveruslysum) úr 19 í 4 árið 2020. Umfang tilkynninga bendir til að sú áhersla sem hefur verið lögð á að starfsfólk tilkynni slys og næstum því slys hafi skilað sér. Það leiðir af sér að unnt er að vinna að forvörnum og úrbótum með markvissum hætti.
Það verður áfram unnið markvisst að fækkun slysa á vinnustöðum Isavia. Fyrir árið 2021 verður unnið að samræmingu tilkynninga á slysum, einföldun skráninga og gera þær notendavænni. Það mun einfalda úrvinnslu og eftirfylgni í öryggisstjórnunarkerfi Isavia, Opscom.
Starfrækt er lögbundin öryggisnefnd vinnuverndar með aðilum þvert á fyrirtækið. Í henni eru bæði öryggisverðir sem eru skipaðir í nefndina af Isavia og öryggistrúnaðarmenn sem eru fulltrúar starfsfólks. Formaður öryggisnefndar er vinnuverndarfulltrúi Isavia og ber hann ábyrgð á að skipuleggja fundi hennar. Öryggisnefndin ber ábyrgð á að fara yfir stöðu frávika og úrbóta, rýna slys og tilkynningar sem og skýrslur vinnueftirlits. Öryggisnefndinni er ætlað að ýta undir öryggisvitund starfsfólks með þjálfun og fræðslu og tryggja að farið sé eftir lögum og reglugerðum í starfseminni. Nefndin taldi mikilvægt að nefndarfólk kæmu í auknum mæli að formlegu vinnuverndarstarfi félagsins, meðal annars vegna áhættumata.
Vinnuvernd / vinnutengd slys hjá starfsfólki Isavia GRI 403-9
2020 | 2019 | 2018 | 2017 | |
---|---|---|---|---|
Fjöldi skráðra vinnutengdra slysa | 39 | 60 | 57 | 66 |
Banaslys | 0 | x | x | x |
Örorkuslys | 0 | x | x | x |
Fjarveruslys | 4 | 19 | x | x |
Ummönnuarslys | 19 | 3 | x | x |
Fyrstuhjálparslys | 16 | 47 | x | x |
Hlutfall skráðra vinnutengdra slysa per 200.000 vinnustundur | 3,87 | 5,1 | 4,6 | 5,7 |