Hoppa yfir valmynd

Vinnuvernd og öryggi

Vinnuvernd og öryggi

Vinnuvernd hjá Isavia

Hjá Isavia er í gildi vinnuverndarstefna sem tekur til allrar starfsemi félagsins og byggir á gildum og heildarstefnu Isavia. Með stefnunni skuldbindur félagið sig til að vera til fyrirmyndar í öryggis, heilsu og vinnuverndarmálum með því að stuðla að öruggu og heilsusamlegu vinnuumhverfi fyrir þá sem starfa á og heimsækja starfstöðvar félagsins. Með því er bæði reynt að koma í veg fyrir slys á fólki og einnig huga að aðbúnaði starfsfólks til að tryggja heilsusamlegt vinnuumhverfi. Forstjóri samþykkir stefnuna og framkvæmdastjórar sjá um að framfylgja stefnunni.

Stjórnkerfi vinnuverndar er hluti af gæðakerfi Isavia. Á árinu var fylgt eftir gildandi vottun ISO45001 fyrir hluta af starfsemi Keflavíkurflugvallar. Sú vinna hefur skilað sér í aukinni öryggisvitund í öllu fyrirtækinu. Vinnuvernd er höfð að leiðarljósi í starfsemi félagsins og unnið er að því greina hættur og grípa til mótvægisaðgerða. Markvisst er unnið að því að auka öryggisvitund í daglegu starfi hjá félaginu, til dæmis var uppfært fræðsluefni um vinnuvernd sent til allra starfsmanna í öryggisviku Isavia. Áhersla er lögð á að starfsmenn tilkynni slys , næstum því slys eða aðstæður sem geta orsakað slys, og að allir bera ábyrgð í öryggismálum fyrirtækisins.

Á árinu voru gerðar breytingar á skipulagi vinnuverndar og öryggismála og stjórnun og samræming þeirra færð undir eitt svið, þjónustu og rekstur. Þar með skapaðist tækifæri til að vinna markvissar með málaflokkinn fyrir allt fyrirtækið. Þá var einnig gefin út samræmd vinnuverndarhandbók í Áttavitanum, rekstrarhandbók Isavia. Á sviðinu starfar vinnuverndarfulltrúi sem ber ábyrgð á skráningu slysa, atvika og rýni þeirra. Sálfélagslegir þættir vinnuverndar eru þó enn undir stjórn fjármála- og mannauðssviðs Isavia.

Tilkynntum vinnuslysum fækkaði á síðasta ári úr 65 í 39 árið 2020, þar af fækkuðu alvarlegum slysum (fjarveruslysum) úr 19 í 4 árið 2020. Umfang tilkynninga bendir til að sú áhersla sem hefur verið lögð á að starfsfólk tilkynni slys og næstum því slys hafi skilað sér. Það leiðir af sér að unnt er að vinna að forvörnum og úrbótum með markvissum hætti.

Það verður áfram unnið markvisst að fækkun slysa á vinnustöðum Isavia. Fyrir árið 2021 verður unnið að samræmingu tilkynninga á slysum, einföldun skráninga og gera þær notendavænni. Það mun einfalda úrvinnslu og eftirfylgni í öryggisstjórnunarkerfi Isavia, Opscom.

Starfrækt er lögbundin öryggisnefnd vinnuverndar með aðilum þvert á fyrirtækið. Í henni eru bæði öryggisverðir sem eru skipaðir í nefndina af Isavia og öryggistrúnaðarmenn sem eru fulltrúar starfsfólks. Formaður öryggisnefndar er vinnuverndarfulltrúi Isavia og ber hann ábyrgð á að skipuleggja fundi hennar. Öryggisnefndin ber ábyrgð á að fara yfir stöðu frávika og úrbóta, rýna slys og tilkynningar sem og skýrslur vinnueftirlits. Öryggisnefndinni er ætlað að ýta undir öryggisvitund starfsfólks með þjálfun og fræðslu og tryggja að farið sé eftir lögum og reglugerðum í starfseminni. Nefndin taldi mikilvægt að nefndarfólk kæmu í auknum mæli að formlegu vinnuverndarstarfi félagsins, meðal annars vegna áhættumata.

Vinnuvernd / vinnutengd slys hjá starfsfólki Isavia GRI 403-9


2020201920182017
Fjöldi skráðra vinnutengdra slysa39605766
Banaslys0xxx
Örorkuslys0xxx
Fjarveruslys419xx
Ummönnuarslys193xx
Fyrstuhjálparslys1647xx
Hlutfall skráðra vinnutengdra slysa per 200.000 vinnustundur3,875,14,65,7

Fjöldi skráðra vinnutengdra slysa GRI 403-9

fjöldi
Högg 16
Fall í hálku 8
Fall á jafnsléttu 7
Klemmdist 3
Skarpur hlutur 2
Yfirálag 1
Aðskotahlutur 1
Fall af hærri stað 1

Markvisst er unnið að því að auka öryggisvitund í daglegu starfi hjá félaginu. Áhersla er lögð á að starfsmenn tilkynni slys , næstum því slys eða aðstæður sem geta orsakað slys, og að allir bera ábyrgð í öryggismálum fyrirtækisins

Isavia er með vöktunaráætlun heilsufarsþátta á stöðum sem taldir hafa verið sérstaklega viðkvæmir eftir áhættumat, og þeir skoðaðir út frá hávaða, loftgæðum og titring. Sem liður í að stuðla að öruggu- og heilsusamlegu vinnuumhverfi var starfsfólki boðið upp á fræðslu um heilsu- og vellíðan á vinnustað og um Covid-19.

Skráningar á slysum og næstum því slysum fer fram í gegnum innri vef Isavia og fyrir utanaðkomandi aðila á heimasíðu Keflavíkurflugvallar. Vinnuverndarfulltrúi sér um að halda utan um þessi atvik og tilkynna þeim sem bera ábyrgð á úrbótum. Öll atvik eru orsakagreind. Með því er reynt að komast að rót vandans svo hægt sé að bregðast við og koma í veg fyrir að atvik endurtaki sig. Starfsfólki Isavia er skylt að tilkynna slys og við rannsókn er viðhöfð málsmeðferð sem kallast sanngirnismenning (just culture).

Isavia notar úttektargrunn S5 til að halda utan um öll frávik og úrbótatækifæri tengdum vinnuvernd. Reglulega eru framkvæmdar innri úttektir á vinnuvernd og árlega fer fram viðhaldsúttekt frá utanaðkomandi aðila vegna ISO45001 vottunarinnar.

Fólkið okkar

- þekkja allar áhættur

Helga Eyjólfsdóttir

Helga R. Eyjólfsdóttir

Forstöðumaður öryggisstjórnunar

Hver er staðan í öryggismálum hjá Isavia?
Öryggi er eitt af gildum okkar og því hluti af daglegum rekstri. Við leggjum mikið upp úr að þekkja allar áhættur, grípa til forvirkra aðgerða og hafa stjórn á þeim , t.d. með skýru verklagi og þjálfun. Einnig leggjum við áherslu á að auka 

öryggisvitund meðal starfsmanna. Síðustu ár hefur árlega verið haldin öryggisvika Isavia þar sem rekstraraðilar og Isavia vinna saman að ýmsum viðburðum og bjóða upp á kynningar á starfsstöðvum.

Hvar þarf helst að gera úrbætur í þessum efnum hjá Isavia?
Við leggjum mikla áhersla á fræðslu um mikilvægi þess að öll atvik séu tilkynnt og rannsökuð og þá bæði slys og óhöpp og næstum því slys og óhöpp. Það er forsenda þess að hægt sé að vinna heildstætt að öryggismálum með markvissum hætti. Mikið hefur áunnist, tilkynningum um atvik hefur fjölgað en betur má ef duga skal og því er unnið að samræmingu öryggistilkynninga og úrvinnslu þeirra.

Þannig verður öll umbótavinna skilvirkari og nær til allra eininga innan Isavia-samstæðunnar.

Hvað hefur gengið vel síðasta árið?
Þegar rekstur dregst saman er alltaf hætta á að árvekni starfsmanna minnki. Á árinu var sérstaklega hugað að því að viðhalda öllum öryggisferlum, eftirliti og efla umræðu um öryggismál t.d. með því að halda öryggisvikuna sem lið í að auka öryggisvitund. Í ár tók framkvæmdin mið af breyttum aðstæðum og var með öðrum hætti en áður og voru starfsmenn einstaklega hugmyndaríkir við að láta það verða að veruleika og taka þátt.

Öryggisvika

Árleg öryggisvika Isavia var haldin í október 2020. Í ljósi aðstæðna var fyrirkomulagið með breyttu sniði. Boðið var upp á fræðslu og fyrirlestra rafrænt fyrir allt starfsfólk. Horft var til hugtaksins öryggi í víðu samhengi út frá vinnuvernd, upplýsingaöryggi, mikilvægi vellíðanar starfsfólks fyrir öryggisvitund, samskipti og öryggi í starfseminni. Einnig var lögð áhersla á mikilvægi öryggistilkynninga, þátttöku alls starfsfólks og voru stjórnendur sérstaklega hvattir til að ræða öryggismál í upphafi allra funda. Mikilvægt er fyrir Isavia að allir sinni öryggismálum vel því atvik sem geta komið upp geta haft víðtæk áhrif á félagið.

Persónuvernd

Isavia leggur áherslu á verndun og ábyrga meðhöndlun upplýsinga þ.m.t persónuupplýsinga óháð formi. Isavia fylgir viðmiðum öryggisstaðalsins ÍST EN ISO/IEC 27001:2017 og stuðlar að öryggi upplýsingaverðmæta með formföstu verklagi í upplýsingaöryggishandbók og gæðahandbók, sem styður við samfelldan rekstur og lágmarkar rekstraráhættu. Verndun og ábyrg meðhöndlun persónuupplýsinga nær einnig til allra upplýsingaverðmæta þriðja aðila sem Isavia hefur í vörslu og/eða félagið hefur falið öðrum að sjá um í sínu nafni. Stefnan um upplýsingaöryggi var sett árið 2018 og er samþykkt af forstjóra.

Í allri starfsemi Isavia þarf að hafa í huga við dagleg störf hvaða persónuupplýsingar verið er að meðhöndla og hvernig þær skuli varðveittar. Isavia og dótturfélög tileinka sér góða starfshætti og hafa innleitt persónuvernd í starfsemi sína svo hún sé hluti af daglegu starfi sem m.a. felur í sér að halda vinnsluskrá, gera vinnslusamninga, uppfæra og/eða skjalfesta verkferli um meðhöndlun persónuupplýsinga, fræða einstaklinga um vinnslu persónuupplýsinga þeirra, tilkynna öryggisbresti, framkvæma áhættumat til að meta áhrif á persónuvernd, verða við beiðnum einstaklinga um rétt þeirra ásamt því að fræða starfsfólk um persónuvernd og öryggi upplýsinga.

Isavia metur stjórnkerfi persónuverndar með því að framkvæma innri úttektir sem einnig er hluti af gæðakerfi félagsins. Þá fer fram rýni stjórnenda á stjórnkerfi, niðurstöðum úttekta og viðbrögðum við öryggisbrestum fram a.m.k. einu sinni á ári. Starfsfólk og hagaðilar hafa tækifæri til að koma ábendingum á framfæri til persónuverndarfulltrúa og er fyllsta trúnaðar gætt. Ábendingar eru teknar til greina og nýttar til úrbóta á stjórnkerfinu. Þá nýtir Isavia niðurstöður frá eftirlitsstofnun um persónuvernd bæði sem tækifæri til úrbóta og viðurkenningu á virkni stjórnkerfisins.

Isavia hefur unnið markvisst að því að takmarka vinnslu persónuupplýsinga og tryggja örugga meðhöndlun þeirra þvert á félagið. Til staðar eru virkar öryggisráðstafanir til að hamla því að öryggisbrestir muni eiga sér stað. Brugðist er við öryggisbresti samstundis og hann uppgötvast eða er tilkynntur, við það er rannsókn sett af stað. Við lok rannsóknar eru ávallt lagðar til úrbætur sem unnið er að með það að markmiði að efla öryggisráðstafanir félagsins.

Engin brot á persónuvernd viðskiptavina eða kvartanir hafa borist Isavia frá viðskiptavinum eða eftirlitsstofnunum vegna upplýsinga viðskiptavina árið 2020.