Hoppa yfir valmynd

ENDURVINNSLA

Flokkun soprs og áhrif


Isavia leggur mikla áherslu á sorpflokkun og hefur síðustu ár notað Grænu skrefin til innleiðingar á sorpflokkun fyrirtækisins. Í upphafi ársins 2021 fóru allir starfsmenn Isavia ohf. í gegnum umhverfisfræðslu þar sem ítarlega var fjallað um sorpflokka og mikilvægi hringrásarhugsunar. Sorp sem fer óflokkað frá Isavia ohf. og dótturfélögum fer annað hvort í brennslu í Kölku eða í urðun á hverju landssvæði fyrir sig. Stærstu umhverfisáhrifin af meðhöndlun sorps úr starfsemi Isavia er í gegnum förgun á óflokkuðum úrgangi. Meðhöndlun flokkaðs úrgangs ber lítið kolefnisspor.

Endurvinnsluhlutfall og sorpmagn

Heildarmagn sorps frá Isavia samstæðunni minnkaði mikið árið 2020 frá árinu á undan. Það má rekja beint til samdráttar í starfsemi og fækkun farþega. Á árinu fóru 344 t af sorpi í urðun eða brennslu. Endurvinnsluhlutfall fyrir árið var 41% en Isavia hafði sett sér markmið um að árið 2020 væri hlutfallið 40%. Vinna er hafin við að auka enn frekar sorpflokkun og að draga úr myndun sorps í starfseminni. Á árinu var mikið notað af einnota hönskum og andlitsgrímum sem ekki má endurvinna. Það fór því allt í almennt sorp. Flutningar á skrifstofustarfsemi Isavia ohf. úr turninum á Reykjavíkurflugvelli vegna myglu höfðu einnig áhrif á sorpmagn síðasta árs. Öllum pappír, ásamt fleiri hlutum sem ekki þótti hægt að þrífa var hent eða það sett í endurvinnslu eins og við á. Þrátt fyrir það, tókst að halda endurvinnsluhlutfallinu óbreyttu frá 2019.  

Á síðustu árum hefur Isavia innleitt ýmsar aðgerðir til þess að ná markmiðum sínum í að draga úr sorpi sem fellur til í starfseminni og að auka hlutfall sorps til endurvinnslu, Þar á meðal er söfnun á lífrænum úrgangi

Hlutfall flokkaðs sorps á hvern farþega GRI 306-2

Ár20162017201820192020
Flokkað per farþega0,027 kg14 %0,040 kg20 %0,045 kg27 %0,075 kg41%0,140 kg41%
Óflokkað per farþega0,160 kg86 %0,160 kg80 %0,123 kg73 %0,107 kg59%0,202 kg59%
Samtals per farþega0,187 kg100 %0,200 kg100 %0,168 kg100 %0,182 kg100 %0,342 kg100 %

Aðgerðir í endurvinnslumálum


Á síðustu árum hefur Isavia innleitt ýmsar aðgerðir til þess að ná markmiðum sínum í að draga úr sorpi sem fellur til í starfseminni og að auka hlutfall sorps til endurvinnslu. Þar á meðal er söfnun á lífrænum úrgangi. Sett var af stað verkefni til að vekja starfsmenn og aðra til umhugsunar um matarsóun með fræðslu á innri vef Isavia, skilaboðum á ísskápum og á kaffistofum. Einnig hafa sérfræðingar í umhverfisdeild Isavia unnið með rekstraraðila mötuneytisins á Keflavíkurflugvelli að átaki gegn matarsóun, þar sem gerðar voru vigtunarathuganir og skilaboðum og niðurstöðum mælinga komið á framfæri við gesti á upplýsingaskjá í mötuneytinu. Árið 2020 dróst starfsemi verulega saman og var mötuneyti starfsmanna á Keflavíkurflugvelli lokað.


Isavia hefur síðustu ár, í samstarfi með Terra, boðið starfsmönnum og öðrum sem vilja að sækja sér moltu, að gera það á vorin.

Flugfjarskipti í Gufunesi hafa haldið ótrauð áfram í sínu umhverfisstarfi. Þar er mikil áhersla lögð á sorpflokkun og fer mikill hluti af matarleifum sem til falla í að fóðra hænurnar sem urðu hluti af starfseminni fyrir nokkrum árum síðan.

Á lager Keflavíkurflugvallar við Grænás er tekið við húsbúnaði og nýtilegu byggingaefni sem verður til við breytingar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og öðrum byggingum sem tilheyra flugvellinum. Búnaður er endurnýttur ef þörf er á varahlutum eða sendur á aðra staði á landinu. Hluti af Grænu skrefunum sem Isavia er að innleiða er að vera vakandi yfir möguleikum á endurnýtingu húsbúnaðar og annars efnis innan fyrirtækisins.

Fólkið okkar

- Hænurnar létta lund

Hallgrímur Sigurðsson

Hallgrímur Sigurðsson

Deildarstjóri flugfjarskipta

Hvað kom til að þið hófuð að halda hænur á vinnustaðnum?
Við höfðum verið að hugsa um eitthvað sem gæti lífgað upp á vinnustaðinn og lífið hjá okkur hér í Gufunesi. Það var síðan þegar við ákváðum að hella okkur í umhverfisverndarmálin og nota 

okkur Græn skref sem Umhverfisstofnun heldur utan um, að við fórum í hugmyndavinnu í tengslum við það hvernig við gætum minnkað kolefnisfótspor okkar í lífrænum úrgangi kom hænsna hugmyndin upp. Við ákváðum því að prófa að halda hænur og láta þær éta lífræna úrganginn.

Hvernig gengur að sinna hænunum og hvað þarf sérstaklega að hafa í huga eða varast?
Það gengur vel að sinna hænunum en það lendir þó mest á 3-4 starfsmönnum sem hafa gaman af því. Það er svo sem ekki margt sem þarf að varast en gæta verður að því að þær hafi alltaf nægt vatn að drekka. Svo éta þær ekki allan mat og höfum við verið að kynna það vel fyrir starfsmönnum hvað þær éta, svo ekki sér verið að bera í þær eitthvað sem þarf svo að þrífa burt frá þeim aftur.

Hvað verður um öll eggin sem koma frá þeim og mælið þið með að halda hænur til að lágmarka lífrænt sorp?
Eggin úr hænunum eru dásamlega góð enda ekta landnámshænuegg. Starfsmönnum er heimilt að fá sér egg eftir þörfum en það er mjög vinsælt að menn fái sér t.d. eggjaköku á næturvaktinni, svo dæmi sé tekið. Við mælum eindregið með að hafa hænur, ef því verður viðkomið, til að minnka lífrænan úrgang. Það þarf þó að gera sér grein fyrir því að þessu fylgir vinna en mörgum finnst hún skemmtileg, fyrir utan að þetta vekur áhuga og umtal starfsmanna. Hænurnar stuðla að jákvæðri umræðu og létta andrúmsloftið oft á tíðum á vinnustaðnum.