Isavia leggur mikla áherslu á sorpflokkun og hefur síðustu ár notað Grænu skrefin til innleiðingar á sorpflokkun fyrirtækisins. Í upphafi ársins 2021 fóru allir starfsmenn Isavia ohf. í gegnum umhverfisfræðslu þar sem ítarlega var fjallað um sorpflokka og mikilvægi hringrásarhugsunar. Sorp sem fer óflokkað frá Isavia ohf. og dótturfélögum fer annað hvort í brennslu í Kölku eða í urðun á hverju landssvæði fyrir sig. Stærstu umhverfisáhrifin af meðhöndlun sorps úr starfsemi Isavia er í gegnum förgun á óflokkuðum úrgangi. Meðhöndlun flokkaðs úrgangs ber lítið kolefnisspor.
Endurvinnsluhlutfall og sorpmagn
Heildarmagn sorps frá Isavia samstæðunni minnkaði mikið árið 2020 frá árinu á undan. Það má rekja beint til samdráttar í starfsemi og fækkun farþega. Á árinu fóru 344 t af sorpi í urðun eða brennslu. Endurvinnsluhlutfall fyrir árið var 41% en Isavia hafði sett sér markmið um að árið 2020 væri hlutfallið 40%. Vinna er hafin við að auka enn frekar sorpflokkun og að draga úr myndun sorps í starfseminni. Á árinu var mikið notað af einnota hönskum og andlitsgrímum sem ekki má endurvinna. Það fór því allt í almennt sorp. Flutningar á skrifstofustarfsemi Isavia ohf. úr turninum á Reykjavíkurflugvelli vegna myglu höfðu einnig áhrif á sorpmagn síðasta árs. Öllum pappír, ásamt fleiri hlutum sem ekki þótti hægt að þrífa var hent eða það sett í endurvinnslu eins og við á. Þrátt fyrir það, tókst að halda endurvinnsluhlutfallinu óbreyttu frá 2019.