Hoppa yfir valmynd

UMHVERFISMÁL

Stefna í umhverfismálum

Umhverfið

Isavia hefur, líkt og flest önnur fyrirtæki, glímt við mikinn samdrátt á liðnu ári. Þrátt fyrir það hefur félagið haldið ótrautt áfram við að vinna að umbótum í umhverfismálum. Félagið hefur það að leiðarljósi að halda neikvæðum umhverfisáhrifum af starfseminni í lágmarki í sátt og samvinnu við samfélagið og farþega og vera þannig hluti af góðu ferðalagi.

Í apríl 2015 setti Isavia sér umhverfisstefnu. Ötullega hefur verið unnið að markmiðum stefnunnar síðan þá í samræmi við aðgerðaáætlun í umhverfis- og loftslagsmálum. Núverandi áætlun gildir fyrir tímabilið 2020-2021. Í henni eru settar fram ýmsar aðgerðir sem miða að því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum starfseminnar. Þar er meðal annars lögð áhersla á endurnýjun bílaflota í vistvænni ökutæki, aukna sorpflokkun, uppbyggingu innviða fyrir vistvæn ökutæki og kolefnisjöfnun, svo fátt eitt sé nefnt.

Vinna við innleiðingu á ISO14001 umhverfisstjórnunarstaðlinum fyrir Isavia ohf. hófst á árinu og mun henni ljúka á vordögum 2021.


Meðal aðgerða til að ná markmiðum félagsins er áhersla á endurnýjun bílaflota í vistvænni ökutæki, aukna sorpflokkun, uppbyggin innviða fyrir vistvæn ökutæki og kolefnisjöfnun starfseminnar

Fólkið okkar

- vöktun umhverfisþátta

Gunnhildur Georgsdóttir

Gunnhildur Ingibjörg Georgsdóttir

Sérfræðingur í umhverfisdeild

Hvað felst í að innleiða ISO14001 og af hverju hóf Isavia þá vinnu?
ISO 14001 snýst um að hafa sterkt og gott umhverfisstjórnunarkerfi innan fyrirtækisins sem er vottað af þriðja aðila. Það felur í sér að greina alla umhverfisþætti starfseminnar, setja sér markmið, setja af stað vöktun á hverjum og einum þætti og ákveða hvernig þeim er stýrt í átt að settu markmiði.

Umhverfismál eru ofarlega á baugi hjá Isavia og því vill félagið ekki eiga það á hættu að missa sjónar á þeim í hinu daglega amstri.

Hverjir eru helstu umhverfisþættirnir í starfseminni og hvernig eru þeir vaktaðir?
Helstu umhverfisþættir hjá okkur eru útblástur vegna ökutækja, ferða starfsmanna og eldvarnaæfinga. Einnig sorp, hljóðvist vegna flugumferðar, loftgæði, grunnvatn á svæðinu og rafmagn. Þetta er þó alls ekki tæmandi listi.
Við vöktum magn eldsneytis og sorps mánaðarlega með umhverfisvöktunarkerfinu Klöppum, þar sem við fáum tölur beint inn í kerfið frá þjónustuaðilum okkar. Sama kerfi heldur utan um alla rafmagnsnotkun fyrirtækisins.

Fjórir hljóðmælar í Reykjanesbæ sem Isavia setti upp árið 2017 gefa okkur góða mynd af þeim hávaða sem verður í nærbyggðinni vegna flugumferðar.

Þetta eru símælingar sem eru tengdar við flughreyfingar og getum við og íbúar því fylgst með hljóði frá öllu flugi. Einnig geta allir sent ábendingar til okkar í gegnum kerfið.
Til þess að fylgjast með grunnvatninu fáum við reglulega utanaðkomandi sérfræðinga til að taka grunnvatnssýni inn á svæði hjá okkur og greina magn ýmissa efna.

Hver er ávinningurinn fyrir fyrirtækið að hafa virkt umhverfisstjórnunarkerfi?
Isavia hefur sett sér metnaðarfull markmið í umhverfismálum og þá er virkt umhverfisstjórnunarkerfi mjög góð leið til að vinna stöðugt að þeim markmiðum, missa ekki sjónar á þeim og minnka stöðugt umhverfisáhrif fyrirtækisins.

Við innleiðinguna voru mikilvægir umhverfisþættir í starfsemi Isavia ohf. greindir. Ítarleg vöktunaráætlun fyrir þessa þætti var sett upp og helsta umhverfisáhætta í starfseminni metin. Isaviaskólinn hafði yfirumsjón með uppsetningu á rafrænu námskeiði fyrir starfsmenn um umhverfisstefnu, aðgerðir í umhverfismálum og innleiðingu staðalsins, í samvinnu við umhverfisdeild Isavia. Námskeiðinu var svo ýtt úr vör í upphafi 2021.

Ein eining hjá Isavia ANS, flugfjarskipti í Gufunesi, hefur verið með ISO14001 vottun frá árinu 2018.

Eitt stórt mengunaróhapp varð á Keflavíkurflugvelli á síðasta ári. Það óhapp tengdist því þegar lendingabúnaður Boeing 757 vél Icelandair gaf sig. Rúmlega fimm þúsund lítrar af flugvélaeldsneyti láku á aðra flugbrautina. Sérþjálfað starfsfólk flugvallaþjónustu Keflavíkurflugvallar hreinsaði upp alla mengun áður en hún náði niður í jarðveginn við hlið flugbrautar. Frost var í jörðu sem hjálpaði og því þurfti engin jarðvegsskipti eftir þetta óhapp. Einnig áttu nokkur minniháttar eldsneytisóhöpp sér stað við áfyllingu á flughlaði á Keflavíkurflugvelli. Þar er um að ræða minniháttar leka á malbik sem hreinsaðir eru upp.

Engir úrskurðir hafa fallið þar sem félagið hefur verið talið brjóta gegn umhverfisverndarlögum.

Vatn

Isavia er meðvitað um mikilvægi þess að varðveita ferskleika og hreinleika grunnvatns í nærumhverfinu. Á Keflavíkurflugvelli hefur Verkís haft yfirumsjón með grunnvatnsrannsóknum. Sýni hafa verið tekin árlega frá árinu 2017. Enn eru að mælast óæskileg efni í grunnvatni á svæðinu sem flest má rekja til starfsemi þriðja aðila á árum áður, en þó í lágum styrk. Vísbendingar eru um að ástand grunnvatns á flugvallasvæðinu fari batnandi. Isavia mun halda áfram mælingum og vöktun á gæðum grunnvatns.

Isavia sækir vatn sitt í veitur hvers staðar fyrir sig og hefur ekki endurnýtt eða endurunnið vatn af flugvallasvæðum. Isavia hefur bætt fráveitulagnir undanfarin ár á alþjóðaflugvöllum sem jafnan tengjast fráveitukerfum viðkomandi sveitarfélaga. Árið 2016 var unnið að endurbótum á fráveitulögn frá vesturhluta Keflavíkurflugvallar sem fer í sjó fram. Þá var reist tveggja þrepa dælu– og hreinsistöð við Djúpavík sunnan Stafness í Sandgerðisbæ og ný og lengri útrás lögð í sjó fram. Að öðru leyti nýtir Isavia sér fráveitukerfi þeirra sveitarfélaga sem hver starfsstöð er í og er viðtakinn í öllum tilfellum sjór, en mismunandi er hversu mikil hreinsun er á fráveituvatninu. Olíuskiljur og settjarnir taka við bróðurparti þeirra mengandi efna sem að öðrum kosti myndu enda í fráveitunni.


Efnanotkun

Afísingarefni, ásamt sandi, eru notuð á flugbrautir og flughlöð til þess að koma í veg fyrir að yfirborðið verði hált og skapi hættu fyrir umferð flugvéla, ökutækja og annara sem um þau svæði fara. Á Keflavíkurflugvelli eru notuð bæði afísingarkorn og afísingarvökvi. Efnin eru annars vegar úr natríumformati og hins vegar úr kalíumformati. Þau eru vottuð með umhverfismerkinu Bláa englinum. Þau eru lífbrjótanleg, hafa lítil eitrunaráhrif á vatnsbúskap og uppfylla allar tilskyldar umhverfis- og vistfræðilegar kröfur. Á innanlandsvöllum er nánast eingöngu notaður sandur.

Notkun afísingarefna dróst saman milli ára, en það má rekja til samdráttar í umsvifum og minni notkunar fjarstæða. Notkun fer einnig eftir veðurfari. Veturinn 2019-2020 var vetrarþjónusta veitt á Keflavíkurflugvelli í 141 dag. Við snjóhreinsun voru unnar 5460 vélastundir.

Magn afísingarefna á flugvöllum GRI G4-A06


20162017201820192020
Clearway SF3 afísingarkorn27 tonn58 tonn123 tonn129 tonn107 tonn
Clearway F1 afísingarvökvi54.300 l79.959 l216.000 l438.000 l219,000 l

Flugvallasvæði Isavia eru eins fjölbreytt hvað varðar lífríki eins og þau eru mörg. Reykjanesskaginn er Unesco jarðvangur og hefur mikla sérstöðu hvað varðar jarðminjar, sumar sem eru einstakar á heimsvísu. Líklega þekktasta dæmið þar um er hversu vel má sjá flekaskil Evrasíu – og Norður-Ameríkuflekana. Þó engar jarðminjar sé að finna á flugvallasvæði Keflavíkurflugvallar, er hann vissulega staðsettur á mjög jarðfræðilega merkilegu landsvæði.

Isavia hefur fylgst mjög vel með dýra- og fuglalífi innan sinna flugvallasvæða og greint nánasta umhverfi þeirra. Svæðin eru verulega fjölbreytt hvað varðar gróðurfar og fæðuframboð og því er ásókn villtra dýra og fugla mjög mismunandi á hverjum stað fyrir sig. Aðgerðir sem stuðla að minni hættu fyrir flugfarþega og minnka líkur á árekstri dýrs og flugvélar eru mikilvægur hluti af rekstri flugvalla. Fjölbreyttar aðferðir eru nýttar til fælinga dýra og fugla, m.a. búsvæðastjórnun.


Isavia hefur árum saman fylgst vel með dýralífi á flugvöllum um allt land. Starfsfólk Isavia sem sinnir dýralífsmálum skráir fjölda og tegundir þeirra dýra sem sjást á flugvöllunum. Mikil vinna fer í að fylgjast með og kortleggja atferli dýra, sérstaklega fugla, í og við flugvelli. Því býr það starfsfólk, sem þessu sinnir, yfir mikilli þekkingu í dýralífsstjórnun. Árið 2018 fékk Isavia Náttúrustofu Reykjaness og Þekkingasetur Suðurnesja til þess að gera ítarlega úttekt á fuglalífi Keflavíkurflugvallar. Síðast hafði slík úttekt verið gerð árið 1975. Niðurstöður þessarar rannsóknar hafa verið nýttar af starfsfólki flugvallarins til þess að bæta búsvæða- og dýralífsstjórnun á svæðinu.

Isavia skráir alla mögulega árekstra fugla og annarra villtra dýra við flugvélar á öllum sínum flugvöllum. Á síðasta ári voru 9 staðfestir árekstrar fugla við flugvélar á Keflavíkurflugvelli. Á innanlands-flugvöllunum voru ekki skráðir neinir árekstrar fugla við flugvélar.

Heildarfjöldi árekstra fugla við flugvélar árið 2020 GRI G4-A09


201820192020
Heildarfjöldi flughreyfinga193.070173.176103,920
Fjöldi árekstra fugla35239
Árekstrar fugla á hverjar 10.000 flughreyfingar
1.8
1.25
0,87

Hér að neðan eru þær tegundir villtra dýra og fugla sem sáust á flugvallasvæði á síðasta ári teknar saman. Þær eru flokkaðar eftir válista Náttúrufræðistofnunar Íslands. Einnig er gerð grein fyrir lagalegri stöðu þeirra hér á landi ásamt flokkun þeirra á válista alþjóða náttúruverndarsamtakanna IUCN. Stofnstærð hérlendis getur verið frábrugðin stofnstærðum á heimsvísu því njóta sumar tegundir verndar samkvæmt íslenskum lögum þó þær teljist ekki í hættu samkvæmt IUCN. 

Fjöldi tegunda á válista IUCN RED og tegundir í innlendum verndarflokki á
áhrifasvæði rekstrar GRI 403-4

TegundFræðiheitiStaða á ÍslandLagaleg staða innanlandsHeimsválisti ICUN
SvartbakurLarus marinusÍ hættu (EN)Ekki friðaðurEkki í hættu (LC)
KjóiStercorarius ParasiticusÍ hættu (EN)Friðaður nema við friðlýst æðavarp á tímabilinu 15/4 - 4/7Ekki í hættu (LC)
TjaldurHaematopus ostralegusÍ nokkurri hættu (VU)FriðaðurÍ yfirvofandi hættu (NT)
ÆðarfuglSomateria mollissimaÍ nokkurri hættu (VU)FriðaðurÍ yfirvofandi hættu (NT)
HrafnCorvus coraxÍ nokkurri hættu (VU)Ekki friðaðurEkki í hættu (LC) 
KríaSterna paradisaeaÍ nokkurri hættu (VU)FriðuðEkki í hættu (LC)  
StelkurTringa totanusÍ nokkurri hættu (VU)FriðaðurEkki í hættu (LC)  
BranduglaAsio flammeusÍ yfirvofandi hættu (NT)FriðuðEkki í hættu (LC)  
RjúpaLagopus mutaÍ yfirvofandi hættu (NT)Friðuð, nema á ákv. dögum á tímabilinu frá 1/11 til 30/11 Ekki í hættu (LC) 
StormmáfurLarus canusEkki í hættu (LC)  FriðaðurEkki í hættu (LC)  
ÁlftCygnus cygnusEkki í hættu (LC)  FriðuðEkki í hættu (LC)  
StokköndAnas platyrhynchosEkki í hættu (LC)  Friðaður nema frá  1/9 til 15/3Ekki í hættu (LC)  
GrágæsAnser anserEkki í hættu (LC)  Friðuð nema frá 20/8 til 15/3Ekki í hættu (LC)  
HeiðargæsAnser brachyrhynchusEkki í hættu (LC)  Friðuð nema frá 20/8 til 15/3Ekki í hættu (LC)  
HeiðlóaPluvialis apricariaEkki í hættu (LC)  FriðuðEkki í hættu (LC)  
HettumáfurLarus ridibundusEkki í hættu (LC)  Friðaður nema frá  1/9  til 15/3Ekki í hættu (LC)