Hoppa yfir valmynd

MARKMIÐ OG ÚRBÆTUR

Isavia hefur sett markmið í samfélagslegri ábyrgð fyrir árið 2019. Við val á markmiðum og úrbótaverkefnum þeim tengdum var horft til starfsemi fyrirtækisins og stefnu, ábendinga ytri hagaðila, Heimsmarkmiðanna og áherslna stjórnvalda þeim tengdum.

Mikilvægir þættir hjá Isavia 

Isavia gerir samfélagsskýrslu sína samkvæmt GRI (Global Reporting Initiative) Standards: Core ásamt sérákvæðum GRI-G4 um flugvelli. Sérákvæðin taka sérstaklega á þeim áskorunum og tækifærum sem flugvellir standa frammi fyrir þegar kemur að sjálfbærni. Horft er til starfsemi félagsins og þeirra áhrifa sem hún hefur á efnahag, umhverfi og samfélagið. Til að meta þau var ákveðið að fá utanaðkomandi ráðgjafafyrirtæki til að taka viðtöl við fulltrúa úr þeim fimm megin hagaðilahópum sem félagið hefur skilgreint. Tekin voru tíu viðtöl haustið 2018 þar sem væntingar þeirra til samfélagsábyrgðar félagsins komu fram.

Niðurstöðurnar voru kynntar fyrir framkvæmdastjórn fyrirtækisins og notaðar til að velja markmið fyrir árið 2019 í málaflokknum. Teymi fulltrúa starfsmanna frá öllum sviðum fyrirtækisins komu einnig með tillögur inn í markmiðssetninguna út frá starfsemi sinna sviða. Sérfræðingar hjá Isavia horfðu á niðurstöðurnar í samræmi við áhersluatriði úr stefnumótun fyrirtækisins og stilltu upp mikilvægustu þáttum út frá því. Tillögur um markmið voru lögð fyrir forstjóra og framkvæmdastjórn til samþykktar og fyrir stjórn til kynningar.


Markmið ársins 2019 og árangur 2018

Isavia setti átta markmið í samfélagslegri ábyrgð fyrir árið 2019. Við val á markmiðum og úrbótaverkefnum þeim tengdum var horft til eðlis fyrirtækisins og stefnu, ábendinga ytri hagaðila, heimsmarkmiðanna og áherslna stjórnvalda þeim tengdum. Um leið var horft til úrbótatækifæra út frá GRI þáttunum, skuldbindingum félagsins við meginreglur UN Global Compact og við hvatningaverkefnið „Ábyrg ferðaþjónusta“, sem Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð og Íslenski ferðaklasinn stóðu að. Air Transport Action Group (ATAG), sem eru samtök innan fluggeirans með það að markmiði að stuðla að sjálfbærum vexti, tengir heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna við hugmyndir að úrbótaverkefnum fyrir fyrirtæki í flugtengdri starfsemi. Félagið horfði einnig til áhersluþátta í þeirra vinnu. Markmið ársins 2019 tengjast sex af heimsmarkmiðunum sautján.

Heimsmarkmið 3: Heilsa og vellíðan

Félagið setti sér markmið um að fækka slysum á starfsmönnum sem leiða til fjarveru árið 2018. Markmiðið tengist heimsmarkmiði 3 óbeint og þá helst markmiði 3.6 sem gerir ráð fyrir að „helminga fjölda dauðsfalla og slysa vegna umferðarslysa“ fyrir árið 2020. Í skýrslu Air Transport Action Group (ATAG) var þetta heimsmarkmið tengt síþjálfun í öryggisvitund í samhengi við fluggeirann og notar Isavia það viðmið. Fjarveruslysum fjölgaði úr sjö í ellefu á árinu. Þar af urðu sex slys vegna vinnuaðstöðu en hin fimm af öðrum ástæðum. Haldið verður áfram með markmiðið árið 2019.

Heimsmarkmið 5: Jafnrétti kynjanna

Isavia setti sér annars vegar markmið um sömu laun fyrir jafn verðmæt störf og hins vegar að fjölga kvenkyns stjórnendum í þriðja stjórnendaþrepi fyrirtækisins, þ.e. millistjórnendum. Aðgerðir Isavia tengdust heimsmarkmiði 5.1 þar sem gert er ráð fyrir að „útrýma allri mismunun gagnvart konum og stúlkum alls staðar“ og einnig markmiði 5.5 þar sem gert er ráð fyrir að „tryggja fulla og skilvirka þátttöku kvenna og jöfn tækifæri til forystu á öllum stigum ákvarðanatöku í pólitík, efnahagslegu- og opinberu lífi“. Unnið var sérstaklega með undirmælikvarðann 5.5.2 sem mælir hlutfall kvenna í stjórnendastöðum.

Isavia lauk faggiltri vottun á jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012 árið 2018 og náðist því markmið um að útrýma óútskýrðum launamun kynjanna. Kvenkynsstjórnendum á þriðja stjórnendaþrepi fyrirtækisins fjölgaði vegna breytinga á vægi starfa úr 14 í 16%. Ákveðið var að umorða markmiðið og hafa það til lengri tíma.


Heimsmarkmið 8: Góð atvinna og hagvöxtur

Isavia notar áhættustýringu í miklum mæli í tengslum við rekstrar- og starfsleyfisskyld málefni hjá fyrirtækinu. Í ár er sett markmið um að fyrirtækið geri heildstæða nálgun við áhættustýringu svo tryggt verði að hún nái yfir samfélagsábyrgð fyrir árið 2024. Gert er ráð fyrir að ná utan um núverandi stöðu og gera innleiðingaráætlun á árinu 2019. Markmiðið tengist heimsmarkmiði 8.

Heimsmarkmið 12: Ábyrg neysla og framleiðsla

Isavia setti sér það markmið árið 2018 að auka hlutfall flokkaðs úrgangs í starfseminni. Þetta tengist heimsmarkmið 12 um ábyrga neyslu og þá sérstaklega markmiði 12.6 sem tilgreinir að dregið verði „verulega úr úrgangi með forvörnum, minnkun, endurvinnslu og endurnotkun“ fyrir árið 2030. Sett var markmið um að auka hlutfall endurvinnanlegs úrgangs um a.m.k. 5% á hvern farþega á milli ára sem náðist. Fyrir árið 2019 var ákveðið að horfa einnig til markmiðs 12.1 undir heimsmarkmiði 12.

Félagið setti sér einnig markmið um að gera innkaup félagsins sýnilegri, rekjanlegri og aðgengilegri og innleiða í tengslum við það siðareglur birgja sem voru samþykktar af yfirstjórn á síðasta ári. Siðareglurnar eru settar í samræmi við tíu meginþætti alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna (UN Global Compact) og ná yfir vinnumál, mannréttindi, umhverfismál og aðgerðir gegn spillingu. Þetta tengist markmiði 12.6 hjá Sameinuðu þjóðunum sem m.a. „hvetur fyrirtæki til að samþykkja sjálfbæra starfshætti“ og 12.7 sem gerir ráð fyrir að „stuðla að opinberum innkaupum sem eru sjálfbær, í samræmi við innlendar stefnur og forgangsröðun“. Þessi markmið náðust og sett er eitt nýtt í þessum flokki fyrir árið 2019 um að efla skilvirkt eftirlit með innkaupum hjá Isavia.

Heimsmarkmið 13: Aðgerðir í loftslagsmálum

Félagið setti sér það markmið að minnka notkun jarðefnaeldsneytis á hvern farþega sem fer um flugvelli þess. Það tengist markmiði 13.2 undir heimsmarkmiði 13, að „samtvinna mælikvarða á loftslagsbreytingar inn í stefnumótun og áætlanagerð“. Þá er Isavia þátttakandi í svonefndu Airport Carbon Accreditation kerfi á vegum Alþjóðasamtaka flugvalla. Kerfið veitir flugvöllum sameiginlegan ramma til að vinna markvisst að minnkun kolefnisspors í starfseminni. Lokamarkmiðið er að ná kolefnisjöfnun. Keflavíkurflugvöllur hefur verið þátttakandi í verkefninu í þrjú ár. Sett hafa verið markmið til ársins 2030 um minnkun kolefnislosunar og unnið að ítarlegri aðgerðaráætlun til að styðja við það markmið. Það náðist 1,5% minnkun á notkun jarðefnaeldsneytis árið 2018, sem var undir væntingum. Haldið verður áfram með markmiðið árið 2019 og það sett til lengri tíma.

Heimsmarkmið 17: Samvinna um markmiðin

Isavia hefur frá stofnun unnið að því að fá flugfélög og farþega til landsins. Kallað hefur verið eftir nánar samstarfi í þeim efnum með hagaðilum í nágrenni flugvalla landsins.

Aðgerðir tengdar samvinnu snúa að því að efla enn frekar samvinnu við ytri hagaðila félagsins með markvissum og samræmdum samskiptum. Það tengist markmiði 17.17 hjá Sameinuðu þjóðunum sem gerir m.a. ráð fyrir að félagið “hvetji til og efli skilvirkt samstarf almennings, opinberra- og einkaaðila“. Það náðist að uppfylla markmiðið að hluta árið 2018, en verður unnið með það áfram árið 2019.

Sem liður í því hefur Isavia uppi áform um að setja á fót samstarfsvettvang með sveitarfélögum á Suðurnesjum. Þau komi öll að borðinu og eigi í virku samstarfi við Isavia um mikilvæg málefni sem snerta bæði flugvöllinn og nærsamfélagið. Um er að ræða stefnumótunarvinnu sem tengd verður heimsmarkmiðunum.