Isavia er opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins. Um starfsemi félagsins gilda lög nr. 153/2009 um samruna opinberu hlutafélaganna Flugstoða og Keflavíkurflugvallar, lög nr. 76/2008 um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar, lög nr. 102/2006 um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu, flugvallarrekstur Flugmálastjórnar og lög um loftferðir nr. 60/1998.
Stjórnarhættir félagsins taka mið af lögum nr. 2/1995 um hlutafélög, samþykktum félagsins og starfsreglum stjórnar.
Stjórn félagsins hefur í störfum sínum Leiðbeiningar um stjórnarhætti til hliðsjónar og uppfyllir þær í öllum meginatriðum þrátt fyrir að það sé ekki skylt lögum samkvæmt. Helstu frávik eru að ekki er starfandi tilnefningarnefnd hjá félaginu þar sem tilnefning í stjórn félagsins er hjá Fjármála- og efnahagsráðherra sem fer með hlut ríkisins í félaginu. Tvær undirnefndir starfa undir stjórninni sem eru starfskjaranefnd og endurskoðunar-nefnd.
Reikningsár Isavia er almanaksárið. Ársreikninga félagsins er hægt að nálgast hjá Ársreikningaskrá sem og á heimasíðu félagsins www.isavia.is
Ekki hafa fallið dómar þar sem starfsemi félagsins er talin hafa brotið í bága við lög eða reglur.
Lög um félagið má nálgast á vef Alþingis, www.althingi.is, og samþykktir og starfsreglur á heimasíðu félagsins www.isavia.is. Leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja er hægt að nálgast á heimasíðu Viðskiptaráðs Íslands, www.vi.is.
Stjórn Isavia
Í stjórn Isavia sitja fimm einstaklingar, og fimm til vara, kjörnir á aðalfundi til eins árs í senn. Stjórn er tilnefnd til stjórnarsetu af fjármála- og efnahagsráðherra. Kynjahlutfall í stjórn er 40% konur og 60% karlar. Allir sem sitja í stjórn teljast vera óháðir í skilningi leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja. Allir hafa gefið stjórninni skýrslu um eignir sínar í öðrum félögum sem hafa ekki áhrif á störf þeirra í stjórn.