Hoppa yfir valmynd
2.9.2025
Áætlunarflug Icelandair til Hafnar hafið

Áætlunarflug Icelandair til Hafnar hafið

Icelandair hóf í dag áætlunarflug á milli Reykjavíkur og Hafnar í Hornafirði og var fluginu fagnað á Hornafjarðarflugvelli. Flogið verður fimm sinnum í viku á 37 sæta flugvélum af tegundinni DHC-8-200.


Höfn er fjórði áfangastaður Icelandair innanlands en fyrir flýgur félagið til Akureyrar, Ísafjarðar og Egilsstaða.
Sigrún Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla fagnar komu Icelandair. „Þessi tenging milli Hafnar í Hornafirði og Reykjavíkur er mikilvæg fyrir samfélagið hér og landið allt. Það er gleðiefni að bjóða Icelandair velkomið á Höfn.“



„Það er mjög ánægjulegt að bæta Höfn við leiðakerfi okkar innanlands,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Vegagerðin samdi við Icelandair um áætlunarflugið milli Reykjavíkur og Hornafjarðar í maí síðastliðnum. Samningurinn gildir til loka ágúst 2028. Heimilt er að framlengja samninginn í eitt ár í senn, að hámarki tvö.