
Flugslysaæfing á Reykjavíkurflugvelli laugardaginn 4. október 2025
Á flugslysaæfingu verður æft heildarferli aðgerða vegna flugslysa. Helstu viðbragðsaðilar innan sem utan flugvallarins koma að æfingunni, þ.e. Almannavarnir, Isavia, starfsfólk Reykjavíkurflugvallar, björgunarsveitir, starfsfólk Landspítalans og heilbrigðisstarfsfólk, lögregla, slökkvilið, Landhelgisgæslan, Rauði krossinn og fleiri aðilar sem að slysaviðbúnaði koma. Þá taka aðrir sjálfboðaliðar að sér að leika slasað fólk á vettvangi.
Gera má ráð fyrir að þátttakendur í flugslysaæfingunni verði á bilinu 300 til 350. Slysavettvangur verður settur upp og til þess verður komið fyrir braki á hluta vallarsvæðisins, og eldur verður kveiktur til að skapa sem raunverulegastar aðstæður. Íbúar á höfuðborgarsvæðinu gætu því séð reyk koma frá Reykjavíkurflugvallarsvæðinu og er það vegna æfingarinnar. Þá má búast við aukinni umferð viðbragðsaðila nærri flugvellinum vegna æfingarinnar og gæti umferð þá mögulega takmarkast vegna þessa milli kl. 12 og 16 laugardaginn 4. október næstkomandi.
Á þriggja til fjögurra ára fresti er haldin stór flugslysaæfing á hverjum flugvelli á Íslandi þar sem boðið er upp á áætlunarflug. Tvær til fjórar æfingar eru haldnar á hverju ári. Isavia og viðbragðsaðilar hafa haldið á níunda tug flugslysaæfinga frá árinu 1996. Æfingin á Reykjavíkurflugvelli er sú þriðja á þessu ári en í apríl var æfing á Vestmannaeyjaflugvelli og í september á Þórshafnarflugvelli. Síðast var æfing á Reykjavíkurflugvelli í október 2022.
Á næsta ári verða æfingar á flugvöllunum á Akureyri, Ísafirði og Vopnafirði.