
350 þátttakendur á flugslysaæfingu á Reykjavíkurflugvelli
350 sjálfboðaliðar og viðbragðsaðilar tóku þátt í umfangsmikilli flugslysaæfingu á Reykjavíkurflugvelli um helgina. Þar var æft heildarferli aðgerða vegna flugslysa sem einnig nýtist sem hópslysaæfing fyrir þá aðila sem að slíkum slysum koma hér á landi ásamt Almannavörnum.
Slysavettvangur var settur upp þannig að braki var komið fyrir á hluta vallarsvæðisins. Eldur var kveiktur í bílhræjum til að skapa sem raunverulegastar aðstæður.
„Æfingin gekk vonum framar,“ segir Friðfinnur Freyr Guðmundsson, verkefnastjóri neyðarviðbúnaðar hjá Isavia og æfingarstjóri. „Nú er hafin sú vinna að rýna viðbrögð við þeim aðstæðum sem voru settar á svið. Verkefnið næstu daga er að fara yfir hvað gekk vel á æfingunni og einnig það sem hægt væri að gera betur.“
„Æfingar af þessu tagi eru afskaplega mikilvægar fyrir okkur á flugvellinum en einnig alla viðbragðsaðila,“ segir Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla sem rekur Reykjavíkurflugvöll. „Það var gaman að fylgjast með hversu vel vinnan gekk í dag og hvað allir viðbragðsaðilar eru vel samhæfðir ef válega atburði ber að höndum.“
Æfingin á Reykjavíkurflugvelli var sú þriðja og síðasta á þessu ári af reglubundnum æfingum á innanlandsflugvöllum. Á næsta ári verða flugslysaæfingar á flugvöllunum á Akureyri, Ísafirði og Vopnafirði.