
Góð þátttaka í flugslysaæfingu á Þórshafnarflugvelli
Það voru um 75 manns sem tóku þátt í reglubundinni flugslysaæfingu sem haldin var á flugvellinum á Þórshöfn laugardaginn 13. september 2025. Æfingar af þessu tagi eru mikilvægur hluti af heildarviðbragðskerfi Íslands hvort sem um er að ræða flugslys eða önnur hópslys sem geta orðið.
Á þriggja til fjögurra ára fresti er haldin stór flugslysaæfing á hverjum flugvelli á Íslandi þar sem boðið er upp á áætlunarflug. Tvær til fjórar æfingar eru haldnar á hverju ári. Æfingin á Þórshöfn var önnur flugslysaæfingin á þessu ári en sú fyrsta var í Vestmannaeyjum í apríl. Síðast var flugslysaæfing á flugvellinum á Þórshöfn 2022.
Isavia og samstarfaðilar hafa haldið á níunda tug flugslysaæfinga frá árinu 1996. Þær eru haldnar í nánu samstarfi við viðbragðsaðila á hverjum stað. Þar á meðal eru starfsmenn flugvallarins, lögregla, slökkvilið, sjúkraflutningsaðilar, starfsfólk sjúkrahúsa, almannavarnir, björgunarsveitir, Rauði krossinn og rannsakendur.
Meðal þátttakenda í æfingunni á Þórshöfn voru sjálfboðaliðar sem léku slasað fólk. Sett var á svið flugslys þar sem flugvél hlekktist á við lendingu og brotlenti með þeim afleiðingum að eldur braust út í vélinni. Til að gera vettvanginn sem raunverulegastan var kveikt í bílflökum til að líkja eftir flugvélarbúk.
„Æfingin gekk afskaplega vel og nú munum við að rýna viðbrögðin og fara yfir það sem gekk vel og það sem þarfnast umbóta,“ segir Elva Tryggvadóttir, verkefnastjóri neyðarviðbúnaðar hjá Isavia og æfingastjóri.
„Æfingarnar sem þessar eru þýðingarmiklar fyrir alla íslenska flugvelli en þó ekki hvað síst fyrir nærsamfélagið við alla flugvelli á Íslandi," segir Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla, sem rekur Þórshafnarflugvöll ásamt öðrum íslenskum innanlandsflugvöllum og lendingarstöðum. „Það var afskaplega gaman að heyra af því hve vel gekk á þessari æfingu. Allir viðbragðsaðilar voru vel viðbúnir og brugðust við aðstæðum æfingarinnar af fagmennsku og þekkingu. Þessi reynsla eflir hópinn og undirbýr enn frekar ef vá ber að höndum.“
„Við viljum þakka öllum þeim fjölmörgu aðilum sem komu að æfingunni fyrir afskaplega gott samstarf,“ segir Elva. „Það er svo mikilvægt að eiga í góðu samstarfi við íbúa nærri flugvöllunum okkar og við viðbragðsaðila í héraði og á landsvísu."
Næsta flugslysaæfing verður á Reykjavíkurflugvelli laugardaginn 4. október. Árið 2026 verða síðan æfingar á flugvöllunum á Akureyri, Ísafirði og Vopnafirði.