Hoppa yfir valmynd
21.11.2024
Flugferlar við Akureyrarflugvöll

Flugferlar við Akureyrarflugvöll

Í tilefni umræðu um aðflugsferla við Akureyrarflugvöll skrifaði Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóra Isavia Innanlandsflugvalla, grein sem birt var í fréttamiðlinum Akureyri.net 20. nóvember 2024

Sigrún segir Akureyrarflugvöll góðan og öruggan flugvöll sem sé skipaður þrautþjálfuðu fólki bæði í flugumferðarþjónustu og í flugvallaþjónustu. Flugsamgöngur við völlinn hafi gengið vel, bæði í millilanda-og innanlandsflugi þó veðuraðstæður geti alltaf skapast sem hamlað geta flugi en það er hlutur sem lítið er ráðið við.

Verkefni við aðflugsferla við Akyreyrarflugvöll hófst árið 2022 og hefur því staðið í rúm tvö ár og segir Sigrún það ekki óeðlilega langan tíma fyrir flókið verkefni af þessu tagi.

Á flugvellinum hefur verið notuð um langa hríð skiparatsjá til aðstoðar við aðflugið. Hún er orðin gömul og er rekin á undanþágum og ljóst var að hún gæti ekki þjónað flugvellinum til framtíðar. Isavia Innanlandsflugvellir og Isavia ANS settu af stað þróunarverkefni árið 2022 til að skoða þær úrbótaleiðir sem myndu taka við ratsjáraðfluginu. Verkefnið var unnið í góðri samvinnu við innlenda flugrekendur. Þar var farið yfir kostina í stöðunni og aðstæður greindar.

Áramótin 2023/2024 var lokið við frumhönnun á tveimur tegundum ferla (RNP-AR og A-RNP) til að skoða fýsileika og lágmörk og verða það fyrstu ferlar sinnar tegundar sem eru hannaðir hér og innleiddir. Er nú verið að ljúka hönnun þeirra en ferlið er flókið og þá þarf að staðfesta, ljúka flugprófunum, fara yfir öryggisferla flugumferðarþjónustu og fá samþykki Samgöngustofu. Isavia Innanlandsflugvellir og Isavia ANS hafa lagt mikla vinnu í að þróa besta kostinn, í miklu samráði við alla hlutaðeigandi, og ef ekkert óvænt kemur upp í prófunum og öryggisferlum er stefnt að gildistöku flugferlanna þann 15. maí næstkomandi eða í síðasta lagi um sumarið 2025.

Greinina má lesa í heild sinni hér www.akureyri.net/is/frettir/flokid-verkefni-ekki-oedlilega-langur-timi